0321 Samþættur ljósvaki I

0321

Nýmiðlun
Samþættur ljósvaki I

Skrifaðu einfalt, hugsaðu sjónrænt. Ljósvakafréttir eru flóknari en þær virðast. Málsgreinar eru fáar. Þær eru í fókus og eru nákvæmar. Ljósvakasögur færa sögusviðið til notenda með hljóði og sjón. Orð eru notuð til skýringar. Þau eru límið, sem heldur sögunni saman.

Ljósvakinn er tæknilegur. Hljóðnemi og vídeóvél eru meira áberandi og óþægileg og truflandi en blað og blýantur. Ljósvakatækni getur haft áhrif á framvindu fréttar. Ljósvakasögur eru flóknari en textasögur í fréttaöflun og fréttavinnslu.

Ljósvakasögur þurfa að vera einfaldar. Þess vegna geta þær ekki dulið skort á skipulagi. Hann er öllum ljós, sem sjá eða heyra.
Þótt textinn sé einfaldur, er sagan flókin og margþætt. Kennsla í ljósvakafræðum gerir textagerð beinskeyttari og gagnorðari.

Texti í sjónvarpi er texti í megrun. Strika ber út lýsingarorð og atviksorð, merkingarlítil sagnorð, flóknar málsgreinar. Megrun táknar, að þú hreinsar út allar slæmar venjur, sem þú hefur tamið þér. Þú leggur niður tungumál háskólaritgerða.

Ljósvakasögur eru lesnar upp. Orðin hljóma öðru vísi þegar þau eru sögð en þegar þau eru skrifuð. Ef þú getur ekki fylgst með sögu, þegar þú heyrir hana, er hún vanskipulögð og út úr fókus. Í ljósvakasögum þarf að muna, að breytt áhersla breytir merkingu.

Ef prentfréttir eru prósi, þá eru ljósvakafréttir ljóð. Ljósvakafréttir fara oft yfir mörkin í ýkjum og viðvörunum. Tilgangur ljósvakatexta er að segja sögu, ekki að vekja athygli á textanum. Í ljósvakanum hefurðu einn séns til að koma meiningu texta á framfæri.

Hafðu það einfalt:
Sagan þarf að fela í sér öll lykilatriði, en ekki svo mörg atriði, að notandinn glatist.
Nota þarf þekkt orðalag, en samt ekki klisjur. Ljósvakafréttir þarfnast einfaldra setninga og einfalds skipulags á sögunni.

Að byrja sterkt:
Í ljósvaka er inngangurinn ein málsgrein. Hún svarar sumum hv-anna. Hún er einföld. Hún notar sértæk sagnorð í germynd og nútíð. Koma verður í veg fyrir, að notandinn hugsi: “Hvað með það.”

Hvað með það?
Þegar höfundar frétta hafa ekki fundið fókusinn, byrja þeir á að tala um það augljósa, fremur en það mikilvæga. Veik orð og flóknar setningar fæla notendur. Þeir fara ekki bara, heldur koma ekki aftur.

S.V.O = frumlag + sögn + andlag:
Þetta er algengasta form setningar og það, sem auðveldast er að skilja. Notandinn þarf ekki að velta hliðarsporum fyrir sér. Ekki má troða öllum upplýsingum í eina málsgrein, það rýrir slagkraft frásagnarinnar.

Germynd og þolmynd:
Germynd táknar að persóna setningarinnar er að gera eitthvað í stað þess að hún sé að þola það, sem henni er gert. Germynd er sú mynd í setningarfræði, sem er alls ráðandi í fréttaskrifum fyrir alla fjölmiðla.

Nútíð og þátíð:
Í ljósvakanum forðast menn þátíð, sem er notuð á prenti. Menn nota ekki “í gær” eða “í nótt”. Menn nota ekki heldur “í dag”, því að það er sjálfgefið. Best er að nota saman germynd og nútíð sagnorða í ljósvakanum.

Tilvitnanir og hljóðbitar:
Nafn þess, sem talar, kemur í ljósvaka á undan tilvitnuninni í hann. Tilvitnanir eru stundum fremst í prentfrétt, en það gengur ekki í sjónvarpi. Gæsalappir virka ekki í sjónvarpi, betra er að nota óbeina ræðu.

Eins varasamt er að byrja frétt í ljósvaka á spurningu. Notendur vænta svara, ekki spurninga. Spurningar eru hins vegar notaðar í kynningarfrétt um væntanlega frétt.

Harður og mjúkur inngangur:
Í ljósvaka þarf harðan inngang með því, sem mestu máli skiptir. Stundum er þó mýkra farið í tilfinningalega frétt.

Ljósvakastíll:
Forðastu staðbundið mál. Forðastu styttingar og upphafsstafi. Fylgdu stílbók AP. Settu titil á undan mannsnafni og hafðu hann styttan. Slepptu stökum stöfum í millinöfnum fólks. Lestu ekki upp nafnalista eða talnarunur.

Notaðu einfaldaðar tölur. Notaðu rétta stafsetningu. Hugsaðu um framburð. Mismæli draga úr nákvæmni og trausti. Notaðu lista um réttan framburð erlendra mannanafna og staðarheita.

Algeng mistök:
*Gleymir að lesa frétt upphátt.
*Notar of margar aukasetningar.
*Þræðir ekki söguna saman.
*Byrjar sögu án þess að kunna hana.
*Vísar ei í nafngreinda heimild.
*Gleymir að endurrita frétt.

Tímasetningar:
Fréttir i ljósvaka eru “lesarar”, styttri en 30 sek. og “pakkar”, sem eru 90 sek. Fréttir taka gjarna hálftíma, það er 22 mín. fyrir utan auglýsingar. Málsgrein er of löng, ef hún fer yfir átta sekúndur. Ekki vera lengi að koma þér að efninu.

Stundum er nokkrum einnar málsgreinar fréttum pakkað saman í 30 sek. pakka. Hver málsgrein er þá eins og fyrirsögn í blaði. Yfirlit helstu frétta dagsins getur farið niður í 9 sek. og þá má ekki eyða orðum til einskis.

Sjá nánar:
Janet Kolodzy: Convergence Journalism, 2006
Stephen Quinn & Vincent F. Filak: Convergent Journalism, 2005