0202
Blaðamennska
Viðtöl
Viðtöl: Allar lengdir viðtala, frá einu orði og upp úr. Í síma eða augliti til auglitis. Viðtal getur verið spurning um símanúmer eða fundatíma. Viðtal getur líka verið margar síður. Sérstakir fyrirlestrar um viðtöl eru í þessari vefbók.
Reynslan sýnir, að mikilvægt er, að viðtalsefni viti, hver sé að tala við það, blaðamaður. Reynslan sýnir líka, að óvant fólk reynist stundum ekki gera sér grein fyrir, að það er að tala við blaðamann, þótt því sé sagt frá því.
Notkun segulbanda er mikilvægt öryggisatriði, ekki mikilvægt vinnugagn. Oft segist fólk hafa sagt annað en stóð í fréttinni og blaðamaðurinn þarf að eiga sönnunargagnið. Uppskriftir af segulbandi leiða hins vegar til lélegs textastíls.
Nafnlaus viðtöl binda hendur. Nafnlaust fólk gerir þig ábyrgan fyrir því, sem það otar fram. Hversu mikið veit ónafngreindur heimildarmaður í rauninni, er hann hlutdrægur? Vendu heimildamenn þína á að segja það sem þeir vita réttast.
Viðtöl: Undirbúa sig, þekkja málefni og menn, forðast að vera plataður eða fá of lítið að vita. Hafa spurningalista til öryggis, en muna helstu spurningarnar. Fara út úr listanum, ef viðtal þróast í áhugaverðari áttir en ráð var fyrir gert.
Sími eða auglit (fylgst með hegðun, umhverfi), ekki skellt á símanum. Síminn sparar tíma, en gefur takmarkaðri sýn. Klæðaburður og stjórn viðtals. Vera hlutlaust klæddur, stjórna viðtalinu, hafna hliðarhoppum og undanbrögðum.
Margir eru leiknir, tala mikið, en veita lítil svör. Þegar viðmælandi er með undanbrögð, þarf stundum að orða spurningarnar upp á nýtt. Í versta tilviki þarf hreinlega að segja, að undanbrögð dugi ekki, maður vilji fá svör.
Slægir viðmælendur: Lagaðu spurningar, nýtt orðalag. Segðu að lokum “ég vil fá svar”. Segulband er vörn gegn “rangt var eftir haft”, en nýtast ekki til að skrifa upp viðtal. Byrja með þægilegu snakki, fá formsatriði rétt inn á band.
Níu reglur um þinn málaflokk:
1. Komdu þér út af ritstjórn og inn á skrifstofur málsaðila.
2. Settu þér dagleg markmið, t.d. um burði, undirstrik og eindálka.
3. Byggðu upp flokk heimildarmanna, sem þú talar helst við daglega.
4. Spurðu grófra spurninga, víðtækra spurninga, heimskulegra spurninga.
5. Biddu um allt, þú gætir jafnvel fengið það.
6. Hlustaðu vel og fylgstu vel með, orð fólks og texti er bara hluti málsins.
7. Ekki bregðast trausti, ekki lofa því sem þú getur ekki staðið við.
8. Farðu beint í upprunalegu gögnin, láttu ekki mata þau fyrir þig.
9. Komdu þér upp símaskrá og hringdu á föstum tímum.
Kældu þig niður, þegar þú ert búinn. Ef þú ert ekki í tímahraki, er gott að dreifa huganum, skoða myndasögur, tala við efnisstjórann. Síðan ferðu aftur að sögunni, skrifar hana upp á nýtt, þegar þú ert búinn að fá fjarlægð frá efninu.
Fimmtán reglur um viðtöl:
1. Byrjaðu á auðveldu, enda á erfiðu. Auðvelt upphaf liðkar fyrir
2. Byrjaðu á því, sem þú veist um, tékkaðu svarið við veruleikann.
3. Fylgstu með hegðun viðmælanda, roðnar hann. Smáatriði segja oft sögu.
4. Skilurðu svörin? Láttu viðmælandann hjálpa. Sérfræðingar vilja hjálpa.
5. Hvers vegna, hvernig, hvað svo? Ekki gleyma þessum þremur lykilspurningum af sjö.
6. Spurðu, hvað kom viðmælandanum á óvart. Virkar oft vel.
7. Leitaðu að sögum, hvað gerðist í raun. Fáðu viðmælandann til að segja frá.
8. Gerðu alltaf ráð fyrir svari, ekki spyrja: Viltu svara þessu.
9. Breyttu orðalagi spurningar, komdu aftur og aftur að spurningunni.
10. Vektu viðbrögð: Þessi segir þetta um málið, hvað segirðu við því?
11. Notaðu háværar þagnir, sá vinnur sem lengst þegir.
12. Erfiðustu spurningarnar koma síðast, þegar gott rennsli er komið í viðtalið.
13. Haltu áfram að tala, þegar segulband og nótubók eru komin í vasa.
14. Þakkaðu fyrir þig, taktu síma og netfang, jákvæður endir.
15. Lestu bara beinar tilvitnanir í síma og sendu alls ekki neitt í tölvupósti.
Verkefni:
Skrifaðu 200 orða viðtal dagsins.