0310 Ögrun samþættingar

0310

Nýmiðlun
Ögrun samþættingar

Janet Kolodzy: Convergence Journalism, 2006
Breyttur heimur og nýmiðlun færa hefðbundnum fjölmiðlum ögrun. Þessi ögrun hefur bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar. Meginþáttur hennar er krafan um samþættingu.

Graf: Fyrirtæki – notendur – innihald – tækni

Fjórir þættir: Tækni, fyrirtæki, innihald og notendur. Fyrst snerist umræða samþættingar um tæknina, tölvur og stafrænt form. Gemsi, lófatölva, myndavél, vafri og staðsetningartæki eru orðin að einu tæki. Tólin hafa sameinast og opnað leiðir nýrrar framsetningar.

Samþætt kynning og fyrirtæki:
Rekstrareiningar og vörumerki kynnt á víxl. Vekur spurningar um sjálfstæði, fjölbreytni og stjórn. Veruleikaþættir kynntir í fréttum. Skemmtun og fréttir verða eitt. Þetta skaðar álit á fréttamati.
Fyrirtæki hafa víða sameinast.

Samþætt blaðamennska getur falið í sér sameinuð fréttateymi eða altmúligmenn eða margmiðlun. Ekkert eitt form samþættingar hefur risið umfram önnur. Hún er frekar spurning um hugsunarhátt. Samþætting er svar við sundrun notenda og samsteypu fyrirtækja.

Af hverju þurfum við samþættingu?
1. Af því að notendur hafa sundrast.
Eitt fjölmenni notenda hefur vikið fyrir mörgum ólíkum hópum notenda. Fjölmiðlun breytist í fámiðlun.

Nú er hægt að segja fréttir jafnóðum. Varð almennt í Flóastríðinu 1990. Fólk þarf ekki að bíða eftir kvöldfréttum. Það notar fréttir erlendra aðila, ef innlendir bregðast. Fólk notar ekki fréttir á sama tíma, á sama stað, með sama viðhorfi, í sama formi, sömu tækni.

Fólk vinnur lengi og er lengi á leið í vinnu. Fréttir eru orðnar samfelldar 24/7. Fólk leitar frétta allan sólarhringinn, en ver samtals skemmri tíma í fréttir. Einkum ungt fólk. Það notar fréttir um leið og það gerir annað. Það les um leið og það sér sjónvarp.

Breyttur lífsstíll stýrir, hvernig og hvenær fólk nálgast fréttir, hvers konar fréttir. Fólk hefur minni tíma til ráðstöfunar. Ungt fólk horfir ekki á fréttatíma og les ekki dagblöð. Veraldarvefurinn, símatækni og þráðlaust samband hafa komið til sögunnar.

Ungt fólk notar mest vefinn til að fá nýjar fréttir. Börn nota oft meira en einn miðil í senn. Samþætting er aðferð við að láta hefðbundna miðla laga sig að nýjum notendum og endurheimta samfélag. Samfélag málefna fremur en staðarins. Skákmenn, ekki Grímseyingar.

Samþætting fókuserar blaðamennsku á kjarna sinn: Að upplýsa fólk um umheiminn eins vel og hægt er. Nú er ekki lengur bara ein leið: Dagblað eða sjónvarp eða vefur. Besta leiðin er samþætt leið.

Samþætting blaðamennsku er nýtt hugarfar um fréttir. Hún notar alla miðla til fulls til að ná til notenda, sem eru sundurleitari en áður. Um leið starfar hún með samþættari fyrirtækjum en áður voru.

Af hverju þurfum við samþættingu?
2. Af því að fyrirtækin hafa sameinast.
Meirihluti bandarískra fjölmiðla er í eigu fimm samsteypna: Time Warner, Disney, Viacom, News, GE. Ísland: Baugur, Björgólfur.

Samþætting útvarpsstöðva hefur leitt til smækkunar og afnáms fréttastofa.
Samþætting fyrirtækja hefur leitt til færri starfa, færri radda, færri staðarfrétta, minna staðbundins efnis, minni almannaþjónustu.

Margir sjá vandamálin, en eru ekki fúsir að breytast þeirra vegna. Dagblaðamenn og sjónvarpsmenn þurfa að endurnýja hugarfar sitt. Hinir fyrri láti af fjarrænu og hroka, hinir síðari hætti að einblína á áhorfskannanir.

Dagblaðamenn mega ekki vera svo hrokafullir, að þeir gleymi fyrir hverja þeir eru að vinna, fólk. Sjónvarpsmenn mega ekki vera svo vinsældasjúkir, að þeir gleymi að færa fólki gagnlega blaðamennsku. Allir verða þeir að þjóna notendum sínum.

Netföng blaðamanna eru þó komin undir greinar dagblaða. Sums staðar erlendis taka blaðamenn þátt í bloggi um fréttir. Þeir gera það á vegum fjölmiðilsins. Þannig er fjölmiðlun ekki lengur fyrirlestur, heldur verður hún að samtali, samskiptum. Er notendadrifin.

Samþætting deyr, ef hún er bara samþætting fyrirtækja. Blaðamennska þrífst á að nálgast fólk á eins fjölbreyttan hátt og hægt er.
Allir málsaðilar verða að líta á sig sem jafningja, sem deila með sér hugmyndum og upplýsingum.

Samþætting mun alltaf kosta meira en þú heldur, taka lengri tíma en þú heldur og vera erfiðari en þú heldur. Samþætting mun hins vegar hjálpa þér að skilja, hvað vantar í fréttir þínar. Samþætting dregur úr styrjöld milli blaðamanna prents og ljósvaka.

Samþætting er herfræði, sem er í þróun á mörgum fréttastofum. Hún er samt illa skilgreind, misskilin og rangtúlkuð. Hún felur í sér nýja sýn á fréttir. Hún telur, að ekki sé bara til ein leið, heldur fjölþætt leið, sem skilur kosti og galla margs konar miðlunar.

Sjá nánar:
Janet Kolodzy: Convergence Journalism, 2006
Stephen Quinn & Vincent F. Filak: Convergent Journalism, 2005