0201
Blaðamennska
Fréttanef
Sjö undirstöðureglur frétta:
Hver gerði (sagði) hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hvað svo?
Hefðbundin blaðamennska gerir ráð fyrir, að fréttir svari öllum þessum spurningum.
Lalli Jóns braust inn í Búlluna við Mýrargötu upp úr miðnætti í nótt. Hann braut rúðu í eldhúsi og fór þar inn. Nágrannar urðu þessa varir og gerðu viðvart. Lalli náðist á staðnum og sagðist hafa verið svangur. Mál hans verður tekið fyrir eftir páska. (Allt í 45 orðum)
Allt byrjar með fréttamanninum. Ritstjórar, efnisstjórar, vaktstjórar geta verið góðir og staðið sig vel í tímahraki. En geta ekkert, nema fréttir komi í hús.
Dagur fréttamanns (10 reglur):
1. Hringja daglega í fasta heimildamenn til að afla hugmynda.
2. Vera á morgunfundi með þrjú mál og skrifblokk.
3. Vera með málin klár á fundinum: Fólk, fókus og fyrirsögn.
4. Hugsa í burðarfréttum. Mistök fara undir strik. Eða í eindálka.
5. Breyta fólki, fókusi og fyrirsögn eftir því sem efni vinnst.
6. Vera í samráði við fréttastjóra, efnisstjóra, vaktstjóra.
7. Panta sértækar myndir áður en farið er að skrifa texta.
8. Byrja á fókus og fyrirsögn, skrifa síðan textann.
9. Vera búinn að afgreiða sín mál fyrir kvöldmat.
10. Nota segulbandstæki í öllum viðkvæmum samtölum.
Blaðamaður þarf að vera heilsteyptur (hinir fari í almannatengsli), forvitinn (hafa áhuga á öðru fólki og högum þess), nákvæmur (1,3 verði ekki að 13, kennarafélag verði ekki nemendafélag), vinnusamur (manískur), óháður, áreiðanlegur, rækilegur.
Ágengni: Blaðamaður þarf að vera ákveðinn (jafningi viðmælandans), þolgóður (tekur ekki höfnun gilda, tekur ekki höfnun inn á sig), ágengur (samt ekki ruddalegur). Blaðamaður þarf að víkka svigrúm hins mögulega í starfinu.
Tíu reglur fréttanefs:
1. Blaðamaður þarf að vita, hvað sé frétt (maður bítur hund, óvenjulegt). Hið venjulega er sjaldnar frétt en hið óvenjulega. Í hverri frétt þarf að finna fókus, sem gefur fyrirsögn og fréttin er skrifuð út frá þeirri fyrirsögn.
2. Blaðamaður þarf að átta sig á samhengi staðreynda (brúðguminn mætti ekki í kirkjuna, hvers vegna?). Allt getur verið rétt í frétt, en sjálfan sannleikann vantar í hana, af því að lykilatriði í málinu kemur ekki fram.
3. Blaðamaður þarf að sjá undir yfirborðið (spunakarlar eru alls staðar á ferð). Yfirborðið gefur oft ranga mynd af því, sem er undir niðri. Blaðamaðurinn þarf að vita hvernig hlutir gerast, vera “street smart”.
4. Blaðamaður verður að efast, ekki taka hlutina góða og gilda. Geta fundið, hvort heimildarmaður gætir annarlegra hagsmuna. Þeir, sem leka í blaðamenn, hafa margir einhverja ástæðu, sem getur farið fram hjá blaðamanninum.
5. Blaðamaður þarf að geta losað um málbeinið á fólki (viðtalstækni, kemur síðar). Hann þarf að geta lesið skjöl og lesið milli línanna. Hann þarf að mynda hóp af traustum heimildamönnum.
6. Blaðamaður þarf að hafa líkamlegt þrek, blaðamennska er erfið. Hann þarf að vera skipulagður (margar fréttir í senn, símtöl kruss og þvers), geta hugsað um mörg mál í einu. Eins máls fólk á oft erfitt með að fóta sig í erlinum.
7. Blaðamaður þarf að sjá, að samlagning nokkurra staðreynda er ekki sannleikur (leita betur). Sannleikurinn getur verið margs konar, sjónarhornin mörg. Þau eru stundum eitt, en stundum eru þau líka fleiri en tvö. Sannleikar eru stundum margir.
8. Blaðamaður þarf að vera óhlutdrægur (ekki endilega hlutlaus) og sanngjarn gagnvart umræðuefninu. Þetta gildir einkum um fréttamenn. Dálkahöfundar og aðrir slíkir þurfa hins vegar að setja fram skoðanir sínar.
9. Blaðamaður býr við harðstjórn klukkunnar. Hann þarf að ákveða, hvort hann fer með það, sem hann hefur, eða reynir eitt símtal enn. Verið getur, að kjarni málsins sé enn í felum og síðasta símtalið leiði hann í ljós.
10. Blaðamaður hefur í huga, að traust og trúverðugleiki er mikilvægasta eign hans og fjölmiðilsins. Traust byggist á hvoru tveggja, að menn kunni að fara með löndum og kunni að rjúfa lögmálið um, að oft megi satt kyrrt liggja.
Hver gerði (sagði)
hvað,
hvar,
hvenær,
hvernig,
hvers vegna og
hvað svo?
Verkefni:
Skrifaðu 100 orða frétt dagsins, sem svarar þessum spurningum öllum:
Hver gerði (sagði) hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hvað svo?