0330 Idol og Matrix

0330

Nýmiðlun
Idol og Matrix

Henry Jenkins
Convergence Culture
2006

Hér er fjallað um þrjú hugtök:
* Samþætting miðla.
* Þáttaka í menningu
* Sameiginleg greind
Bókin fjallar um aðild fólks að samþættri miðlun. Fólk tekur þátt. Það vinnur saman og keppir við miðstýrt fjölmiðlavald.

Með iPhone var stigið skref í átt frá hefðbundnum farsíma yfir í nothæft almiðlunartæki. Enn er þó skjárinn svo lítill, að hann bliknar í samanburði við flatskjái í dreifingu á myndskeiðum. Langt er enn í land hjá farsímum að taka við af fartölvum á internetinu.

Í bókinni eru kaflar um:
* Survivor
* American Idol
* The Matrix
* Star Wars
* Harry Potter
* The Apprentice

American Idol (2002) varð með Survivor (2000) til þess, að raunveruleikaþættir slógu í gegn. Þeir byggðu ekki eingöngu á samtímis aðild aðdáenda, símakosningum í AI, heldur einnig á aðild þeirra síðar meir. AI varð stærsta peningavél sjónvarpssögunnar.

American Idol setti duldar auglýsingar inn í þáttinn og notaði öll aumustu trikk sögunnar. Aðdáendur hans voru í senn fórnardýr gróðahyggju og um leið aðilar að samfélagi kjósenda. Mjög margir höfðu þó gildar grunsemdir um, hvort atkvæði þeirra væru talin.

Margar áhyggjur notenda hafa reynst á rökum reistar. Notkun símans hefur fyrst og fremst verið tekjuöflunartæki. Minna hefur verið hugsað um, hvort símtöl hafi lent í pottinum eða utan hans. Einnig hefur komið í ljós, að raunveruleikinn er brenglaður.

Með því að taka upp þætti er fólk farið (43%) að hafna beinum auglýsingum í sjónvarpi. Úr þessu verður feluleikur milli stöðvanna og fólksins. Kostun og faldar auglýsingar taka við af beinum auglýsingum. Til dæmis American Idol og Coca Cola.

Ímyndarauglýsingar vörumerkja höfða til aðdáenda, sem mæla með vörunni og nota hana, en vilja líka geta lagt til breytingar og endurbætur. Sbr. “New Coke”.
Cokemusic.com náði sex milljónum notenda, sem voru að meðaltali 40 mínútur í heimsókn.

Sumir eru tryggir, aðrir fjarstýra milli rása, enn aðrir eru þar á milli. Þeir tryggu horfa minna á sjónvarp en hinir. Menn hafa ofmetið smellarana. Hinir tryggu vilja endursjá kafla úr gömlum þáttum og fá stundum heila þætti, sem eru bara safn af brotum.

Framleiðendur eru að hverfa frá sjálfbærum þáttum í þáttaröðum og búa heldur til þætti, sem sumpart höfða til fyrri þátta eða til síðari þátta. Þetta verðlaunar athygli tryggra áhorfenda. Menn verða að sjá alla röðina til að skilja hvern þátt fyrir sig.

Fólk tekur upp þætti til að missa ekki úr. Innan fjölskyldna láta tryggir stuðningsmenn hina vita, að þáttur sé að byrja. Fólk talar um innihaldið við kaffivélina. Því reynist auðveldara að tala um ímyndaðan veruleika en sinn eigin raunverulega veruleika.

Umræða um veruleikaþætti er fyrirferðarmikil á vefnum. Þar hefur komið í ljós, að fólk sættir sig við duldar auglýsingar, það keppist um að leita að þeim. Þetta getur gefið auglýsendum bakslag, þegar fólk snýst gegn þáttunum vegna efa um atkvæðagreiðslu.

Áhrif aðdáenda sjást, en þau eiga samt langt í land til að leiða til sameiginlegra aðgerða og til gagnrýni grasrótarinnar á gerðir stórfyrirtækja. Notendur láta spila með sig og gagnaðgerðir þeirra eru tiltölulega lítilvægar.

Ekkert samþættra fyrirbæra hefur gert eins miklar kröfur til aðdáenda og Matrix. Fólk þarf að vinna heimavinnu til að skilja. Í kvikmyndinni eru sönnunargögn, sem ekki skiljast, nema fólk hafi notað tölvuleikinn, horft á fræðilega geisladiska, verið á vefnum.

Matrix er skemmtun, sem er sérstaklega hönnuð fyrir samþætta margmiðlun. Þráðurinn er fullur af hliðarsporum, sem nánar er fjallað um í öðrum tegundum miðla. Það jaðraði við, að Matrix væri óskiljanlegt “költ”. Heildin er stærri en summa eininganna.

Í framhaldi af Matrix verður búin til samþætt skemmtun, þar sem aðilar frá mörgum tegundum miðla starfa saman frá upphafi við að búa hana til. Menn ganga út frá grunnþemum og spinna þau svo í ýmsar áttir.

Þannig verður til samþætt röð kvikmynda, sjónvarpsþátta, bóka, útvarps, vefleikja, teiknimynda, þar sem viss grundvallaratriði eru föst, en framleiðendur í hverri tegund miðlunar geta spunnið út frá því. Wachowski-bræður bjuggu til Matrix-heim.

Hefðbundin frásagnarlist kvikmynda er lögð til hliðar og til verður ný sögugerð, sem víkkar frásagnarlistina. Þetta er fyrir fólk, sem er alið upp á tölvuleikjum og vill netreynslu í skemmtun fremur en línulaga reynslu. Matrix er Oddyseifur nútimans.

Pokémon er svipað, heimur, sem fólk lærir smám saman, stundum með samvinnu. Þannig lærir fólk að leysa verkefni með samstarfi í stað þess að vera einstæðingar. Þetta eru eins konar þekkingarbandalög. Athugið The West Wing (1999) og Sopranos (1999).

Sjá nánar: Henry Jenkins: Convergence Culture, 2006