0303 Vefblaðamennska

0303

Nýmiðlun:
Vefblaðamennska
Sjá nánar:
James C. Foust:
Online Journalism, 2005

Vefurinn er mesta uppfinningin í samskiptum frá prentvélinni. Aðspurðir telja vefmiðlun eins mikilvæga og dagblöð sem upplýsingamiðill og mikilvægari en sjónvarp, útvarp og tímarit. Hefðbundnir fjölmiðlar eru líka fyrirferðarmiklir í vefmiðlun.

Kostir vefmiðlunar:
Valfrelsi notenda er meira.
Ekki endilega línulaga efni.
Mikið geymslumagn, auðfundið.
Óendanlegt rými. Fullur texti.
Stundvísi. Skilafrestur er núna.
Margmiðlun. Alls konar innihald.
Gagnvirkni. Þáttaka notenda.

Flestir blaðamennskuvefir og þeir mest notuðu tengjast fjölmiðlum. Fáir eru bara á vefnum (salon. com, slate.com). Mikið af efninu er skófluvara. Viðbótaratriði eru kölluð Web extras. Ör útskipti á heimasíðu eru brýn. Dagblöð eru sterkust á vefnum, útvarp veikt.

Samþættir vefir eru samstarf ýmissa tegunda fjölmiðla. Þar er beðið um súper-blaðamenn, sem safna fréttum og ganga frá efni fyrir ýmsar tegundir fjölmiðla. Vefur, dagblöð, sjónvarp, útvarp, tímarit, farsímar, allt eru þetta mismunandi tegundir fjölmiðla.

Ungt fólk notar vef, ekki prent. Fólk, sem er flutt að heiman, fylgist með heimaslóðum á vefnum. Eftirsóttir eru útskrifaðir nemendur í blaðamennsku, sem kunna tækni vefsins og að setja þar innihald.

Vinnuferli eru ekki orðin eins þroskuð á vefnum og í öðrum fjölmiðlum. Siglingareglur hafa þó mótast. Enginn veit, hvernig blaðamennska verður á vefnum. Vefurinn býður margs konar fjölmiðlun, t.d. samþættingu miðla, fréttamiðlun og blogg.

Skófluvara: Innihaldi annarra miðla er skóflað á vefinn.
Margmiðlun, krækjum og web extras (t.d. myndskeiði) er bætt við. Tímaskipting lagar efnið að tímum dagsins. Vefurinn er notaður misjafnt á morgnana, fyrir hádegi og fyrir lokun.

Samþætting er tískuorð vefsins. Þá er fléttað saman fjölmiðlum og/eða tegundum fjölmiðlunar. Samþætting myndskeiða, mynda, hljóðs og texta er samþætting.
Til langs tíma má búast við færri blaðamönnum og minni tíma í mikilvægar og erfiðar fréttir.

Þegar menn skoða vef, þurfa þeir að meta:
Hver framleiðir vefinn.
Hvert er innihaldið.
Hvort það er rétt, satt.
Hversu oft það er endurnýjað.
Hvernig lítur það út.

Kannanir sýna, að orð eru mikilvægari en mynd og hljóð á vefnum. Orðin eru hjarta blaðamennsku á vefnum. Þau binda efnið saman. Dagblöð eru ekki dauð og bækur eru ekki hættar að skipta máli. En menn lesa ekki orð á vefnum, heldur skanna þau.

Megintextinn tengir saman efnið á vefnum, segir, hvað sé í mynd og hljóði. Hann getur staðið einn eða haft annað efni kringum sig.
Það er 25% seinlegra að lesa á skjá en af blaði. Enn grófari er sjónvarpsskjár. Á botninum eru farsímar, erfiðir í lestri.

Málsgreinar þurfa að vera einkar stuttar á vefnum: Frumlag + sögn + andlag. Millifyrirsagnir hjálpa, verða að vera upplýsandi, ekki sætar eða flottar. Feitt letur eða blátt er oft notað fyrir tengingar, krækjur og á því alls ekki að nota í öðru skyni.

Öfugi píramídinn er í fullu gildi á vefnum. Tímaröð er líka góð. “Narrative” er stundum notað með lifandi lýsingu fremst, sviðsetningu. “Thematic”, fer í einstaka þætti sögu í efnisröð.
Byssukúlur (bullets) eru góðar, betri en tölustafir.

Við vitum ekki, hver verður framtíðarstíllinn á vefnum. Á meðan er stuðst við prentstíl, að viðbættum aukahlutum, “web extras”. Það geta til dæmis verið tengingar, ráðleggingar, myndir, hljóðskeið eða myndskeið.

Lagskipting getur verið eftir smáatriðum eða eftir málefnum.
Smáatriði: Eitt skref stigið í einu og notanda falið að velja, hvort hann vill fara lengra. Til dæmis: Fyrirsögn > inngangur > meginsaga > seinni tíma viðbætur.

Notaðu ekki sniðuga fyrirsögn eða inngang, heldur málefnalega, efnislega. Endurtaktu fyrirsögn í inngangi, annars heldur notandinn sig hafa villst. Neðst er “fréttin í heild”. Notandinn smellir þar, ef hann kærir sig um.

Málefnaskipting þarf að enda hvern kafla á sölu hinna kaflanna. Þeir þurfa að vera þannig skrifaðir, að notandinn geti lesið kaflana í hvaða röð sem er (mósaík).
Þegar frétt gerist á löngum tíma, þarf að vefa nýjar upplýsingar á rétta staði inn í fyrri texta.

Hlutverk blaðamennsku á vefnum:
Vefurinn er fyrir marga orðinn frumuppspretta upplýsinga.
Gegnsæi hefur aukist á vefnum.
Wi-fi gerir fólki kleift að vera sífellt í sambandi á ferðum sínum.
Fólk notar vefinn eins og síma.

Veffréttir hafa yfirburði, þegar eitthvað gerist.
Vandamál er hins vegar, að fréttamat víkur fyrir tæknimati.
Margir leita að gömlum fréttum.
Fá vefsvæði nýta sér alla möguleika vefsins, þau nota fyrst og fremst skófluvöru.

Sýndarveruleiki er nánst ekkert notaður á fréttasvæðum.
Er fjárhagslega hagkvæmast að nota bara skófluvöru?
Viðskiptaslóðir, t.d. Amazon, eru lengra komnar en fréttaslóðir í að meðhöndla möguleika vefsins.

Árið 2013 voru flestir farnir að nota WordPress til að hanna heimasíður og aðrar meðfylgjandi síður. Aragrúi viðbóta er í boði við WordPress. Hvorki forritið né viðbæturnar kosta neitt. Hægt er byggja viðamikil netsvæði á þennan ódýra og einfalda hátt.