0410 Sanngirni

0410

Fréttamennska
Sanngirni

Mikið er um gagnrýni á fjölmiðla. Hægri menn segja vinstri slagsíðu á fjölmiðlum. Vinstri menn segja hægri slagsíðu vera á þeim. Í þessu andrúmslofti er mikilvægt, að blaðamenn gefi slíkum aðilum ekki færi á að gelda blaðamennsku.

Stílbók Washington Post segir:
1. Engin saga er sanngjörn, ef mikilvægar staðreyndir vantar. Sanngirni felur í sér allar hliðar málsins.

2. Engin saga er sanngjörn, ef hún hefur langsóttar upplýsingar á kostnað mikilvægra. Sanngirni felur í sér mikilvægi.
3. Engin saga er sanngjörn, ef hún af ásettu ráði eða óvart dregur lesandann á tálar. Sanngirni felur í sér heiðarleika.

4. Engin saga er sanngjörn, ef blaðamenn fela hlutdrægni sína og tilfinningar bak við orð eins og “þrátt fyrir” og “játaði”. Sanngirni felur í sér beina frásögn.
5. Engin saga er sanngjörn, ef saklaust fólk verður fyrir hnjaski.

Stjórnmálamaður segir miklvægan hlut í dag, en andstæðingur hans endurtekur gamla lummu. Fjölmiðill þarf ekki að hafa slíkar fréttir í jafnvægi. Jafnvægi er siðferðilegt hugtak, sem ekki mælist með reglustriku eða skeiðklukku.

Sanngirni kemur hins vegar að málinu. Ef fyrri stjórnmálamaðurinn fullyrðir eitthvað, sem síðari stjórnmálamaðurinn svarar, þarf að segja frá báðum aðilum. AP segir: “Við reynum í hvívetna að fá viðbrögð við fullyrðingum, einkum árásum.”

Ef blaðamaður segir í einni frétt, “hinn framgjarni stjórnmálamaður Harrison Gold” og í annarri frétt “hinn kraftmikli stjórnmálamaður Gerald Silver” er hann hlutdrægur, lýsir sama eiginleika ýmist með neikvæðu og jákvæðu lýsingarorði.

Ef blaðamaðurinn telur, að Gold sé framgjarnari en eðlilegt getur talist, ber honum að útskýra það með staðreyndum. Ef hann telur, að Silver sé kraftmeiri en aðrir stjórnmálamenn, verður hann að útskýra það með óvefengjanlegum staðreyndum.

Sögur í fjölmiðlum eru hlutlægar, ef hægt er að sannreyna þær við einhver gögn, til dæmis ræðutexta eða skýrslur. Hlutlæg fréttamennska felur í sér, að sagt er frá því, sem er sjáanlegt og sannreynanlegt.

Hlutlægni á sér takmörk. Það var ekki nóg fyrir fjölmiðla að endurtaka árásir og fullyrðingar McCarthy, sem síðar reyndust margar hverjar vera rangar. En þegar þær voru settar fram, vissu blaðamenn ekki betur en þær væru réttar.

Útvarpsmaðurinn Elmer Davis segir í bókinni But We Were Born Free svo frá: Blað bregst trausti almennings, ef það “segir aðeins það, sem einhver sagði vera sannleikann, þótt það viti það vera lygi.” Blaðamenn þurfa að laga slíkar sögur.

Davis: Blaðamaðurinn þarf að feta loftfimleikalínu milli “þeirrar hlutlægni, sem fer eftir yfirborðinu og veitir fyrirferðarmesta svindlaranum aðgang að fólki, og þeirra útskýringa, sem fara yfir línuna frá hlutlægni yfir í óhlutlægni.”

Edward Murrow, sem kom upp um McCarthy, sýndi þrautseigju við að grafa upp staðreyndir með því að beita forvitni og ögun blaðamannsins. Hann og Davis sýndu fram á, að blaðamenn þurftu að breyta sumum af hefðbundnum vinnubrögðum.

Blaðamenn eru mikilvægastir þegar þeir gefa sanna, alhliða og greindarlega mynd af atburðum dagsins í samhengi, sem fær menn til að skilja þá. Ekki er lengur nóg að segja frá staðreyndum, heldur þurfa menn að segja staðreyndir um staðreyndir.

Það er alltaf spenna milli blaðamanns og ritstjóra. Blaðamaðurinn vill meiri tíma og koma meiru inn, en ritstjórinn stendur andspænis minnkandi plássi og tíma, vill styttri sögur. Lausnin felst í að vera gagnorður.

Yfirmenn 40 dagblaða og háskóladeilda í Iowa sögðu, að mikilvægast væri fyrir blaðamann að skrifa greinilega á áhugaverðan hátt. Skýr skrif byggjast á skilningi, blaðamaðurinn þarf að skilja málið sjálfur, áður en hann útskýrir það.

Skýr skrif byggjast á einfaldri framsetningu, sem felur yfirleitt í sér stuttar málsgreinar, hversdagslegt tungutak og rökréttan söguþráð.

Færri en 30 borgir í Bandaríkjunum hafa samkeppni í blaðaútgáfu. Það þýðir, að ábyrgð á sannleikanum fellur á færri herðar. Í mörgum borgum Bandaríkjanna er það aðeins einn blaðamaður, sem hefur það hlutverk á hverju sviði blaðamennskunnar.

Ábyrgð er ábyrgð blaðamannsins við söguna, við blaðamennsku og við almenning. Ábyrgð krefst þess af blaðamanni, að sagan sé nákvæm, fullnægjandi, sanngjörn í jafnvægi, og að hún sé svo skýr, að allir fái skilið hana.

Leiðrétting í New York Times:
“Hr. Sanders var ekki dæmdur fyrir ölvun við akstur og hafði raunar ekki ekið ölvaður. Fréttin var höfð eftir félaga Sanders, sem sagðist vera Sanders, þegar hann talaði við blaðamanninn.”

Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006