0147
Textastíll
Skýr sjónvarpsskrif II
Því nær sem blaðamaður dregst sérsviði, þeim mun meiri líkur eru á, að hann víki frá samræðutexta og fari yfir í klisjur sérsviðsins. Þær leiða yfirleitt til misskilnings og þær flækja málið fyrir notendum. Þýddu sérmál yfir á íslensku.
Ekki segja: “Erfitt er að mæla áhrif orkukreppunnar á lokun verksmiðja og uppsagnir”. Heldur svona: “Erfitt er að segja, hversu margir hafa misst vinnu og hversu mörgum verksmiðjum hefur verið lokað vegna orkukreppunnar.”
Næst á eftir efnahagsmálum eru sögur úr stjórnsýslunni þær, þar sem oftast er gripið til sérmáls og klisja og þar sem nauðsynlegust er þýðing yfir á íslensku. Enginn segir: “Það mun valda ágreiningi”. Heldur: “Þeim mun ekki líka það”.
Texti á að vera hreinn og laus við stafsetningar- og málfræðivillur, jafnvel þótt þú notir textann bara fyrir sjálfan þig. Það er einkenni fagmannsins að kunna rétt mál og réttan frágang. Það getur líka verið, að annar þurfi að nota textann.
Fowler & Aaron: “Málfræði lýsir gangverki tungunnar. Margir geta skrifað vel, en eiga erfitt með að útskýra það málfræðilega. En þekking á málfræði hjálpar, þegar eitthvað hefur farið aflögu í málsgrein, sem þarf að skilgreina og lagfæra.”
Notið ekki hástafi í texta. Það er erfitt að lesa hástafi, lágstafir eru ætlaðir til lestrar. Notaðu hljóðskrift í erfiðum orðum á fólki og stöðum í útlöndum. Schröder er ekki “Skroder”, eins og ameríkanar segja, heldur “Sröder”.
Mikilvægt er að kunna tækni stuttra orða og málsgreina, germynd og framsöguhátt. En tungumál ljósvakans er meira en tækni. Fagur stíll er það, sem einkennir þann, sem hefur fyrir löngu náð tökum á tækninni og hefur náð lengra í starfi sínu.
Allt byrjar og endar á orðunum. Stundum þarf að fara hversdagslegu leiðina. Segðu: “Sagði”. Notaðu ekki skrúðorð, sem segja annað: “Hrópaði”, “mótmælti”, “neitaði”, “afneitaði”, “lýsti yfir”, “benti á”. Þetta eru ekki samheiti.
Sagði felur ekki í sér neitt mat á því, sem sagt var, hvorki neikvætt né jákvætt. Það er hlutlaust orð og venjulega orðið, sem alltaf passar. Ekki vera hræddur við að ofnota orð, sem hljóta að vera hornsteinn í sögum.
Notaðu germynd sagna, ekki þolmynd. Hafðu textann magran, slepptu lýsingarorðum og atviksorðum, sem soga kraftinn úr textanum. Farðu eftir leiðbeiningum William Strunk:
“Öruggasta leiðin til að ná og halda athygli lesandans er með því að vera sértækur, ákveðinn og naglfastur. Höfundarnir miklu, Hómer, Dante, Shakespeare náðu athygli af því að þeir voru sértækir og sögðu frá mikilvægum smáatriðum.”
Þótt sjónvarpið hafi myndir og hljóð, er eigi að síður mikilvægt að banka í koll notandans og nýta sér safn hans af myndum og reynslu. Leitaðu að smáatriðum, sem lýsa áhrifum á fólk. Lýsa, hvað það er, sem felur í sér mannlega tilfinningu.
Ertu að skrifa um hag bankans? Þýddu það á mál, sem allir skilja. Ertu að skrifa um heilbrigðismál? Þýddu það á íslensku með því að segja frá áþreifanlegu dæmi um fólk, sem hefur reynslu af heilbrigðiskerfinu.
Sum orð hljóma betur en önnur. Það er tónlist í orðum, málsgreinum, málsliðum og heilum sögum. Hlustaðu á orðin, sem þú notar. Ef þau henta ekki hugarástandi sögunnar, skaltu skipta þeim út fyrir önnur.
Þótt menn tali í stuttum setningum og þótt stuttar málsgreinar séu yfirleitt betri en langar, getur stundum verið gott að hafa málsgreinar lengri til að láta textann flæða betur. Því hraðari, sem sagan er, þeim mun styttri eru málsgreinar.
Textagerð fyrir útvarp og sjónvarp er listgrein. Hlustaðu á það, sem þú skrifar. Ef það hljómar rangt, muntu ekki vinna notendur á þitt band.
Klisjur eru hugtök, sem hafa verið notuð svo mikið, að þau hafa ekki lengur neina spennu. Þær hafa lifað lengur en hæfilegt er. Klisja er þreytt hugtak. Í fyrsta skipti, sem hún er notuð, er hún ef til vill spakmæli, í 100asta skipti er hún klisja.
Notaðu talmálslegan texta í skrifum fyrir ljósvakann. Notaðu stuttar málsgreinar með fáum aukasetningum og notaðu auðskilin orð. Lestu textann upphátt til að meta hann rétt.
Skýr sjónvarpsskrif
Í ljósvakamiðlum tala viðmælendur sjálfir. Orð þeirra eru ekki endursögð af fréttaþul.