0237 Ljósmyndarar hafa orðið

0237

Blaðamennska
Ljósmyndarar hafa orðið
Brian Horton, AP Guide to Photojournalism, 2. útgáfa 2001

Menn byrja á ýmsan hátt. Einn sem unglingur, sem foreldrar óku á vettvang. Annar átti foreldra, sem ráku dráttarbíla. Þriðji byrjaði með föður sínum. Fjórði á skólablaðinu og árbók skólans. Fimmti skoðaði blöðin. Sjötti fór í skóla.

Mark Duncan keyrði olíubíl og tók myndir í frístundum: “Farðu í háskóla og taktu próf í ljósmynda-blaðamennsku og komdu þér í starfsnám á fjölmiðli.” Sjálfur nam hann tölvunafræði og segir það hafa komið að nokkru gagni.

Rusty Kennedy byrjaði í starfsnámi, fylgist með og fékk að vinna. Hann segir, að þú fáir ekki allt í bókum eða með því að fylgjast með. “Ljósmyndun er svo verkleg, að þú verður að stunda hana sjálfur.” Og læra af eigin reynslu.

Longstreath: “Þegar þú ert orðinn ánægður með myndirnar þínar, er kominn tími til að skipta um starf. Þú verður stöðugt að vera að bæta þig og iðn þína.” “Það er ekki til neitt, sem heitir “nógu gott”.”

Longstreath: “Ef þú ert ljósmyndari, verður þú að venja þig á að hafa ævinlega myndavél við hendina, að minnsta kosti það nauðsynlegasta. Þú veist aldrei, hvar eða hvenær næsta saga gerist.”

Fjarstýringar:
Önnur leið til að sjá
Fjarstýringar snúast um að auka valið. Hver atburður hefur eitt rétt sjónarhorn. En þú getur ekki verið þar, af því að þú getur ekki verið alls staðar. Mannlausar myndavélar hafa rutt sér til rúms.

Skotið er af mannlausum myndavélum með því að nota útvarpsbylgjur, harðan vír eða með tölvum, sem tengjast vélunum með örbylgjum. Pocket Wizard er tæki, sem margir nota í þessu skyni, auðvelt í upposetningu og handhægt í meðförum.

Áður varð að skipta tíðnisviðum, svo að menn trufluðu ekki myndavélar á víxl. Nú nota með sérstakar tíðnir til að forðast slíkt. Í bókinni eru nokkur dæmi um slíkar myndir, sem teknar eru að ofan, úr körfu, frá markneti.

Alex Burrows: “Finndu rétta skólann og fáðu réttu þjálfunina. Fáðu góða menntun. Ekki bara hagnýta menntun, heldur þendu hana út með almennri þekkingu á heiminum og þjóðum hans. Farðu síðan á dagblað, sem ræktar vinnu þína.”

Stafrænar: Nauðsynlegt er að hafa grundvallarforsendur ljósmyndunar í huga. Þær hafa ekki breyst með stafrænum myndum. Þú segir söguna. Þú lýgur ekki. Stafrænar vélar komu til sögunnar hjá AP um miðjan síðasta áratug síðustu aldar.

Kenny Irby: “Hvað snertir gæði mynda í dagblöð og tímarit og veraldarvefinn, þá eru gæði stafrænna myndavéla í lagi. Myndirnar hafa upplausn, sem menn geta notað.”

Elise Amendola: “Vertu aldrei ánægður. Haltu áfram að leita, haltu áfram að skjóta. Teldu þér ekki trú um, að þú sért kominn með myndina. Vertu að vinna í málinu fram á leiðarenda. Til þess verður þú að vera vakandi og viðbúinn.

David Longstreath: “Okkar hlutverk er ekki að búa til myndir til að stækka upp á vegg. Við eigum að útvega myndir í blöð og tímarit og veraldarvefinn.”

Ný blanda af fjölmiðlum, þar sem dagblöð og tímarit, útvarp og sjónvarp sameinast á internetinu, kallar á nýja tegund blaðamanna. Stundum munu menn vinna í teymum, þar sem ljósmyndarinn er sérfræðingur í sínu fagi í hópnum.

Jafnframt verða þær aðstæður tíðari, að eftirspurn er eftir ljósmyndara, sem getur púslað saman kröfum hljóðs, hreyfingar og mynda. Það er erfitt að vinna margs konar fjölmiðlun samtímis, en þeir, sem það geta, verða eftirsóttir.

Sumir munu reyna að höndla alla fjölmiðlun á einni hendi, kunna á texta fyrir mismunandi fjölmiðla, á hljóð, mynd og hreyfingu. Þeim mun reynast erfitt að þjóna mörgum herrum í senn. Sumum mun takast það og þeir munu njóta velgengni.

Sá sem áður var bara ljósmyndari, þarf nú að velta fyrir sér, hvar hann eigi að staðsetja hljóðnemann. Hann hugsar ekki um myndatökuna á meðan. Þótt tæknin magnist og fari á færri hendur, eykst ekki hæfni manna til að takast á við verk.

Unga fólkið, sem hefur alist upp með tölvum, er opnara fyrir samspili miðlanna. Það mun taka forustu í að sameina mynd, hreyfingu og hljóð og kannski síðar texta að auki. Nú er hreyfingin mest í þá átt að sameina mynd, hreyfingu og hljóð.

Allt er þetta ögrun. Myndataka er ögrun út af fyrir sig. Hreyfing er önnur ögrun og hljóð er þriðja tegund ögrunar. Með sameiningu tækninnar verða mikil tækifæri í boði fyrir þá, sem vilja mæta þessari ögrun.

Netið er dagblað nútímans, í sífelldri þróun. Þetta nýja dagblað sættir sig ekki við eina eða tvær verulega góðar myndir á dag. Það þarf góða mynd á hálftíma fresti. Upp er risin starfsgrein fjöltæknis, sem kann allar greinar fjölmiðlunar.

Sjá nánar: 
Brian Horton, AP Guide to Photojournalism, 2. útgáfa 2001