Næsta skref.

Greinar

Ef hallinn á þjóðarbúinu minnkar úr 10%, sem hann er á þessu ári, í 5% á næsta ári, hefur ríkisstjórnin náð hálfum árangri með bráðabirgðalögunum í ágúst og september. En hinn helminginn þarf líka, ef duga skal.

Hægt er um tíma að reka þjóðarbú með halla, ef skuldasöfnunin í útlöndum er notuð til arðbærra verkefna, sem skila auknum gjaldeyristekjum, þegar kemur að skuldadögunum. En sú hefur ekki verið raunin hér.

Fyrir bragðið hefur skuldabyrðin aukizt óhugnanlega hratt. Hún er nú komin í eða yfir 20% af útflutningstekjunum. Lengra verður ekki gengið á þeirri braut án þess að lenda í vítahring Póllands og Mexíkó.

Á hverju sviðinu á fætur öðru rekum við okkur undir þak. Landbúnaðurinn hefur löngum framleitt vörur, sem enginn þarf á að halda. Sjávarafli er kominn upp fyrir það hámark, sem fiskistofnarnir þola.

Við verðum að gera ráð fyrir, að þjóðartekjur muni ekki vaxa á næstu árum og jafnvel enn skreppa saman. Við verðum því að draga hressilega úr þjóðarútgjöldum og koma þeim niður í sömu tölur og þjóðartekjurnar.

Í ár verður um þriggja milljarða munur á þjóðartekjum og þjóðarútgjöldum. Á næsta ári getur munurinn komizt vegna bráðabirgðalaganna niður í hálfan annan milljarð á núverandi verðlagi. Og þá þarf að finna annan eins sparnað til viðbótar.

Það, sem nú hefur gerzt, er, að ríkisstjórnin hefur þvingað samtök launþega til að sætta sig við skerðingu kaupmáttar, sem nemur um 2% á þessu ári og 6% á hinu næsta. Þjóðin hefur samþykkt að herða mittisólarnar.

Það er sögulegur atburður, að átaka- og verkfallalaust skuli vera unnt að ná víðtæku samkomulagi um, að þjóðin hætti að lifa um efni fram. En jafnframt verður í náinni framtíð erfitt að höggva í sama knérunn.

Hvar á þá að taka hinn helminginn af umframeyðslu þjóðarinnar? Ekki verður hann tekinn af óvenjulega illa stæðum atvinnuvegum. Þeir verða að hafa mátt til að standa undir fullri atvinnu og þjóðarframleiðslu.

Þegar litið er yfir helztu stærðir þjóðarbúsins, sker í augun, að fjórðungur þjóðarteknanna er lagður til hliðar í fjárfestingu – eða svokallaða fjármunamyndun. Þetta er allt of hátt hlutfall á erfiðum tíma.

Hin mikla fjárfesting væri í lagi, ef hún öll skilaði sér aftur í aukinni þjóðarframleiðslu. En það gerir hún ekki, af því að áratugum saman hefur ríkið talið í sínum verkahring að beina henni til forgangsverkefna.

Fjárfestingar ríkisins hafa aukizt ár frá ári að undanförnu. Sem betur fer verður þar um 6% samdráttur í ár og þarf enn að verða á næsta ári. Þar verður næsta þolraun ríkisstjórnarinnar í fjárlagafrumvarpi og lánsfjáráætlun.

Hróplegt dæmi um vitleysu íslenzkrar fjárfestingar er, að í ár er spáð minni samdrætti í fjárfestingu landbúnaður og útgerðar en í öðrum atvinnuvegum. Peningarnir renna til þátta, þar sem þegar er búið að fjárfesta of mikið.

Ríkið hefur stuðlað að þessu og stuðlar enn með því að veita fjárfestingu í landbúnaði og fiskveiðum forgang umfram aðra fjárfestingu. Þetta kemur m.a. fram í sjálfvirkum og háum lánum með ljúfum kjörum.

Ef ríkisstjórnin sparar óþarfa fjárfestingu með því að hætta að veita fjárstraumum í ákveðnar áttir og með því að efla strangan niðurskurð í opinberri fjárfestingu, er hægt að ná jafnvægi í þjóðarbúinu.

Jónas Kristjánsson.

DV