Fréttamennska
Nákvæmni
Fréttir þurfa að vera:
1. NÁKVÆMAR. Allar upplýsingar eru sannreyndar áður en þær eru notaðar. Bein skoðun er besta leiðin til að fá réttar upplýsingar.
2. TILVITNAÐAR. Blaðamaðurinn segir, hverjar séu heimildir fyrir upplýsingum.
3. FULLNÆGJANDI. Fréttin segir frá einstökum atriðum, sem sýna, sanna og skrá meginatriðin.
4. JAFNVÆGAR, SANNGJARNAR. Sagt er frá öllum hliðum.
5. HLUTLÆGAR. Blaðamaðurinn treður ekki inn tilfinningum sínum eða skoðunum.
6. STUTTAR og FÓKUSAÐAR. Fréttin kemst strax að kjarna málsins og heldur sig við hann.
7. VEL SKRIFAÐAR. Fréttir eru skýrar, beinar, áhugaverðar.
Blaðamaðurinn reynir að skrá sannleikann nákvæmlega með því
1) að hafa séð hann eða
2) með því að nota áreiðanlegar heimildir, mannlegar eða skriflegar. Hann reynir að skrifa áhugaverða, tímabæra og skýra sögu með fjölbreyttum texta.
Góðir blaðamenn þola ekki villur. Gourmet tímaritið birti uppskrift með örlitlu af vetrarliljuolíu. Þar átti að standa vetrarliljukraftur. Olían er eitruð. Leiðrétting var prentuð á límmiða og fest í 750.000 eintök af tímaritinu.
Skoðanakönnun meðal 550 bandarískra blaðamanna sýndi, að þeir telja helstu gildi sín vera:
1) að fara rétt með staðreyndir.
2) að fá báðar hliðar málsins.
Þrátt fyrir tímahrak er nauðsynlegt að fá atriði staðfest. Joseph Pulitzer, slagorð hans: “Nákvæmni, nákvæmni, nákvæmni.” Fréttamaður er gjaldgengur, þótt ekki neisti af texta hans. En hann endist ekki lengi, ef hann er ekki nákvæmur.
Mistök verða, þegar blaðamaður lætur undir höfuð leggjast að sannreyna heimild eða fullyrðingu hennar. Hljómsveitarstjóri lætur þig hafa nöfn sveitarmanna og eitt er vitlaust skrifað. Þér verður kennt um það, ekki hljómsveitarstjóranum.
Leiðrétting er einföld: “Í síðasta tölublaði Michigan Chronicle í frásögninni um morgunverð hjá Fontroy-fjölskyldunni var rangt farið með gælunafn ömmunnar. Fjölskyldan kallar hana “Big Ma”, en ekki “Big Mouth” eins og stóð í blaðinu.”
Blaðamaður notar nákvæma orðið yfir það, sem hann lýsir, ekki almennt orð. Ekki segja: “Hún er hávaxin”, heldur “Hún er 180 sentimetrar”. Ekki segja “Skipið skemmdi bryggjuna”, heldur “Ferjan olli 3ja milljón króna tjóni á bryggjunni.”
Hraðinn er óvinur nákvæmninnar. Sannreynsla upplýsinga tekur tíma. Það er ekki auðvelt, þegar það kostar tvær mínútur aukalega, en ein mínúta er í útsendingu. Krafan um nákvæmni þýðir þá, að fréttin nær ekki þessum fréttatíma.
Bertrand Russell: “Skoðaðu málið sjálfur. Aristóteles hefði getað forðast þau mistök að halda fram, að konur hafi færri tennur en karlar, ef hann hefði haft fyrir því að biðja frúna um að hafa munninn opinn, meðan hann teldi tennurnar.”
Oft verður blaðamaðurinn að reiða sig á heimildir, svo sem skjöl og skýrslur, eða einstaklinga á borð við vitni, málsaðila eða valdamenn. Blaðamaðurinn sér sjaldan sjálfur innbrotsþjófinn að verki eða bílinn klessast á staurinn.
Þegar við horfum á blaðamenn vinna, sjáum við, að þeir bregðast fljótt við atburðum, sem munu vekja áhuga fólks og hafa áhrif á líf þess. Þeir eru ötulir í leit að upplýsingum, sem máli skipta. Þeir dýrka nákvæmni og eru sanngjarnir.
Við lærum um alls konar atburði og aðstæður, af því að blaðamenn hafa frétt af þeim. Þeir hafa beitt dómgreind sinni, reynslu og verklagsreglum til að lyfta því upp, sem þeir telja fréttnæmt, muni fræða fólk, hafa áhrif á það og skemmta því.
Stærðfræði er það, sem þarf. Jack Marsh, Argus Leader: “Færið mér blaðamann, sem kann prósentur.” Skoðanakönnun Columbia sýnir eina mikilvæga samræmið milli einkunna og árangurs í blaðamennsku vera í stærðfræði. Stærðfræði er “sine qua non”.
Mikilvægi bloggsins: Þegar 60 Minutes sýndi haustið 2004 gögn um, að Bush forseti hefði komið sér undan herþjónustu, voru bloggarar á fáum mínútum búnir að sjá, að skjölin voru fölsuð, gátu ekki verið úr ritvél frá árinu 1970. En varið ykkur á blogginu.
Við lærum um alls konar atburði og aðstæður, af því að blaðamenn hafa frétt af þeim. Þeir hafa beitt dómgreind sinni, reynslu og verklagsreglum til að lyfta því upp, sem þeir telja fréttnæmt, muni fræða fólk, hafa áhrif á það og skemmta því.
Fréttamennska er:
Nákvæmni
Nákvæmni
Nákvæmni
Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10. útgáfa 2006