0114
Textastíll
Textagerð II
Notaðu stuttan, skýran
og spennandi texta.
24 reglur um stíl
1. Íslenska er hratt og hreyfanlegt tungumál, að því leyti lík ensku.
2. Ein hugmynd í hverri málsgrein. Mest 17 orð í málsgrein. Hemingway.
3. Nota sagnorð, ekki nafnorð (hann kaus, ekki: hann greiddi atkvæði).
4. Nota frumlag, ekki andlag (hann gerði, ekki: það var framkvæmt af honum).
5. Nota sagnorð og nafnorð, ekki lýsingar- og atviksorð.
6. Nota einfaldar og stuttar málsgreinar: Frumlag, umsögn, andlag.
7. Nota einföld og stutt orð. (kjör, kosning, ekki: atkvæðagreiðsla).
8. Forðast klisjur, tískufyrirbæri (á ári, ekki: á ársgrundvelli) (kaupa, ekki: versla sér).
9. Nota rétta tíð og mynd (þeir léku vel, ekki: þeir voru að spila vel).
10. Gæta þess, að tíðir, myndir, tölur og föll orða standist á. Lestu yfir.
11. Ekki þjappa of miklu í málsgreinar, einkum í upphafi greinar.
12. Lýsa aðstæðum og bakgrunni, flytja lesandann á vettvang.
13. Skilgreina hugtök, sem lesandinn skilur ekki (ekki: LÍÚ, BNA).
14. Vísa til hliðstæðna, þegar þú útskýrir flókin atriði.
15. Svara öllum spurningum, sem upp kunna að koma.
16. Búa ekki til væntingar, sem þú stendur ekki við. Sýndu dæmin.
17. Vera varfærinn í orðum, þegar sagan sjálf er dramatísk.
18. Sýna í stað þess að segja frá: “Hann lamdi hnefanum í borðið.”
19. Hafa mikilvægustu orðin fremst í málsgrein. Lesandinn nennir ekki að bíða.
20. Fara sparlega með beinar tilvitnanir til að forðast að vera langorður
21. Koma strax með nafn viðmælandans, ekki á eftir tilvitnuninni.
22. Strikaðu út óþörf atriði. Góður stíll er knappur, kraftmikill.
23. Ekki ýkja, láttu söguna segja sig sjálfa. Það gera góðar sögur.
24. Lestu söguna upphátt. Það segir þér, þegar textinn fer að ramba.
Átta tegundir frétta
1. Öfugur píramídi:
A. Nýjar vendingar í málinu. B. Tveir-þrír málsliðir með fleiri upplýsingum um þessar nýju vendingar. C. Skýrt frá, hvernig þetta tengist sögu málsins. D. Lokið að segja frá vendingunum. E. Auka- og viðbótarupplýsingar.
2. Tímasaga:
Fyrst er inngangur. Síðan er sagan sögð nokkurn veginn í þeirri röð, sem atburðir hennar gerðust. Fréttir af atburðarás henta oft þessari aðferð við að segja frá. Dæmigerð er íþróttafrétt af gangi kappleiks.
3. Raðsaga:
Fyrst er inngangur. Síðan eru raktir nokkrir sjálfstæðir og jafngildir þættir málsins í röð, A. B. C. D. o.s.frv, venjulega í mikilvægisröð. Þeir eru síðan dregnir saman í lokin. Sagt er frá gengi liða í einni umferð.
4. Frestuð saga:
Inngangurinn lýsir kringumstæðum eða dæmi, sem varpar ljósi á söguna. Síðan kemur sagan sjálf. Ekki fresta of lengi að koma með meginatriði sögunnar, því að annars getur lesandinn flett framhjá málinu.
5. Spennusaga:
Réttur píramídi. Endir kemur á óvart. Þú byrjar á að segja frá því sem gerðist, en segir ekki niðurstöðuna fyrr en í síðasta málslið. Þetta er fremur sjaldgæf aðferð. Hafðu samt auga á skrítnum sögum og gamansömum.
6. Grein:
Þú segir ekki bara fréttir, heldur gefur líka mynd. Þú reynir að draga upp mynd í huga lesandans. Tímasetning skiptir minna máli en í frétt. Mannleg áhugamál vega þyngra. Passaðu að láta söguna hanga saman á fókus.
7. Greining:
Þú lýsir verkefni eða vandamáli. Þú segir frá þeim, sem koma að málinu og hvaða afstöðu þeir tóku. Þú spáir í, hvað muni gerast næst. Þarna er oft um að ræða fréttaskýringu, þar sem höfundurinn tekur þátt í umræðunni.
8. Kjallaragrein eða menningarrýni:
Óteljandi form eru á greinum, sem fela í sér skoðanir. Allt gildir, svo framarlega sem það vekur áhuga lesandans og er vel skrifað. Þetta efni er oft sett fram í fyrstu persónu. “Ég tel”.
Sjötta regla Jónasar:
Notaðu stuttan, skýran
og spennandi texta.