Skoðanakannanir síðustu dagana fyrir kjördag fóru nærri um úrslit kosninganna og næst fór sú könnun, sem birtist í DV á föstudaginn. Engin skoðanakönnun frá upphafi slíkrar starfsemi hér á landi hefur farið nær raunverulegum úrslitum en einmitt þessi könnun DV.
Meðalfrávik könnunar DV frá kosningaúrslitum var 0,3% á framboðslista að meðaltali. Gallup kom næst DV með 0,5% meðalfrávik. Síðan kom Félagsvísindastofnun með rúmlega 1,0% og Skáís með tæplega 1,3%. Lestina rak Stöð 2 með 1,4% meðalfrávik á framboðslista.
Allar voru þessar kannanir langt undir þeim 2,5% skekkjumörkum, sem eðlileg mega teljast af stærðfræðilegum ástæðum. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart, því að tveggja áratuga reynsla er fyrir því, að íslenzkar skoðanakannanir eru vel þroskuð fræði- og atvinnugrein.
Hitt kemur á óvart, að þeir kjósendur, sem gerðu upp hug sinn eftir síðustu kannanir, skuli hafa dreifzt á framboðslistana í sömu hlutföllum og hinir kjósendurnir, sem voru búnir að ákveða sig fyrir síðustu kannanir. Það bendir til, að lokaáróður flokkanna hafi verið áhrifalaus.
Fyrri skoðanakannanir vetrarins sýndu miklar sveiflur í fylgi flokkanna. Þannig reis fyrst og hneig Kvennalisti og síðan reis og hneig Þjóðvaki. Sveiflurnar héldust fram að síðustu viku fyrir kosningar, en þá hættu þær að mestu, nema hjá Þjóðvaka, sem hélt áfram að dala.
Fylgisrýrnun Þjóðvaka í kosningavikunni var þó ekki svo mikil, að rétt sé að túlka hana sem fráhvarf fylgismanna hans. Miklu fremur var um það að ræða, að þeir mörgu, sem hættu að vera óákveðnir í síðustu vikunni, röðuðu sér á aðra stjórnmálaflokka en Þjóðvaka.
Kjósendur virðast mynda sér skoðanir á flokkunum fyrr en ætla mætti af fjölda hinna óákveðnu í skoðanakönnunum. Þessi skoðanamyndun gerist allan tímann milli kosninga og ekki mikið fremur í mánuði kosningabaráttunnar en í öðrum mánuðum kjörtímabilsins.
Ef mánuður kosningabaráttunnar er greindur niður í vikur, er ekki hægt að sjá, að skoðanamyndun sé örari síðustu vikuna en hinar fyrri. Að vísu fækkar hinum óákveðnu örar en áður, en þeir raðast á flokkana í nokkurn veginn sömu hlutföllum og hinir ákveðnu.
Þetta bendir til, að auglýsingar og áróður flokkanna skili sér annaðhvort ekki vel eða jafnist þannig út, að heildarniðurstaða auglýsinga og áróðurs sé nánast núll. Gildir þá einu, hvort flokkar verja milljónum króna eða tugum milljóna króna til þessa í síðustu vikunni.
Ekki verður heldur séð, að fréttir hafi áhrif. Þjóðvaki lenti í hremmingum vegna frétta af úrsögnum á síðustu dögum baráttunnar og kenndi þeim að hluta um niðurstöðuna. Fylgissig Þjóðvaka í síðustu vikunni var þó ekki meira en það hafði verið í vikunum þar á undan.
Líklegast er, að fylgissveiflur flokka séu tiltölulega hægar og illviðráðanlegar. Líklegast er, að þær fari eftir undiröldu, sem myndist á löngum tíma eftir breytingum á aðstæðum í þjóðfélaginu. Ef þetta er rétt, þýðir það í raun, að sjálf kosningabaráttan hefur takmörkuð áhrif.
Skoðanakannanir eru mikilvægur þáttur í fréttaflutningi þjóðmála. Áður en þær komu til sögunnar og hlutu almenna viðurkenningu, urðu kjósendur að sæta öfgafullum skoðunum kosningastjóra á fylgi flokkanna. Slíkar skoðanir hafa horfið eins og dögg fyrir sólu.
Skoðanakannanir eru eðlilegur þáttur upplýsingaflæðis kosningabaráttunar. Eftir þessar kosningar munu fáir draga í efa, að þær fara í aðalatriðum með rétt mál.
Jónas Kristjánsson
DV