Ástæða er til að hafa verulegar áhyggjur af framvindu viðræðna Íslands og Alusuisse um orkuverð til Ísal og stækkun álversins. Þessum viðræðum átti að ljúka í apríl í vor, en þær hafa dregizt á langinn. Farið er að ganga verr hjá Sverri en hjá Hjörleifi þar á undan.
Óþægilegt er að sjá, hve mikla áherzlu samningamenn Íslands leggja á að reyna að sannfæra blaðalesendur um, að ýmsar verðhugmyndir séu of háar og að ýmis meðalverð á orku til áliðnaðar úti í löndum séu í raun ekki eins há og sumir hafa talið hér á landi.
Lægst hefur verið lagzt í tilraunum til að halda fram, að einhver viðmiðun sé í gamalli tillögu Hjörleifs Guttormssonar um 12,5 verðeiningar. Sú tillaga fjallaði ekki um endanlegt verð, heldur um millibilsverð á borð við þær hlægilegu 9,5 verðeiningar sem samið var um í vetur.
Þegar haldið er fram, að Hjörleifur hafi með tillögu sinni stefnt að 12,5 verðeiningum, er full ástæða til að ætla, að núverandi samningamenn telji sig vera komna í slíkan vanda, að óheiðarleg vinnubrögð séu þeim nauðsynleg. Skamma má Hjörleif fyrir margt, en ekki þetta.
Mest hafa samningamenn þó reynt að hampa orkuverði, sem samið var um í gamla daga, áður en olían hækkaði, og orkuverði, sem samið var um, þegar offramleiðsla var á áli fyrir örfáum árum. Þeir vekja minni athygli á orkuverðssamningum, sem nýjastir eru erlendis.
Metal Bulletin hefur skýrt frá, að lágt orkuverð til áliðnaðar sé liðin tíð. Offramleiðslan hafi vikið fyrir álskorti. Fjölþjóðahringarnir þurfi nú að afla sér sem fyrst aukinnar framleiðslugetu á hinum verðmæta málmi, sem stöðugt sækir inn á ný svið í iðnaði.
Vegna þessa eiga samningamenn Sverris Hermannssonar að vera í jafngóðri aðstöðu og samningamenn Hjörleifs Guttormssonar voru í vondri aðstöðu fyrir nokkrum árum. Krefjast verður þess af núverandi samninganefnd, að hún nái árangri og sé ekki með stöðugt múður.
Um þessar mundir dettur engum orkueiganda í hug að semja um lægra orkuverð til nýrra álvera en 20 verðeiningar. Það orkuverð er raunar aðeins lítillega yfir áætluðu framleiðsluverði nýrra, íslenzkra orkuvera á borð við Blöndu. Það er talið munu verða 17 verðeiningar.
Mjög undarlegt væri, ef Ísland færi að semja um lægra orkuverð en 20 verðeiningar til þeirrar stækkunar álversins, sem fyrirhuguð er. Hins vegar væri hugsanlegt að semja um rúmlega 17 verðeiningar fyrir hinn eldri hluta, sem nú er starfræktur. Allt, sem er undir 17, er gjöf.
Kostnaðarverð orku frá þeim orkuverum, sem við þurfum að reisa, af því að Ísal notar eldri og ódýrari orku, verður ekki lægra en 17 verðeiningar. Og alkunnugt er, að slíkar verðáætlanir hafa tilhneigingu til að reynast of lágar, þegar orkuverin eru komin í gang.
Ekki þarf mikinn kaupsýslumann til að sjá, að söluverð á orku ber ekki að miða við gamlan kostnað að baki, heldur við endurnýjunarkostnað, það er þann kostnað, sem mundi fylgja jafnmikilli nýrri orku frá nýju orkuveri. Þetta er eins og lögmálið um endurnýjun vörubirgða.
Fyrri mistök í samningum við Alusuisse hafa dregið hættulega úr áhuga Íslendinga á stóriðju. Ef nú í fjórða sinn tekst ekki að ná mannsæmandi samningum, er tímabært að strika yfir áldrauminn. Samningamenn ættu því að snúa sér að samningum og hætta að reyna að blekkja okkur.
Jónas Kristjánsson.
DV