Næstu grös eru grín
Næstu grös á horni Laugavegs og Klapparstígs er kuldalega skandinavískt mötuneyti í sjúkrahælisstíl, þar sem veiklulegu fólki eru skammtaðir lítt kryddaðir og sjúklega bragðdaufir grænmetisréttir. Ótalmargt er hægt að gera fyrir hýðishrísgrjón, til dæmis í formi risotto, og fyrir ab-mjólkursósu, til dæmis með kryddjurtum, en það er ekki gert hér.
Um daginn var annar aðalrétturinn pæ og hinn lasagna, en enginn baunaréttur, svo að þetta varð dagur prótein-skorts. Hressileg tómat- og lauksúpa bætti úr skák, rétt eins og bragðsterk kókossúpa hafði gert nokkru áður. Aðeins eitt brauð var á boðstólum, ágætis súrdeigsbrauð. Hallærislegt var hrásalat, sem víða annars staðar er tilefni listaverka, en var hér aðallega jöklasalat.
Miðjuverð aðalrétta er 700 krónur og 1.000 krónur, ef súpan er með. Fyrir 400 krónur getur fólk síðan bætt sér upp hversdagsgráma staðarins með einni af sykurbombum skenksins, þremur glæsitertum, en ekki gera þær mikið fyrir megrunina. Alls engir ávextir eru í boði. Ég held, að þessi staður sé hálfgert spé og hafi verið það árum saman.
Grænn kostur er sykurfrír
Meira vit er í sykurfrírri og hvítahveitisfrírri grænmetisfæðu, sem hentar megrunarfólki á Grænum kosti í bakhúsi á horni Skólavörðustígs og Bergsstaðastrætis. Þar er matreiðslan fjörlegi og undir meiri áhrifum fjarlægra landa. Þar eru til dæmis karrí og kúskús, samósur, chutney og guaccamole.
Hér hef ég nýlega fengið ágætis sojabaunakarrí, kjúklingabaunabollur og linsubaunabuff. Hrásalöt eru því miður ekki merkari en á Næstu grösum, einnig mestmegnis jöklasalat. Engir forréttir eru í boði, en hinar fögru og frábæru tertur eru sykurlausar, með kosti á þeyttum rjóma, sem nú er aftur orðinn hollur. Aðalréttur kostar 640 krónur og 800 krónur með ábót. Terta kostar 300350 krónur til viðbótar.
Þetta er feiknagóður heilsu-skyndibitastaður, þar sem fólk situr á hænsnaprikum við pínuborð í óvenjulegum innréttingum, sem virðast sérstaklega hannaðar til að fólk hafi sig burt sem fyrst, svo að hægt sé að taka við nýjum viðskiptavinum.
Enn vantar grænmetisstað
Til viðbótar við Grænan kost vantar notalega innréttaðan stað, þar sem hægt er að gefa sér góðan tíma við að setjast niður í blómahafi og fá afgreidda á borðið lífræna grænmetisfæðu, sykur- og hvítahveitisfría að hætti Græns kosts, aukna og endurbætta með tærri súpu og fögrum forrétti, verulega litskrúðugu hrásalati og meiri áherzlu á ferska ávaxti. Salatbarir Eika eru prótein-slappir og megna ekki að fullnægja þessum órum.
Vel matreidd grænmetisfæða getur verið bragðbetri og fallegri en hver önnur fæða, auk þess sem hún er nytsamleg, hvort sem hugsað er um heilsuna eða línurnar. Ef umhverfið á grænmetis-veitingastað að hætti Græns kosts væri þar á ofan notalegt, mundi fólk flykkjast þangað til að efna nýársloforðin.
Jónas Kristjánsson
DV