Textastíll
Hráefni greina I
Ritstjórinn lætur blaðamanninn hafa hugmynd, vonda hugmynd, en blaðamaðurinn situr uppi með hana, af því að hann býður sjálfur ekkert betra. Það er bara hálfur blaðamaður, sem ekki hefur tvær eða þrjár hugmyndir í gangi, aðeins óljós hugboð, sem rakna sundur í vinnslu.
Oft hugsar eða les blaðamaðurinn ekki nóg og talar ekki við rétta fólkið. Það er ekki nóg að lesa blöð og tímarit til að fá hugmyndir. Stundum er hægt að finna í sérhæfðum ritum nothæfa punkta, sem vinna má úr. Blaðamaðurinn þarf að hafa skipulegan minnislista í tölvunni.
Blaðamenn tala of mikið við blaðafulltrúa og yfirmenn, ekki nóg við millimenn. Ef þeir eru búnir að ná sambandi við fréttauppsprettu, glata þeir henni, af því að þeir vanrækja hana. Einkum er gott að fá fyrstu kynni af frétt frá manni, sem ekki verður borinn fyrir henni.
Blaðamaður, sem talar reglulega við reyndar fréttauppsprettur, nær oft góðum árangri, af því að viðmælandinn reynir að hjálpa honum, en ekki að koma í veg fyrir, að vitnað verði í sig. Samtalið er ekki ógnandi fyrir hann, heldur kitlandi.
Með framreikningi getur blaðamaður dregið þá ályktun, að í framhaldi af atburði séu mikilvægari hlutir að gerast. Blaðamaðurinn spyr sig, hvers vegna atburðurinn hafi gerst og hvort sú orsök geti leitt til annarra atburða. Hann hringir í menn, sem þekkja til. Eitthvað kann að koma í ljós.
Blaðamaður, sem kann samþættingu sér og nýtir þræði ýmissa atburða, sem öðrum virðast óskyldir. Það getur verið samþættur staður, samþættur tími, samþætt orsök, samþætt tegund af fólki eða stofnunum.
(Blundell: San Diego, bls. 6-7)
Blaðamaður, sem fer í gang með mál, finnur oft sér til skelfingar, að fleiri eru byrjaðir í málinu. Þess vegna fer hann úr óhlutlægum upplýsingum yfir í hlutlæga lýsingu á aðstæðum. Eða þá að hann sér aðalpersónu og andstæðing hennar, ýmsa viðburði, drama, spennu, mannlíf. (Rónagarðurinn, bls. 9-10)
Blaðamaður, sem kann að varpa máli á tjald, getur farið fram úr því inn á nýjar víddir þess. Hann sleppir smáatriðum við aðalframvindu meginmálsins og fer í staðinn að sinna afleiðingum og gagnaðgerðum. Meginmál hafa oft afleiðingar og leiða síðan til gagnaðgerða.
Ef annar fjölmiðill hefur komið sér fyrir á góðum sjónarhóli, er skynsamlegt að finna sér annan sjónarhól. Oft er leiðin að finna fólkið, andlit fólks, raddir þess. Blaðamaðurinn er sagnamaður, sem verður að geta sagt góða sögu.
(Blundell: Þorpið Napizaro, bls. 13-19)
Hundar og önnur sæt dýr og viðfelldin börn eru best lesna blaðaefnið. Næst koma þeir, sem tóku þátt í atburðum. Í þriðja lagi eru staðreyndir. Í fjórða lagi koma áhorfendur, álitsgjafar, sérfræðingar, lögmenn. Á botni vinsælda eru tölur.
Allt of mikið er um viðtöl við blaðrandi stéttir, sem hafa álit á málinu, eru taldar hafa sérþekkingu á því. Lesendum leiðist slíkt fólk. Þeir vilja lesa um fólkið, sem tók þátt í atburðunum eða lenti í þeim. Þeir vilja fyrsta stigs heimildir, ekki annars stigs.
Háar tölur eru óhlutlægar. Reyndu að breyta tölum í eitthvað, sem hugurinn getur myndað, til dæmis tvær þriggja herbergja íbúðir í árslaun. Margar tölur í einum texta leiða til uppgjafar lesandans, hann snýr sér að öðru.
Best er að hafa atburðarás í texta, athafnir, gerðir, hegðun, framferði, áhrif, verkun, áorkan, gagnverkun, andstöðu. Ekkert kemur í texta í staðinn fyrir slíkt og margur textinn verður góður af atburðarásinni einni saman.
“Raunhæft konsept” er söluvaran í Hollywood. Þau verða hins vegar fæst að veruleika. Sama er að segja um hugmyndir blaðamanna um greinarefni. Þeir, sem bara eru vopnaðir “raunhæfum konseptum”, hafa engin raunveruleg söguefni.
Stundum er hugmyndin of þröng eða of víðtæk. Við því má bregðast með því að beita röksemdafærslu orsakar og afleiðingar, þar sem togast á atburðarás og gagnverkun. Án hjálpar rökhyggju lendir blaðamaðurinn í völundarhúsi og glundroða.
Blaðamaðurinn þarf strax að gera sér grein fyrir, hvað hann tekur með í grein og hvað hann skilur eftir. Þegar hann dregur upp röksemdafærsluna, skoðar hann málið í ljósi tíma, fjarlægðar og málsaðila.
(Blundell: Orsakasamhengi læknaskorts, bls. 26)
Spekúlasjónir koma aðeins að gagni, þegar lagt er af stað. Á endanum eru það svo atburðir, sem sagt er frá, ekki fyrirfram mótaðar hugmyndir, fordómar eða hleypidómar. Blaðamenn þurfa að vera sveigjanlegir í ljósi staðreynda.
Ritstjórar og aðrir efnisstjórar verða oft að umskrifa texta, af því að þemað var óljóst í handritinu, fókusinn var ekki skýr, frásögnin ruglingsleg. Þeir neyðast til að vinna það, sem blaðamaðurinn átti að gera. Þeir vaska upp eftir blaðamanninn.
Lausnin á þessu er að taka eitt atriði út úr landakorti málsins og lýsa því í tveimur einföldum, þétt skrifuðum málsgreinum, þar sem lögð er áhersla á atburði. Þessar málsgreinar kallar þú AÐALÞEMA málsins. Það sem þú selur ritstjóranum.