Washington Post bannar nafnlausar heimildir á síðum blaðsins. Áður voru þær leyfðar, ef hvert atriði var stutt tveimur sjálfstæðum heimildum, óháðum hver annarri. Leyfi fjölmiðlar nafnlausar heimildir, mega þær bara vera um staðreyndir, ekki um skoðanir. Fjölmiðillinn á að segja lesandanum frá því, hvers vegna þær eru nafnlausar. Kannski er þar flautublásari, sem gæti skaðast af nafnbirtingu. Oftast er gengið of langt í nafnlausum heimildum. “Ég talaði í dag við marga lögfræðinga”, segir Svavar Halldórsson í fréttum sjónvarps. Notendur eiga að vara sig á slíkri ótraustvekjandi framsetningu.