Næturævintýri Geysisbænda.

Greinar

Pylsusala hefur stóraukizt í Haukadal síðustu daga. Innlent ferðafólk þyrpist á staðinn til að sjá Geysi skvetta úr sér. Biðin getur oft orðið æði löng og þá við lítið annað að vera en að úða í sig varningi úr sjoppunni.

Orsökin fyrir þessu aukna lífi er, að þeir sem settir höfðu verið til að vernda Geysi, fóru sjálfir að næturþeli með loftpressu, dýpkuðu, breikkuðu og lengdu rauf, sem verið hefur í Geysisskálinni síðan 1935.

Vonandi nær aukin pylsusala því senn að jafna loftpressukostnað og næturtaxta, því að fleiri verkefni í sama anda þarf að kosta, ef rökrétt framhald á að verða af ferðamálaframtaki gæzlumanna Geysis gamla.

Enginn vafi er á, að fréttir af næturævintýri og afleiðingum þess munu berast til útlanda. Munu senn þyrpast hingað erlendir ferðamenn til að líta með eigin augum hinn forna hver, sem gefið hefur tegundarheiti öðrum goshverum heims.

Í rökréttu framhaldi verða Geysisbændur þá enn að taka sig upp að næturlagi og sprengja fyrir sápuleiðslu úr sjoppu og upp í Geysi. Jafnframt þyrfti að setja upp dælubúnað til að koma svo sem 50 sápukílóum í hvelli í hverinn.

Þá mætti hafa rofa í sjoppunni, svo að koma megi Geysi í gang, þegar langferðabíla ber að garði. Yrði þó að gefa þreyttu ferðafólki tíma til að fá sér nokkrar pylsur og komast í hæfilegt hugarástand fyrir gosið.

Síðan mætti koma fyrir sjálfvirkum tölvubúnaði, sem setti sápu og gos af stað við þúsundustu hverja pylsu, sem afgreidd er yfir diskinn. Væri þá á sérstökum teljara hægt að fylgjast með, hversu margar pylsur þyrfti enn.

Þetta mundi auðvitað treysta ferðamannaþjónustuna í landinu og stórefla bæði landbúnað og kjötiðnað, innlenda gosgerð og sælgætisiðnað, enda yrði eingöngu þjóðleg vara á boðstólum í sjoppunni í Haukadal.

Fjölmiðlarnir mundu birta frásagnir og myndir af óþolinmóðum ferðalöngum, sem væru að sporðrenna tíundu pylsunni til að keppast við að fá gosið sem fyrst. Sumir þeirra og þá Haukadalur líka gætu fyrir vikið komizt í heimsmetabókina.

Fyrir tekjurnar mætti svo reisa gríðarstórt veitingahús og hótel með víðum gluggum í átt til Geysis. Ekki dugir að laða hingað ferðamenn með djörfum næturævintýrum, nema sjá þeim fyrir fyrsta flokks aðstöðu og þjónustu.

En þá vaknar líka sú spurning, hvort ekki sé of dýrt og þunglamalegt að flytja allan mannskapinn austur í misjafnri tíð og færð. Sumir mundu vafalaust kjósa að sjá hliðstæða dýrð án þess að þurfa að fara úr höfuðborginni.

Fyrir framan Hótel Esju eru margar og ágætar borholur með heitri gufu. Enginn vandi væri að grafa þar niður gosbúnað, sem þeytti gufu hátt í loft upp eftir sérstakri dagskrá, sem kynnt væri í ferðamannabæklingum.

Og þá er vitanlega engin ástæða til að binda sig við þessa 30 eða 50 metra, sem Geysir gamli ræður við. Af hverju ekki koma upp einum rækilegum 100 metra Geysi fyrir framan Esju? Og síðan 200 metra flóðlýstum við Hótel Loftleiðir?

Þegar tæknin er á annað borð farin að halda innreið sína í goshverabransann, er engin ástæða til að neita sér um að hugsa málið til enda. Mest samræmi væri í að losa Haukadalsbændur úr seinteknum pylsugróða og gera þá að yfirmönnum íslenzkra ferðamála.

Jónas Kristjánsson

DV