Næturvörðurinn sefur

Greinar

Illskan hefur aukizt í næturofbeldi reykvískra helga. Tilefnislausar fólskuárásir ungmenna leiða í auknum mæli til líkamstjóns, sem er svo mikið, að það er talið fréttnæmt í fjölmiðlum. Þannig hafa margar helgar verið í sumar og einna verst og illræmdust hin síðasta.

Þetta er ekki þolanlegt ástand, jafnvel þótt rökstyðja megi, að það sé að nokkru um að kenna agaleysi foreldra, fyrirmyndum á sjónvarpsskjám, breyttum þjóðfélagsháttum eða einhverju öðru því, sem talið er í flokki meira eða minna óviðráðanlegra ytri aðstæðna.

Grundvallarafsökunin fyrir tilvist þess, sem kallað er “hið opinbera”, er næturvarðarhlutverk þess. Þeir, sem hafna velferðarríkinu eða einstökum þáttum þess, vísa einmitt til þess, að tilgangur ríkisvaldsins sé einungis sá að gæta innra og ytra öryggis borgaranna.

Menn hljóta að telja, að ríkið eða aðrar opinberar stofnanir eigi að sjá um landvarnir og löggæzlu, jafnvel þótt þeir telji, að fólk eigi að borga sín heilsukort og skólagjöld, áfengismeðferðir og krabbameinsuppskurði, hjartalyf og húsnæðisvexti. Næturvarzlan er lágmark.

Hið opinbera bregzt lágmarkshlutverki sínu, næturvörzlunni, ef það telur hana ekki ná til ákveðinna áhættuhópa á ákveðnum áhættustöðum á ákveðnum áhættutímum. Þá er búið að samþykkja, að í þjóðfélaginu séu til skilyrði, sem séu utan hins borgaralega þjóðfélags.

Ekki er nóg, að löggæzlan nái yfirleitt í ofbeldisfólkið og komi yfir það lögum og rétti. Það er að vísu til bóta, en varðar ekki beinlínis næturvarðarhlutverk hins opinbera, sem felst meðal annars í, að borgarar ríkisins geti óhræddir gengið um opinbera staði á öllum tímum.

Þetta er ekki bara hugmyndafræðileg grundvallarkrafa, heldur einnig hagkvæmniskrafa. Hvað gera menn, þegar fyrsti ferðamaðurinn hefur verið drepinn í miðbæ Reykjavíkur? Hvernig ætla menn að mæta því hruni gjaldeyristekna, sem verður í kjölfar þess?

Við verðum líka að muna eftir, að styrjaldarástandið er fastur liður í sjálfum miðbæ Reykjavíkur. Fólk, sem kemur úr venjulegum samkomuhúsum að næturlagi um helgar, sér með eigin augum ástand, sem minnir á sjónvarpsmyndir af uppþotum í Moskvu eða Los Angeles.

Slíkt ástand er ekki í miðbæjum annarra borga í Vestur-Evrópu. Þar getur fólk um helgar gengið að næturlagi um miðbæinn án þess að verða vitni að uppþoti í reykvískum mæli. Þar dettur engum í hug, að ríkið gefi eftir tök sín á nánasta umhverfi aðalstofnana þjóðfélagsins.

Það er ekki nóg að vísa til agaleysis í uppeldi, slæmra fyrirmynda í sjónvarpi og breyttra þjóðfélagshátta. Agaleysi í uppeldi og vondar bíómyndir og nútíminn yfirleitt eru ekkert séreinkenni Íslands. Þessi atriði þurfa ekki að hindra ríkið í að sinna frumskyldu sinni.

Fyrir aldarfjórðungi var miðborg Amsterdam hertekin eins og miðbær Reykjavíkur. Hollendingar eru allra manna frjálslyndastir í umgengni við vandamál, en þeir létu þó til skarar skríða. Víkingasveit lögreglunnar hreinsaði Dam-torg og hefur haldið miðborginni síðan.

Það er sjálfsagt að ræða um, hvernig foreldrar geti komið upp meiri aga, hvernig eigi að meðhöndla ofbeldi í sjónvarpi og hvað sé að í sjálfri þjóðfélagsgerðinni. Það þarf hins vegar ekki að bíða eftir niðurstöðum slíkra hugleiðinga til að halda uppi lögum og reglu.

Lögreglan í Reykjavík getur ekki vikizt undan því að endurheimta völdin í miðbænum að næturlagi um helgar. Það er grundvallarforsenda í tilvist þjóðfélagsins.

Jónas Kristjánsson

DV