0110
Textastíll
Klisjur IV
Forðastu klisjur, þær voru
sniðugar bara einu sinni
Hvergi blómstra klisjur meira en á íþróttasíðum. Góðir blaðamenn á því sviði sanna þó, að svo þarf ekki að vera. En hinir veiklunduðu hrynja hópum saman fyrir handhægri flatneskju. Það er óafsakanlegt, en hefur ákveðnar skýringar.
Sögur blaðamanna í íþróttum eru oft hver annarri líkar. Morð, skipskaðar og bílslys eru hins vegar hvert með sínum hætti. Þess vegna er meiri freisting hjá blaðamönnum í íþróttum að draga upp skrautfjaðrir úr klisjubankanum.
Úr íþróttunum streymir þessi klisjunotkun inn í skrif um stjórnmál. Menn hafa tilhneigingu til að skrifa um þau eins og um íþróttaleik: “Framsóknarflokknum hefur alltaf gengið illa í skoðanakönnunum, en hann hefur náð sér upp á endasprettinum.”
Hrifning íþróttablaðamanna á nokkrum hetjum leiðir til lýsinga, sem ekki hafa jarðsamband. Í texta þeirra eru engar vanlýsingar. Það er kjörin leið fyrir klisjur inn í textann: “Jón mætti grimmur til leiks í seinni hálfleik”.
Hópeðli íþróttafréttamanna er óvenju mikið. Hver étur nýjustu klisjuna upp eftir öðrum. Hún var kannski góð, þegar hún var notuð í fyrsta sinn, en er orðin hvimleið í hundraðasta skipti: “Enginn annar en Ingimar Stenmark.”
Sumt af klisjunum kemur í stað hugsunar hjá íþróttamönnum, sem blaðamenn tala við í búningsklefum. “Við vorum að spila vel í fyrri hálfleik, en misstum okkur niður í þeim síðari. Við mætum grimmir til leiks í næsta skipti.”
Fólk er sjálft farið að sjá íþróttaleiki í sjónvarpi. Þess vegna hefur orðið erfiðara fyrir íþróttablaðamenn að troða upp með klisjur og upphrópanir. Fólk veit betur og tekur minna mark á þeim en það gerði áður.
Margar klisjur eru myndlíkingar og samlíkingar, sem hafa verið notaðar fram yfir andlátið, en neita samt að láta grafa sig. Sumir höfundar búa til nýjar, sem eru góðar hjá þeim, en verða leiðinlegar við endurtekningu annarra.
Hættur eru á ferli, þegar menn búa til nýjar klisjur. Þær eru góðar, ef þær hitta í mark, en vondar, þegar þær reynast vera púðurskot. Hægt er að búa til nýjar myndlíkingar eða samlíkingar, en hættulegt að rembast við þær tilraunir.
Blönduð myndlíking: “Hann hljóp af stað og sigldi þöndum seglum, uns hann flaug í mark.” Dauð myndlíking: “Þetta var rótgróin hugmynd, sem hljóp með þá í gönur.”
Persónugerðir og táknsögur voru í tísku á 18. öld, en henta ekki í nútímanum. Að vísu eru persónugerðir til í málinu: “Gæfan brosir við”. En verra er, þegar til leiks eru dregnir aðilar eins og “móðir náttúra” eða “Kári konungur”.
Þegar menn leita dauðaleit að gáfulegu, sætu eða skáldlegu hugtaki lenda menn oft í eitraðri blöndu. Ekki blanda ómerkilegu við mikilvægt, fíflalegu við alvarlegt.
Ekki skrifa: “Reykurinn er horfinn úr sistínsku kapellunni í Vatíkaninu, en eldurinn brennur enn í búningsklefum Fram, sem á í erfiðleikum í meistaradeildinni.”
Strikaðu klisjur út, hvenær sem þú efast um þær. Sparaðu þær, því að þær þreyta lesendur, þegar þær koma í röð. Fólk vill ekki stöðugt standa andspænis samlíkingu einhvers atriðis við eitthvert annað atriði.
Forðastu klisjur af þessu tagi:
Hann málaði sig út í horn.
Hún reis upp á afturfæturna.
Hann gein við agninu.
Við plægðum akurinn.
Hún tók honum opnum örmum.
Þeir voru dregnir á asnaeyrunum.
Hann rak upp stór augu.
Hún er eins og álfur út úr hól.
Hann hafði hönd í bagga.
Hún braut hann á bak aftur.
Hann bar í bakkafullan lækinn.
Hún er að hlaða batteríin.
Hann er á biðilsbuxunum.
Hún braut blað í sögu flokksins.
Hann er kominn í blindgötu.
Hún situr báðum megin borðsins.
Hann hefur borð fyrir báru.
Hún er komin á beinu brautina.
Hann beygir sig í duftið.
Hún stingur dúsu upp í hann.
Hann er eftirbátur annarra.
Hún veður elginn.
Hann situr eftir með sárt ennið.
Forðastu klisjur, þær voru
sniðugar bara einu sinni.
Þá eru reglur Jónasar orðnar fjórar:
Skrifaðu eins og fólk,
ekki eins og fræðimenn
Settu sem víðast
punkt og stóran staf.
Strikaðu út óþörf orð,
helmingaðu textann.
Forðastu klisjur, þær voru
sniðugar bara einu sinni.