0406 Framtak

0406

Fréttamennska
Framtak

Þessi kafli er með dæmisögum af starfi blaðamanna. Þær sýna ýmsar aðferðir, sem hafa leitt til árangurs. Mikið safn slíkra dæma er til í Bandaríkjunum, þar sem menn hafa lengi lagt sig eftir söfnun upplýsinga um þetta efni.

Blaðamaður í Chicago var hindraður í að fara inn á vettvang glæps. Hann hljóp inn í næstu búð, keypti sér tösku, svo að hann liti út eins og sérfræðingur, og gekk framhjá vörðunum án þess að vera stöðvaður.

Er yfirvöld í Kína neituðu, að nokkur hefði dáið í óeirðum á Torgi hins himneska friðar, reyndi Jan Wong að afla frétta á sjúkrahúsum. Verðir voru við framdyrnar, en hann fór bakdyramegin, sá og birti fréttir af rotnandi líkum andófsmanna.

Boðaður var blaðamannafundur til að kynna nýjan þjálfara Rice University. UPI hringdi heim til allra þjálfara, sem komu til greina. Á síðasta staðnum voru hjónin ekki heima. “Fór hún með honum á fundinn?”. “Já, auðvitað” var svar barnapíunnar.

Á USA Today voru sett upp boðorð fyrir blaðamenn. Þau voru aðeins þrjú:
1) Vertu fyrstur með fréttina.
2) Rannsakaðu málin.
3) Komdu auga á ferli, sem er í gangi.

Ian Stewart og Myles Tierney fóru til Freetown til að kanna orðróm um stríðsglæpi hryðjuverkamanna. Aðeins Stewart kom til baka. Hann var með kúlu í höfði og aðra hendina lamaða. “Ekki fara? Það var ekki þess vegna að ég fór í blaðamennsku.”

Todd Carrel fór fyrir ABC að taka viðtal við einmana andspyrnumann í Kína, sem var með áróðursborða. Óeinkennisklæddir lögreglumenn réðust á þá og börðu Carrel svo illa, að hann er fatlaður síðan. Andspyrnumaðurinn var settur á geðsjúkrahús.

James Fallows hjá Atlantic Monthly segir: “Mesta afrek blaðamennsku er að fá fólk til að kæra sig um og skilja atburði og málefni, sem það hafði ekki áður áhuga á.” Blaðamenn snúa sér að hinum varnarlausu og fátæku; þeim, sem enga rödd hafa.

George Esper hjá AP var ekki fyrir að gefast upp. “Ég þrýsti ekki á hana. Aftur á móti sneri ég ekki við og fór. Ég bara stóð þarna, blautur af snjó, bleytan lak af mér og ég held hún hafi aumkast yfir mig.” Svipað og hjá Bernstein í Watergate.

Ted Anthony hjá AP: “Þegar ég fer til miðvesturríkjanna tek ég eyrnalokkinn af mér. Ég vil að fötin séu ópersónuleg, svo að ég geti talað við alla, óháð stöðu þeirra eða viðhorfum.” Íslenskur blaðamaður með barmmerki trotskista.

Þú átt ekki að nota sjálfsaga í að velja, hversu miklu efni eigi að safna. En þú skalt nota sjálfsaga í að velja, hversu mikið á að skrifa. Þú hefur aldrei nógu mikið af smáatriðum til að vinna úr og þú veist ekki, hvaða smáatriði þú notar að lokum.

Jules Loh hjá AP lýsir því sem hann sér. Því fleiri svör, sem hann fær, því meira spyr hann. Hann segir, að öflun upplýsinga sé grundvöllur góðs fréttastíls. Ef hann veit mikið um málið, þarf hann ekki að skýla sér bak við sérfræðinga.

Bill Baskervill hjá AP skrifaði grein um geðsjúka konu, sem dó eftir að hafa verið í spennitreyju dögum saman á geðsjúkrahúsi. Hann sagði:

Þegar ég tók eftir að ráðamenn höfðu samsæri um þögnina, fékk ég blóðbragð í munninn. Ég fór að vinna hálfu meira. Hann sagði þeim: “Ég ætla að skrifa þessa sögu, annað hvort byggða á gögnunum, eða um neitun ykkar að afhenda mér þau.”

Jerry Schwartz hjá AP skrifaði grein um uppgjafahermann úr Víetnamstríðinu. Hann fann allt fólkið með því að leita á Google. Hann fann uppgjafahermenn, ekkjur, afkomendur, sagnfræðinga. Öll greinin er unnin upp úr heimildum, sem liggja á vefnum.

Þegar CBS fréttaþátturinn 60 Minutes birti frétt um, að meint árás á bandarískt herskip á Tonkin-flóa við Víetnam hafi verið fölsuð til að afsaka árás bandaríska hersins, hringdi Johnson forseti og sagði: “Þið skituð á bandaríska fánann.”

Blaðamenn lifa í heimi ringulreiðar og flækja. Samt geta þeir með framtaki, orku og greind nálgast sannleikann í málum og búið skilningi sínum form tungumáls, sem skilið er af öllum. Þeir halda ró sinni, en þeir kæra sig um málefnin.

Stærðfræði er það, sem þarf. Jack Marsh, Argus Leader: “Færið mér blaðamann, sem kann prósentur.” Skoðanakönnun Columbia sýnir eina mikilvæga samræmið milli einkunna og árangurs í blaðamennsku vera í stærðfræði. Stærðfræði er “sine qua non”.

Blaðamenn gera mistök. Þeir verða að læra af mistökum sínum og ekki gefast upp. Mistök geta verið niðurlægjandi, en hjá því verður ekki komist. Jafnvel New York Times birtir á blaðsíðu 2 á hverjum degi ramma með 2-5 leiðréttingum dagsins.

Slík vinnubrögð við leiðréttingar hafa ekki verið tekin upp hér á landi, þótt ótrúlegt sé, að hér séu færri villur en í NYT. Kannanir vestra sýna þó, að leiðréttingar auka traust manna á fjölmiðlinum. Það gera líka umbar og símenntun.

Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10. útgáfa 2006