Næstmesti skaðvaldurinn

Greinar

Þessa dagana er að renna upp fyrir fólki, að fjórhjólin nýstárlegu hafa á einu vori valdið meiri skaða á náttúru landsins en jepparnir hafa gert í nærri hálfa öld. Fjórhjólin hafa reynzt ganga næst sauðkindinni í röð hættulegustu óvina náttúru þessa lands.

Skemmdirnar sjást víða á höfuðborgarsvæðinu, til dæmis í Öskjuhlíð og á Valhúsahæð, í Elliðaárdal og í Heiðmörk. Hvarvetna hafa auð svæði dáleitt þá, er hafa nautn af að þjösnast um vegleysur á vélknúnu ökutæki, sem hægt er að nota í leysingum að vori.

Vélknúin leiktæki hafa misjöfn áhrif á náttúruna. Beztir eru vélsleðarnir, er skilja slóð sína eftir í snjó, sem hverfur. Spyrnubílar og torfærutröll hafa eigin leiksvæði. Jepparnir eru oftast notaðir að vetri eða sumri, en síður að vori, þegar náttúran er viðkvæmust.

Fjórhjólin er hins vegar auðvelt að nota á vorin, þegar frost er að fara úr jörð. Á þeim tíma geta þjösnar ekki notað önnur ökutæki að gagni, svo að þeir hafa tekið fjórhjólunum fegins hendi ­ með hinum hörmulegu afleiðingum, sem hvarvetna má sjá í kringum okkur.

Íslendingar eru dellukallar og hafa fengið skyndilegt æði á þessu sviði. Yfir 1200 fjórhjól hafa verið flutt til landsins á örskömmum tíma. Verið er að koma á fót sérstökum fjórhjólaleigum til að veita útrás þeim, sem ekki hafa ráð á að kaupa sér fjórhjól sjálfir.

Notkun þessara leiktækja er í nærri öllum tilvikum ólögleg. Samkvæmt náttúruverndarlögum er allur óþarfur akstur óheimill utan vega og merktra vegaslóða. Og samkvæmt umferðarreglugerðum er óheimilt að nota fjórhjól á vegum og götum landsins.

Hin eina leyfilega notkun fjórhjóla er á einkalóðum, til dæmis við sveitabæi, þar sem slík farartæki geta komið að gagni, til dæmis við ferðir í útihús. En hingað til hafa fjórhjól svo til eingöngu verið notuð á ólöglegan hátt sem leiktæki í torfærum náttúrunnar.

Af 1200-1800 fjórhjólum, sem flutt hafa verið til landsins, er aðeins lítill hluti, eða innan við 200 hjól, löglega skráð. Hin eru í sjálfu sér ólögleg og á skilyrðislaust að gera upptæk sem slík. Eitthvað hefur verið gert að því, en alls ekki nógu rösklega.

Ennfremur er nauðsynlegt að margfalda árlegt gjald eigenda af notkun fjórhjóla sinna. Það þarf að gera til að kosta margfaldað eftirlit með notkun þeirra, því að núverandi eftirlit er allt of ófullkomið og lélegt, enda komu fjórhjólin lögreglunni í opna skjöldu.

Á vorin þarf löggæzlan að hafa ráð á þyrlum og öðrum tæknibúnaði til að standa fjórhjólamenn að verki í náttúrunni. Sanngjarnt er, að kostnaður af öllu slíku greiðist af notkun sjálfra tækjanna, sem hafa reynzt svo skaðleg, að eftirlitið verður bæði brýnt og dýrt.

Dómsmálaráðuneytið hefur sent öllum lögreglustjórum bréf, þar sem bent er á ólöglega notkun fjórhjóla. Bréfið sýnir, að yfirvöld eru að vakna til lífsins. Það er að vísu of seint til að bjarga þessu vori, en ætti að geta dregið úr frekara tjóni í framtíðinni.

Mikilvægt er, að stjórnvöld kveði fastar að orði um fjórhjól í lögum og reglugerðum, svo að öllum megi ljóst vera, að ólögleg notkun þeirra leiði til sekta og upptöku hjóls. Ennfremur er æskilegt, að bæjarfélög taki þátt í vörninni með því að banna fjórhjól í bæjarlandinu.

Eigendur fjórhjóla eiga svo að geta fengið að leika sér, eins og torfæru- og spyrnumenn, á afmörkuðum svæðum, sem þeir kaupa sameiginlega eða taka á leigu.

Jónas Kristjánsson

DV