Þótt ég loki vefnum fyrir athugasemdum, hindra ég ekki tölvupóst til mín. Margir senda mér línu, sumir orð í eyra, sem er ágætt, enda eru þeir allir nafngreindir. Engin pólitísk skrif mín hafa valdið eins miklu hugarangri og klausa um veitingahúsið Tilveruna í Hafnarfirði. Ég lofaði það í hástert. Sagði eina galla þess vera, hversu afskekkt það væri suður í Hafnarfirði. Menn hafa tekið það óstinnt upp. Allt frá því að bjóða mér í skoðunarferð um bæinn. Yfir í að upplýsa mig um, að Hafnarfjörður sé nafli alheimsins. Það síðara er raunar rangt, naflinn er auðvitað á Seltjarnarnesi.