0103 Punktur 1

Textastíll
Punktur I
Settu sem víðast
punkt og stóran staf

Reglur Jónasar um stíl:
1. Skrifaðu eins og fólk, ekki eins og fræðimenn.
2. Settu sem víðast punkt og stóran staf.
3. Strikaðu út óþörf orð, helmingaðu textann.
4. Forðastu klisjur, þær voru sniðugar bara einu sinni.
5. Keyrðu á sértæku sagnorði og notaðu sértækt frumlag.
6. Notaðu stuttan, skýran og spennandi texta.
7. Sparaðu lýsingarorð, atviksorð, þolmynd, andlag og viðtengingarhátt.
8. Hafðu innganginn skýran og sértækan.
-Sjá www.jonas.is

Í kennslubókum blaðamanna er beðið um, að þeir skrifi ekki lengri málsgreinar en 23 orð. Í bókum fyrir sjónvarpsmenn og vefmiðlara er hámarkið sett við 17 orð. Nútímafólk vill ekki lesa eða heyra lengri málsgreinar. AP biður um 16 orða meðaltal.

Farsímar eru að verða tölvur almennings. Þar er skjárinn lítill. Það eykur kröfur til aukins hraða á textanum. Í forritinu Twitter, sem notað er í fjölpósti í farsíma, er hámarksfjöldi stafa 140. Það jafngildir einni 17-23 orða málsgrein. Einni skjámynd í farsíma.

Fólk skrifar oftast vegna þess, að það vill ná til annarra. Það er erfiðara en áður, því að fólk les minna og lætur meira truflast af öðrum tímaþjófum. Verkefni höfundar er að ná athygli fólks og halda henni til enda. Stuttar málsgreinar eru mikilvægt tæki.

Þeir, sem kunna stíl, geta brotið þessa reglu eins og aðrar reglur stílfræðinnar. En þú mátt ekki brjóta hana fyrr en þú veist, hvað þú ert að gera. Þess vegna, 23 orð í málsgrein, takk. Eða færri. Ekki fleiri. Kúnnarnir þínir lesa ekki, heldur skanna þeir.

Þessi 23 orða regla er merkust allra. Hún er hálf lausnin. Ef þú skrifar stuttar málsgreinar, hefur þú ekki pláss fyrir froðuna, orðtökin, klisjurnar og endurtekningarnar. Sem þú mundir annars setja í textann. Þessi regla hjálpar þér að fylgja öðrum reglum.

Miðaðu við, að hver málsgrein sé ein hugsun, í mesta lagi 23 orð. Að hver málsliður sé safn skyldra málsgreina, í mesta lagi 8 málsgreinar. Ekki þarf sérstaklega að tengja saman málsgreinar innan málsliðar. Þær tengjast sjálfkrafa, ef þær eru innan sama málsliðar.

Á málsgreinar reynir í fréttum. Oft þarf að koma miklu í lítið pláss og viðbætur eru settar inn í flýti. Menn fara að ofhlaða málsgreinar og þenja þær. Löng málsgrein er ekki lestrarvæn og kallar á mistök í setningarfræði.

Lausnin er einföld. Klipptu langar málsgreinar niður í hagnýta þætti. Láttu orðin ekki vera fleiri en 16 að meðaltali í hverri málsgrein eða 23 orð í þeirri lengstu. Hér er áherslan á meðaltalið. Sumar mega vera lengri, en þá verða aðrar að vera styttri.

Íslenska notar ekki fleiri orð en enska. “Son of God” þýðir “sonur Guðs”. Í bókum með texta á ýmsum tungumálum er íslenska örlítið styttri en enska. 23 orða reglan gildir því ekki síður um íslenskan texta en enskan. Þýska notar hins vegar fleiri og lengri orð.

Reglan um 16 orða meðaltal kemur frá AP. Síðan sú regla var tekin þar upp hafa aukist áhrif ljósvakamiðla á stíl. Og fram hafa komið netmiðlar, sem gera enn knappari kröfur til stíls. Þar verður allt að rúmast á einni skjámynd. 17 orð eru að verða hámark málsgreina.

Sautján orða hámark málsgreina gildir í fréttum. Skoðanir og rýni, þar sem röksemdir þarf, geta verið lengri. 23 orð er hámark þar. Í löngum greinum, þar sem búið er að fanga athygli lesandans, mega í bland vera langar málsgreinar, en þá stuttar í kring.

Breytileg lengd málsgreina felur í sér fjölbreytni. Þá eru þær flestar stuttar, en stöku málsgrein verður lengri. Engin regla í stíl er mikilvægari en sú, að hafa hóflega lengd á málsgreinum. Það var stíll Ernest Hemingway, George Orwell og Graham Greene.

Þegar lengd málsgreinar fer í 20 orð eða hærra, er lesandinn kominn í vanda. Kosturinn við þennan vanda er, að svo auðvelt er að lækna hann. Bara setja punkt og stóran staf í stað samtenginga, lýsingarháttar, skildagatíðar og annarra truflana.

Forðastu röð losaralegra setninga innan málsgreinar. Settu punkt og stóran staf í stað þess að nota hlutlaus tengingarorð á borð við “og”, “en”, “sem”, “meðan”, “samt”, “enda”. Ef þessi orð eru brýn, má nota þau fremst í nýrri málsgrein. Oftast eru þau óþörf.

Ekki þarf neinn uppskurð, bara hjálp í viðlögum. Oft má setja fornöfn í stað samtenginga til að stinga gat á belgdar málsgreinar. Hér er dæmi um texta, þegar búið er að strika út samtengingar og setja inn punkta og stóra stafi:

“Ráðherrar, þingmenn og sendiherrar lentu í uppþotinu. Það hófst rétt eftir að Moi forseti fór á brott í embættisbíl sínum. Þúsundir höfðu safnast saman fyrir utan kirkjuna um tvo kílómetra frá miðbænum til að minnast Robert Ouko.”

Einfaldasta leiðin og ódýrasta er að sleppa samtengingunum OG og EN. Setja í staðinn punkt og stóran staf. Sjálfgefið er, að málsgreinar innan sama málsliðar séu í samhengi hver við aðra. Þær þurfa því ekki merkingarlaus orð til að tengjast.

Ekki skrifa svona: “Heimamönnum hefði ekki þótt fýsilegt að mæta strokufanga í heimreiðinni, en að sögn yfirfangavarðar Litla-Hrauns hefði seint komið til þess.” Betra: “… í heimreiðinni. Að sögn yfirfangavarðar Litla-Hrauns hefði seint komið …”

Ekki skrifa: “Verðir eru vel í stakk búnir til að takast á við óvænta atburði sem þennan og eru þjálfaðir til að veita strokumönnum eftirför.” Betra: “Verðir geta vel takist á við óvænta atburði. Þeir eru þjálfaðir í að veita …”

2. regla Jónasar:
Settu sem víðast
punkt og stóran staf