0109 Klisjur 3

0109

Textastíll
Klisjur III
Forðastu klisjur, þær voru
sniðugar bara einu sinni

Við skulum enn hverfa frá lifandi lit inn í undirheima af klisjum, misheppnuðum orðtökum og torskildum samanburði. Allt rís það af lofsverðum áhuga á lit í frásögn, en tækin eru léleg og einnig árangurinn.

Veraldarvefurinn er orðinn foss af rugluðum orðtökum:
“Ég dorgaði fyrir framan sjónvarpið allt kvöldið og lá svo andvana alla nóttina.”
“Ég mála í pastalitunum, þeir höfða svo til mín.”

“Ég var alveg að drepast í bringusvölunum.”
“Ég stóð algerlega á fjöllum.”
“Lumbraðu nokkuð á garni handa mér?”
“Þetta er svo langbesta sultuterta sem ég hef aldrei nokkurn tíma smakkað.”

“Hann kom eins og þjófur úr sauðaleggnum.”
“Hann kom eins og þruma á nóttu.”
“Hann kom eins og skrattinn úr heiðskíru lofti.”

Verstu málalengingarnar eru þó hversdagslegri, langt frá orðtökum. Blaðamaður skrifar: “Ekki er vitað til að neinn hafi orðið fyrir meiðslum.” (10 orð)
Þetta þýðir á íslensku: “Engan sakaði” (2 orð)

Klisjur eru skilgreindar sem snjáðir frasar, sem góðir höfundar reyna að forðast. George Orwell var hreintrúarmaður í stíl og sagði: “Notaðu aldrei myndlíkingu, samlíkingu eða orðtak, sem þú ert vanur að sjá á prenti.”

Enginn getur alveg komist hjá hinum mikla forða málshátta eða orðtaka. Þar vegur margt salt mitt á milli orðtaksins og klisjunnar. Að nokkru leyti er smekksatriði, hvort menn telja frasa vera orðtak eða klisju. Það verður að velja og hafna.

Munurinn felst í, að menn grípa sjálfvirkt til klisjunnar til að spara sér hugsun. En nota orðtak að yfirlögðu ráði sem bestu leiðina til að koma ákveðinni hugsun á framfæri. Klisjur eru líka misjafnlega fráhrindandi:

“Þær seljast eins og heitar lummur.” “Komast út í ferskt loft.” “Forðast eins og heitan eldinn.” “Leggja upp laupana”. “Velta við hverjum steini.” “Í annan stað.” Allt eru þetta dæmi um þreyttar klisjur.

“Þau eru súr”, er að vísu gömul klisja, en segir langa dæmisögu í þremur orðum. Slíkar klisjur má nota í hófi, ef það er leiðin framhjá annars löngum texta um, hvernig menn hafna því, sem þeir ná ekki til. Klisjur eru ekki alvondar.

Forðist: Hlutfallslega. Ekki: “Staða stjórnarflokkanna meðal kvenna er hlutfallslega veik.” Betra er: “Staða stjórnarflokkanna meðal kvenna er veik.”
Nokkrar tillögur um meðferð á klisjum:

1) Hafðu ekki áhyggjur af örfáum klisjum. Ef þú ferð hins vegar að raða þeim upp á þráðinn, fölnar sagan. Með hverri viðbótarklisju margfaldast dapurleikinn.

2) Klisja er þolanleg, ef hún nær tilgangi þínum nákvæmlega. Notaðu ekki klisju til að skreyta textann eða til að leggja aukna áherslu, þá hefur hún glatað gildi sínu. Ekki segja: “Orðrómurinn barst eins og eldur í sinu um bæinn.”

3) Ekki nota klisju á yfirborðshátt til að blása út einfalda hugmynd. Ekki segja: “Að ári liðnu hafði hinn langi armur laganna náð til hans.”

4) Farðu rétt með klisju. Ekki segja: “Fleygði barninu út með baðkerinu”. Rétt er “Fleygði barninu út með baðvatninu. Ekki segja: “Eins og þjófur úr heiðskíru lofti”. Rétt er annað hvort “þjófur á nóttu” eða “þruma úr heiðskíru lofti”.

5) Ekki er hægt að lappa upp á klisju. Notaðu hana eins og hún er, en reyndu ekki að laga hana. Ekki segja: “Þeir settu skrautvagninn fyrir framan gamla hestinn.” Rétt er: “Þeir settu vagninn fyrir hestinn.”

6) Ekki setja gæsalappir utan um klisju eða nota afsakandi orðalag á borð við: “Eins og gamla máltækið segir” eða “eins og kerlingin sagði”. Ef þú biður lesandann um að halda fyrir nefið, ertu bara að vekja athygli á fýlunni af þér.

7) Ekki skreyta textann með tilvitnunum í frægar setningar frægðarfólks. Ekki segja: “Austur er austur og vestur er vestur og aldrei munu þau hittast.” Ekki segja: “Hafa skal það, sem sannara reynist.”

8) Ef einhver leið er til að kreista safa úr gamalli klisju, felst aðferðin í að nota hana í nýrri og óvæntri merkingu, til dæmis snúa henni við: “Oft má satt kyrrt liggja” verður “Ei má satt kyrrt liggja.”

Gamansemi er hættuleg í blöndu. Ekki skrifa: “Maður, sem veiddi í Atlantshafi styrju á stærð við körfuboltamanninn Pétur Guðmundsson, missti fiskinn í hendur ríksins og sætir kröfu saksóknara um árs fangelsi og hundrað þúsund króna sekt.”