0106 Þétting 2

0106

Textastíll
Þétting II
Strikaðu út óþörf orð,
helmingaðu textann.

Ekki vitna í nafnlausan heimildarmann: “Tekið hefur verið eftir hárri skilnaðatíðni í hverfum, þar sem tekið hefur verið eftir dreifðri búsetu”. Betra: “Skilnaðatíðni er há í strjálbýlum hverfum.” Ekki skrifa: “Að því er varðar þróun Kína”. Nóg að skrifa “Kína”.

Oft er ranglega halað í land:
1. Venjulega. Oftast. Stundum. Næstum. Ef til vill. Hugsanlega. Að sumu leyti. Að vissu marki. Nokkuð. 2. Flestir. Margir. Sumir. Ákveðinn hluti. 3. Gæti. Virðist. Hneigist að. Gefur í skyn.

Oft er ranglega ýkt: 1. Mjög. Alveg. Greinilega. Augljóslega. Vafalaust. Auðvitað. Alltaf. 2. Lykilatriði. Miðlægt. Nauðsynlegt. Meiri háttar. Aðal. Brýnt. 3. Sannar. Staðfestir. Eins og allir vita. Það er augljóst að. Blaðamenn nota of mikið af slíku.

160 vond orð: “Ritstjórn er hluti textavinnu. Fáir eru svo klárir, að þeir geti framleitt það í fyrstu tilraun, sem þeir sækjast eftir. Mjög oft uppgötvar þú, þegar þú ferð yfir handritið, að það eru alvarlegir gallar í röð hugsana, sem kalla á breytta orðaröð. …

Í slíkum tilvikum getur ritvinnsluforrit sparað tíma og vinnu. Þú getur valið texta á skjánum, fært hann á betri stað. Eða þú getur flutt textann aftur fyrir greinina og ákveðið síðar, hvar hann verður. Sumum finnst þó betra að eiga við prentað afrit af handritinu. …

Það hjálpar að sjá hvernig breytingar virka. Öðrum finnst betra að leiðrétta á skjá. Vertu fyrst og fremst ekki hræddur við að prófa það, sem þú hefur skrifað. Notaðu tölvuna til að vista endurskoðaða og upprunalega textann, ef annað þeirra virðist heppilegra. …

Það er ekki merki um veikleika eða uppgjöf, að handrit þurfi á miklum uppskurði að halda. Þetta er algengt verklag, sem kemur fyrir í flestum skrifum, jafnvel hjá hinum bestu rithöfundum.” Þetta eru um 160 orð. Gera má betur, stytta textann 80% niður í 32 orð:

Það er ekki merki um veikleika eða uppgjöf, að handrit þurfi á miklum uppskurði að halda. Þetta er algengt verklag, sem kemur fyrir í flestum skrifum, jafnvel hjá hinum bestu rithöfundum.” Þetta eru um 160 orð. Gera má betur, stytta textann 80% niður í 32 orð:

“Flestir höfundar endurskoða, fáir skrifa gott uppkast. Færðu texta til á skjánum. Þú getur alltaf sótt gamla textann aftur. Merkir rithöfundar endurskoða. Það er ekki veikleiki, þótt þú þurfir að skera niður.” Þessi 32 orð passa í fjölmiðil. Ekki fyrri 160 orðin.

Ritstjóri mundi ekki reyna að leiðrétta upprunalega textann þinn hér að ofan. Hann mundi bara strika hann allan út og skrifa sjálfur í 32 orðum, sem þú hafðir eytt 160 orðum í. Slík vinna er það, sem umfram annað breytir nýliða í reyndan blaðamann.

Ekki tvöföld orð: “Ef og þegar við getum skilgreint endanleg markmið okkar og endastöð, mun sérhver og allir meðlimir hópsins vera tilbúnir og fúsir að bjóða hjálp og aðstoð.” Betra er: “Ef við skilgreinum markmið okkar, erum við tilbúin til að hjálpa.”

Ekki óþarfa þrengingarorð: “Í viðskiptaheimi nútímans eyðileggur skriffinnska ríkisins alvarlega frumkvæði einstakra fyrirtækja í tæknigeira nútímans.” Betra er: “Skriffinnska ríkisins eyðileggur framtak tæknifyrirtækja.”

Meiningarlaus þrengingarorð: “Flestir námsmenn finna almennt séð einhvers konar sumarvinnu.” Betra er: “Flestir námsmenn finna sumarvinnu.” Ekki: “Orka til að knýja stóriðju og heimili mun í framtíðinni kosta meiri peninga.” Betra: “Orka mun hækka í verði.”

Ekki óþarfa flokkanir: “Á sviði menntunar er erfið fjárhagsstaða að neyða skólanefndir til að gera ráðstafanir til að skera niður óþarfan kostnað.” Betra er: “Erfið fjárhagsstaða neyðir skólanefndir til að skera niður óþarfa.” Þær skera ekki niður utan menntunar.

Ekki nota aukasetningu í stað orðs: “Seglbátur, sem hefur lagst á hliðina eða snúist á hvolf verður að geta haldið á floti þunga þeirra, sem voru um borð.” Betra er: “Ef bát hvolfir, verður hann að geta borið áhöfnina.”

Ekki nota óbeinar neitanir: “Það er engin ástæða til að trúa því ekki, að verkfræðilegar bilanir í kjarnorkustöðvum geti ekki verið fyrirsjáanlegar.” Betra er: “Bilanir í kjarnorkustöðvum munu koma okkur á óvart.”

Ekki of spekingslegan texta: “Það er næstum örugglega tilfellið, að alræðiskerfi geta ekki leyft samfélaginu að hafa það, sem við köllum traust félagsleg samskipti.” Betra er: “Alræði truflar traust félagsleg samskipti.”

Afleitur texti (84 orð):
“Matsalurinn er stór og rúmgóður með mörgum borðum og stólum. Þrátt fyrir það er ekki kalt í salnum og stólarnir eru búnir mjúkum sessum. Það er taflborð í miðjum salnum en enginn er að tefla þessa stundina.

Nokkrum sjálfssölum er stillt upp við vegg þar sem hægt er að verða sér úti um gos og sælgæti. Einnig er lítil veitingasala staðsett innst í salnum þar sem fólk getur keypt sér kaffi og samlokur. Fáir nemendur eru staddir í matsalnum enda ekki frímínútur hjá öllum.”

Betra er: “Salurinn er rúmgóður, en ekki kaldur. Enginn situr við taflborðin. Gos og sælgæti er í sjálfsölum við vegginn. Innst er veitingasala með kaffi og samlokum. Fáir eru mættir, enda ekki frímínútur.” Samtals 31 orð eða 63% niðurskurður.

3. regla Jónasar
Strikaðu út óþörf orð.
Helmingaðu textann.