0218
Blaðamennska
Karólínudómurinn
Dómur Evrópudómstólsins í Karólínumálinu 24. júní 2004 hefur vakið umræðu um rétt fólks til að vera látið í friði, sem er í stjórnarskrá Bandaríkjanna og í mannréttindaskrá Evrópu. Í báðum tilvikum er talað um frið fyrir stjórnvöldum.
Í Bandaríkjunum hefur komið upp umræða um, að láta þurfi kenninguna um réttinn til að fá að vera í friði ná til fjölmiðla eins og stjórnvalda. Sú umræðu hefur ekki leitt til neinna breytinga á skilningi Hæstaréttar Bandaríkjanna.
Evrópuþingið samþykkti 1998 þingsályktun í kjölfar dauðaslyss Díönu prinsessu, þar sem hvatt er til þess, að áttunda grein mannréttindaskrár Evrópu verði ekki bara látin ná til friðar fyrir stjórnvöldum heldur einnig fyrir fjölmiðlum.
Evrópudómstóllinn tók þetta svo upp í Karólínudómi sínum 2004. Þar segir, að áttunda greinin nái til þess máls, er Karólína prinsessa af Mónakó kærði nokkur þýsk tímarit fyrir að taka og birta myndir af sér á ýmsum stöðum.
Evrópudómstóllinn benti einnig á, að myndir, sem birtast í æsifréttablöðum og tímaritum séu oft teknar í andrúmslofti stöðugs eineltis, sem framkalli sterka tilfinningu hjá viðkomandi fólki fyrir, að um innrás í einkalíf þess sé að ræða.
Einnig segir Evrópudómstóllinn, að birting myndanna hafi ekki gegnt neinu hlutverki almannahagsmuna, heldur hafi hún eingöngu miðað að því að svala forvitni ákveðins hóps lesenda um einkalíf prinsessunnar.
Ennfremur segir Evrópudómstóllinn, að Karólína prinsessa sé ekki opinber persóna. Hún hafi fæðst sem prinsessa, en ekki sóst eftir því hlutverki. Hún gegni ekki opinberu embætti í Mónakó, þótt hún komi oft fram fyrir hönd fjölskyldunnar.
Á þeim árum, sem liðin eru frá Karólínudómi Evrópudómstólsins hefur ekki orðið vart við nein áhrif hans. Þýsk tímarit birta áfram myndir af frægðarfólki og frekari kærur af þessu tagi hafa ekki rekið á fjörur dómstólsins til þessa dags.
Hins vegar hafa ýmsir haldið fram, að dómstóllinn hafi misstigið sig í málinu. Stjórnarskrárákvæði um réttinn til að fá að vera í friði vísi aðeins til að fá að vera í friði fyrir stjórnvöldum. Svo hafi ætíð verið í vestrænum stjórnarskrám.
Því er haldið fram, að dómurinn opni fyrir alls konar kærur milli borgara í vestrænu þjóðfélagi í stað þess að Evrópudómstólnum hafi verið ætlað það hlutverk að fjalla um klögumál almennings gagnvart of aðgangshörðum stjórnvöldum.
Athyglisverð er niðurstaða þýska stjórnlagadómstólsins í Karlsruhe í þessu sama Karólínumáli árið 1999. Þar er fjallað um stöðu þeirra tímarita, sem fyrst og fremst eru að skemmta fólki og fjalla um frægðarpersónur af ýmsu tagi.
Stjórnlagadómstóllinn sagði, að prinsessan í Mónakó sé opinber persóna og geti ekki kvartað yfir athygli fjölmiðla. Tilgangur þeirra væri að segja fréttir, svala forvitni fólks, meðal annars um persónur. Fjölmiðlun sé oft um persónur.
Dómstóllinn sagði, að ekki væri hægt að gera greinarmun á virðulegri fjölmiðlun og persónulegri fjölmiðlun. Hann sagði, að prentfrelsi væri æðra einkalífsrétti. Heimilt hafi verið að taka og birta myndir af Karólínu prinsessu á almannafæri.
“Ekki er hægt að neita, að hreinar skemmtifréttir hafa hlutverk í skoðanamyndun. Annars væri maður að gera ráð fyrir, að þær þjónuðu aðeins skemmtun, slökun, lífsflótta og dreifingu hugans.”
“Skemmtifréttir geta líka sýnt mynd af veruleika og teflt fram umræðuefnum, sem leiða til viðbragða notenda og hafa áhrif á lífssýn þeirra, á mynstur gilda þeirra og hegðunar.”
“Þannig hafa skemmtifréttir mikilvæg félagslegt hlutverk. Þegar þær eru skoðaðar í ljósi varna prentfrelsis, er ekki hægt að telja þær smáar eða lítils virði. Því falla þær undir almenn mannréttindi.”
“Sama er að segja um fréttir af persónum. Þær eru mikilvæg aðferð í blaðamennsku við að draga að athygli. Oft eru þær það, sem fyrst vekur athygli á vandamáli og örvar óskir um staðreyndir.”
“Þar að auki býr frægðarfólk yfir siðferði og lífsstíl, sem hefur áhrif á aðra, annað hvort til eftirbreytni eða ekki. Það verður að skurðpunktum, þar sem kristallast gott og vont fordæmi. Því hafa fjölmiðlar áhuga á brokkgengu lífi frægðarfólks.”
Himinn og haf er milli sjónarmiða þýska stjórnlagadómstólsins og Evrópudómstólsins. Ekki verður séð annað, en að þau atriði, sem koma fram í Karólínumálinu, muni áfram verða til umræðu. Hér verður ekki spáð um endanlega niðurstöðu málsins.