0313
Nýmiðlun
Samanburður miðla:
Prent, ljósvaki, vefur
Í þessum fyrirlestri er lýst sérkennum í mismundandi tegundum fjölmiðla, það er prenti, ljósvaka og vef. Ennfremur varfærinni og misjafnri aðkomu miðlanna að vefnum. Lýst er kostum samþættingar og sagt frá samþættum fjölmiðli í Bandaríkjunum.
Styrkur dagblaða er samhengi.
Styrkur ljósvaka er núið og tilfinningar.
Styrkur vefsins er gagnvirkni og einstaklingshyggja.
Saman sýna miðlarnir margvíslegar hliðar heimsins.
Dagblöð: Á flestum stöðum hefur dagblað staðarins stærstu fréttastofuna. Dagblað hefur mest pláss fyrir fréttir. Það gefur kost á djúpri og víðri blaðamennsku með samhengi. Tvær síður í dagblaði eru eins og heill fréttatími í sjónvarpi.
Reynt er að gera dagblöð auðlæsilegri og hraðlæsilegri. Þau eru ekki lesin í einu lagi, heldur í brotum. Því er á forsíðunni reynt að hafa leiðsögn um lestur. Lesendur vilja í bland langar greinar, sem gefa aukna dýpt, en finnst þær einnig vera erfiðar.
Gagnvirkni er í dagblöðum. Fólk getur staldrað við og hugsað. Það getur flett yfir opnur og það getur flett til baka. Þannig stýra notendur því, sem þeir lesa. Einnig finna þeir óvart efni, sem þeir fyrirfram vissu ekki um, að mundi vera áhugavert. Er ekki í ljósvakanum.
Með stafrænni vistun eru þessir kostir dagblaða ekki eins knýjandi og áður. Hún getur líka dregið úr öðrum knýjandi kosti, að dagblað er auðberanlegt milli staða. Dagblöð hafa varanleika, þau er hægt að klippa og geyma. Fólk flettir þeim til að finna sagnfræði.
Dagblöð hafa líka galla. Þau eru ekki í beinni útsendingu. Þau geta ekki flutt notandann til viðburðarins. Þau verða að treysta á lýsingu til að skapa tilfinningu fyrir atburðinum. Þau geta ekki birt öskur áhorfenda á kappleik.
Ljósvakinn: Styrkur hans felst í notkun sjónar og heyrnar til að flytja notandann á vettvang. Og að gefa honum nálægð við fréttina í núi og tilfinningum. Ljósvakafréttir eru oft og hart gagnrýndar fyrir ofuráherslu á slík atriði á kostnað samhengis og upplýsinga.
Bein útsending mælist í áhorfi og getur rutt hefðbundnum gildum blaðamennsku til hliðar. Hraði afsakar yfirborðsfrétt. Sú er oft reynslan, spádómar koma í stað staðreynda, endurtekningar í stað dýptar. Treyst er á eina heimild eða jafnvel á nafnlausa heimild.
Þegar hraðinn gildir, til dæmis vegna yfirvofandi hættu, er ljósvakinn betri en aðrir miðlar. Ljósvakinn flytur fréttir hraðar. Nú getur veraldarvefurinn það betur. Í vinnunni hafa menn ekki sjónvarp, en geta kíkt á fréttir í tölvunni eða snjallsímanum.
Myndirnar af hruni turnanna á Manhattan þurftu litlar skýringar. Þær fóru um allan heim. Hins vegar eru fréttir, sem ekki eru mjög sjónrænar eða ekki mjög einfaldar, oft látnar eiga sig í ljósvakanum. Miklu máli skiptir að segja frá beint og einfalt.
Notendur ljósvaka geta ekki ráfað fram og aftur í fréttunum. Ljósvakinn er línulaga, menn þurfa að fylgja honum frá einum punkti til annars. Menn þurfa að hafa sérstaklega fyrir því að nota eldra sjónvarpsefni á vefnum. Almennt er áhorf frétta passíft.
Vefurinn: Fréttir á vefnum krefjast þess, að notendur geri eitthvað. Þeir leita og vafra, smella og skanna. Styrkur vefsins felst í gagnvirkni, leitinni, endurnýjun efnis og margmiðlun. Veikleiki vefsins felst í, hversu nýr hann er og vanþroskaður.
Því miður eru netpóstur og spjallrásir aðallega með ofsafengnum skoðunum og persónulegum árásum. Miðlar hafa átt erfitt með að ritstýra þessu óstýriláta efni. Sumir miðlar hafa dregið úr framboði á þessum hliðum vefsins.
Fréttastofur hafa einnig átt í erfiðleikum með blogg, sem starfsmenn þeirra skrifa. Það hefur leitt til deilna um, hver sé ábyrgur fyrir blogginu og ábyrgur fyrir vanstilltum viðbrögðum fólks í bloggi með fréttum.
Reikna má með, að hlutverkin muni breytast. Hefðbundnir miðlar munu ekki lengi vera eina viðurkennda fréttaveitan. Bloggarar taka upp þráð, sem hefðbundndir aðilar vanrækja. Heil fréttaveita, WikiNews er framleidd af fréttaáhugafólki.
Mikill kostur við vefinn eru krækjurnar, sem gera fólki kleift að kafa ofan í mál, fara inn á aðrar vefslóðir. Velgengni safnara á borð við Google News byggist á, að þar getur fólk náð fjölbreyttum upplýsingum og bakgrunni. Birtingu á krækju fylgir ekki ábyrgð á efni.
Margir ráðamenn hefðbundinna miðla óttast, að efni þeirra á vefnum leiði til viðskiptatjóns. Notendur vefsins hætti að taka upp blaðið eða kveikja á rásinni. Þess vegna hefur þróun frétta á vefnum víða verið varfærnisleg.
Flest dagblöð endurnýja vefslóðir sínar hægt, sum bara einu sinni á dag, þegar blaðið er komið út. Talsmenn samþættingar segja, að áhyggjur af skúbbi séu arfur frá fyrri tíma. Notendur fjölmiðla séu ekki lengur uppteknir af skúbbum. Þau skipti þá litlu máli.
Vefurinn gerir fréttastofnunum kleift að þróa nýjungar á borð við margmiðlun. Þá er notaður texti, ljósmyndir, vídeó, grafík og hljóð til að búa til áður óþekkta tegund fjölmiðlunar. Þetta kostar að vísu tíma, fé og fólk, sem allt er af skornum skammti á vefnum.