Nafarvað

Frá Geitafelli í Reykjahverfi til Einarsstaða í Reykjadal.

Þetta er mjúk leið um efri hluta gróðursælla dala Þingeyjarsýslu, nokkuð brött með köflum, þegar hún steypir sér niður í Laxárdal og Reykjadal. Laxárdalur er rómaður fyrir fegurð og Reykjadalur fyrir gróðursæld. Um heiðar og dali liggja moldargötur, sem fara notalega með hófa ferðahesta. Þetta er dæmigerð leið um Þingeyjarsýslu og á henni eiga engir jeppar að geta verið á ferð.

Förum frá eyðibýlinu Geitafelli suður með þjóðvegi 87 meðfram Geitafellshnjúk. Förum um hlið frá veginum og eftir reiðslóð beint til suðurs að Kringluvatni. Förum vestan vatnsins til suðvesturs eftir slóð niður hlíðarnar að Árhvammi í Laxárdal. Förum ofan túns og um rennu niður að þjóðvegi 856. Síðan um 200 metra leið með þjóðveginum og beygjum síðan eftir slóð að Nafarvaði að Laxá. Förum yfir vaðið og síðan eftir slóð að Þverá í Laxárdal. Þar förum við ofan garða á slóð, sem liggur þaðan yfir heiðina til Reykjadals. Slóðin liggur fyrst til suðvesturs og síðan til vesturs undir Hvítafelli í 320 metra hæð og loks til norðvesturs um brekkur niður að Stóru-Laugum í Reykjadal. Þar komum við á þjóðveg 846 og fylgjum honum tæpa tvo kílómetra til norðurs, unz við komum að vaði á Reykjadalsá andspænis Einarsstöðum. Fylgjum þar reiðslóð um sléttlendið að bæ á Einarsstöðum.

18,7 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Geitafell : N65 47.938 W17 14.659.

Nálægir ferlar: Hamrahlíð, Vatnshlíð, Hvammsheiði.
Nálægar leiðir: Hrossanúpar, Máskot, Ljótsstaðir, Þegjandadalur, Máskot, Fljótsheiði, Kinnarfell, Heiðarsel.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson