Næturvörðurinn sefur

Greinar

Um helgina réðst hópur manna inn í heimahús og misþyrmdi tveimur mönnum, sem þar voru. Sauma varð fjörutíu spor í höfuð annars og hinn nefbrotnaði. Ekki er vitað um neitt tilefni árásarinnar, enda ekki vitað, að lögreglan hafi reynt að ná í glæpamennina.

Hópur manna réðst á mann í Vallarstræti, misþyrmdi honum og skildi eftir meðvitundarlausan. Af því að vitni voru að árásinni, náðist í glæpamennina. Þeir hafa ekki getað gefið neina skýringu á verknaðinum. Kannski hafa þeir horft of mikið á kvikmyndakynningar í sjónvarpi.

Hópur manna réðst á pitsusendil, þegar hann fór fram á greiðslu fyrir heimsenda pitsu. Lögreglan fékkst ekki til að fara á staðinn, enda er hún upptekin við að drepa tímann, svo sem við að kanna, hvort fólk stanzi alveg við biðskyldumerki. Allt gerðist þetta nú um helgina.

Í öllum tilvikum er það venjulegt fólk, sem verður fyrir barðinu á glæpalýð, sem yfirleitt er undir áhrifum áfengis og annarra eiturlyfja og hefur horft of mikið á bíómyndir. Þetta er ekki eins og á Norðurlöndum, þar sem vélhjólaskallar drepa aðallega hver annan.

Að undanförnu höfum við séð mörg dæmi um, að ríkið sinnir ekki frumskyldu sinni og helztu afsökun tilveru sinnar, sem felst í að gæta öryggis borgaranna gagnvart ytri og innri áreitni. Samt er ríkið með nefið niðri í hverjum koppi og skattleggur borgarana til óbóta.

Lög og regla á að vera fyrsta, annað og þriðja verkefni ríkisins, áður en kemur að öðrum áhugamálum þess, svo sem brennslu verðmæta í bönkum og landbúnaði, félagslegri velferð, heilbrigðis- og skólamálum. Ríkið er til, af því að það þykist geta verið næturvörður borgaranna.

Svo áhugasnautt er ríkið um skyldu sína, að nýlega var erlendu burðardýri fíkniefna sleppt lausu og það rekið úr landi, af því að lögreglan nennti ekki að standa í máli, sem varðaði útlending. Þau skilaboð voru send, að áhættulítið væri að flytja fíkniefni til Íslands.

Svo áhugasnautt er ríkið um skyldu sína, að tollstjórinn í Reykjavík kemst upp með að sinna afar illa fíkniefnavörnum í tollpósti, þótt vitað sé, að töluverður hluti innfluttra fíkniefna fari þá leiðina inn í landið. Það hefur engin áhrif, þótt frá þessu sé sagt í fjölmiðlum.

Það eina, sem stjórnmálaöflin gera í slíku máli, er, að óvenjulega misvitur fjármálaráðherra ærist út af því, að tollverðir hafi lekið í fjölmiðla upplýsingum, sem sýna, að fíkniefnavarnir tollstjóraembættisins eru í rúst. Hann heimtaði, að tollstjórinn tæki þá á teppið.

Í leiðara DV á laugardaginn var bent á, að ofbeldisórar voru í vetur eitt helzta auglýsingaefnið í sjónvarpi á mesta notkunartímanum í kringum fréttir. Þetta voru kvikmyndahúsin, sem gátu þannig ráðizt inn á heimili fólks, sem var að bíða eftir, að fréttir hæfust.

Rannsóknir sýna, að 15% barna og unglinga, sem horfa á ofbeldi í sjónvarpi, sýna merki um mikla árásarhneigð og rúmlega 35% í viðbót verða fyrir nokkrum áhrifum í þá átt. Í sjónvarpi sleppa 73% ofbeldismanna við refsingu og 58% þolenda ofbeldis finna ekki fyrir sársauka.

Þannig er verið að senda hættuleg skilaboð í allar áttir. Ríkið staðfestir síðan ruglið úr kvikmyndum og sjónvarpi með því að standa sig illa í vörnum gegn eitri og ofbeldi og með því að sleppa þeim lausum, sem brjóta lög. Smám saman magnast öryggisleysið í þjóðfélaginu.

Svo fáránlegt er ástandið orðið vegna fákænsku stjórnvalda, að miðbær Reykjavíkur er hættulegri að næturlagi en miðbærinn í London, New York, París og Róm.

Jónas Kristjánsson

DV