0130
Textastíll
Örsögur og litur I
Litur felur í sér, að þú getir séð sögu á þann hátt, að þú getir sýnt hana öðrum. Lýsingarorð og aukningarorð hjálpa ekki, enda eru þau blekkjendur. Af hverju segja fólki, að eitthvað sé dramatískt? Láttu heldur söguna sjálfa segja það.
Hvað þýðir, að segja fólki, að borgin sé borg andstæðna? Eru þær ekki allar borgir andstæðna. Litur felst í að birta réttu smáatriðin eins og þau koma þér eða vitnum fyrir sjónir. Lítum á lýsingu á fundi í borgarstjórn:
“Þegar langhundar voru komnir fram yfir miðnætti, voru flestir áheyrenda farnir. En konan í fremstu röð hélt áfram að prjóna peysu. Aftast hraut aldraður maður. Guðrún virtist telja rakabletti í loftinu og Pétur hvíldi höku á hamrinum.”
Þarna var litur í texta við óvenjulegar aðstæður. Hvaða blaðamaður hefði nennt að hafa fyrir að segja þannig frá hundleiðinlegum borgarstjórnarfundi, að allir geta séð fundinn fyrir sér. Við skulum líta á texta frá AP um Exxon Valdez slysið:
“Eins og sleikjó í höndum tveggja ára barns hafði olían frá Exxon Valdez komist í allt. Slettur of froðu þöktu malarströndina. Regnið hraut af klettum eins og af bónuðum bíl. Hreinsunarmaður grefur í fjöruna og hönd hans er smurð í brúnu.
Þrekvaxinn fiskimaður fer að gráta, þegar hann lýsir, hvernig hann stýrði bátnum gegnum olíuna. Vatnið skvettist ekki við bátinn, ekki heyrðist í neinum fugli, ekkert nema æpandi þögn olíunnar, sem báturinn fór gegnum.
Í fuglabjörgunarstöðinni í Seward eru sjúklingarnir að bila. Þeir hafa verið þvegnir, en hafa innbyrt of mikið af banvænni olíu. Þeir láta ekki í sér heyra, undirvitundin segir þeim, að kalla ekki til sín ránfugla eða rándýr.”
Lítil, sértæk smáatriði:Blaðamenn geta ekki fengið lit í söguna með því að nota orðtök og klisjur. Þeir verða að nota sértæk smáatriði. Þeir verða að venja sig á að finna þessi litlu, sértæku smáatriði, sem gefa lesendum náin kynni af eðli viðfangsefnisins.
Jules Loh skrifaði kastljós um Herbert Hoover og tók eftir, að strokleðrið var upp urið á mörgum blýöntum, sem hann hafði í boxi. Þetta smáatriði sagði meira um viðfangsefnið en allt hitt, litur á hálsbindi, glans á skóm, klútur í brjóstvasa.
Gervilitur virkar ekki:
Miklar alhæfingar og ógreinilegar samsetningar nafnorða og lýsingarorða bæta ekki lit við frásagnir, smáatriðin gera það.
Ekki svona strengur af klisjum: “Fyrir utan þinghúsið er hann fyrst og fremst skapmildur. Með hóflega greiddu hári, vel skornu skeggi og hornspangargleraugum má ruglast á honum og háskólaprófessor við hinn nálæga Texas-háskóla.”
Betra er þessi lýsing AP á trésmið af flokki Shakers: “Charles Caffal er 43 ára iðnaðarmaður, í vextinum eins og það, sem hann dáist mest að. Hann er magur eins og stúmtjener, uppfinning shakeranna, og eina skartið er þykkt, rautt skegg.”
Ekki hæfir litur öllum sögum. Það er ekki hægt að sprauta lit á gamla og kuldalega veggi. Þar á litur ekki heima og lítur út eins og veggjakrot, sem gerir ekkert annað en að pirra fólk.
Ekki ofkeyra það: Flatneskja er meiri vandi í fréttum en óhóflegur litur, en það er einnig hægt að ofkeyra lit: “Foringjar sjö ríkustu landa heims hittust í gær á fundi, sem getur mótað landslag efnahags í heiminum og nært blómahaf friðar milli austurs og …”
Hlutverk sögumanns:
1. Þú tekur saman, kemst að niðurstöðu. “Disney neyðir alla til að taka þátt í draumum sínum. Allir hafa einhvern tíma sett upp Mikka músar húfu. Sem kaupsýsla er Disney einkum verk snillings, sem menning eru þau einkum hryllingur.”
Sum mál eru svo hlaðin gildismati, að blaðamaðurinn þorir ekki að taka á því, jafnvel þótt hann hafi kynnt sér vel rök málsins. Hann verður að hafna ótta sínum við að hafa rangt fyrir sér og segja skýrt og skorinort, hver niðurstaðan er.
2. Þú ert dómari í leiknum. Þras milli manna hefur lítinn tilgang, ef það er sett fram eins og tennis, er ping-pong blaðamennska. Þess í stað raðar þú upp röksemdum hvors fyrir sig, klippir út þær ósannanlegu og ósvífnu, raðar fyrst inn rökum annars, síðan hins.
3. Þú ert sjónarvottur og leiðsögumaður. Hvers vegna ekki, þú hefur kynnt þér málið, kannt að meta málsaðila, hefur hitt fólk, sem lesandinn þekkir ekki, komið á staði, þar sem hann kom ekki og séð ferli, sem hann veit ekki um.
Staða þín sem sjónarvotts nýtist til að færa lesandanum tilfinningu fyrir stað og persónum. Þú verður að vísu að fara varlega, alltaf að spyrja sjálfan þig: Er þetta sanngjarnt, hef ég næg gögn í höndunum. Alhæfingar pirra lesendur.