0416
Fréttamennska
Misjafnt gegnsæi
Öll ríki Bandaríkjanna hafa sólskinslög, sem skylda opinbera aðila til að láta gögn sín liggja frammi fyrir almenning. Ef gagnabankar eru til, er skylt að veita blaðamönnum aðgang að þeim. Margar stofnanir hafa skjöl sín beinlínis á netinu.
Munurinn á framkvæmd bandarísku sólskinslaganna og íslensku upplýsingalaganna er einkum tvenns konar. Í fyrsta lagi afhenda bandarísk stjórnvöld fjölmiðlum beinan og ókeypis aðgang að gagnabönkum, ýmist á CD-diskum eða með beinlínutengingu.
Hér geta menn hins vegar aðeins spurt bankana ákveðinna spurninga, en ekki annnarra. Til dæmis er hægt að leita eftir götunúmeri í fasteignaskrá og eftir bílnúmeri í ökutækjaskrá, en í hvorugu tilvikinu eftir eigandanum.
Bob Port: “Ég get fundið, hvort hann hafi verið kærður, sé skilinn og hvort hann sé á sakaskrá. Ég get á minna en fimm mínútum staðsett alla Bandaríkjamenn, sem hafa krítarkort og sennilega fundið heimilisföng fjölskyldunnar innan hálftíma.”
Byltingin er í tölvuvæddri blaðamennsku, ekki aðeins í stórum rannsóknum, heldur líka í hversdagsfréttum. Ný tæki og ný tækni hafa gert blaðamönnum kleift að grafa upp mikilvægar upplýsingar í tímahraki og bæta við þær dýpt og samhengi.
Netið hefur milljónir heimasíðna, þar sem gífurlegt magn skjala er að finna, uppflettiskrár, myndir, töflur og aðrar gagnlegar upplýsingar. Þar er líka fullt af rugli og úreltum gögnum. Blaðamaðurinn þarf að kunna að greina þetta sundur.
www.sedlabanki.is, www.sima skra.is/ og www.hagstofan.is/ eru gagnlegar slóðir fyrir blaðamenn. Fasteignamatið (www.fmr.is/ ) og ökutækjaskráin (www.us.is/id/1072 ) veita ekki aðgang að eigendum, svo að fara verður krókaleiðir til að ná þeim.
Margir leggja of mikinn trúnað á það, sem stendur á netinu. Leitarvélar eru bara hjálpartæki við rannsókn, koma ekki í stað rannsóknar. Þær eru góðar fyrir þá, sem eru góðir, en afleitar fyrir þá, sem eru latir, segir Neil Reisner.
Þú getur raðað lista upp á nýtt:
1. Stafrófsröð. Sýndi, að starfsmenn höfðu fleiri en eitt starf.
2. Upphæðaröð. Sýndi, að sumir höfðu risavaxna yfirvinnu.
3. Samræmi við annan lista. Bera strætisvagnastjóra saman við sakaskrá.
Slík vinna sýndi: Tóbak og áfengi er einkum auglýst í hverfum minnihlutahópa. Svartir menn fá hærri dóma. Margfaldast hafa kærur út af 150 km hraða eða hærri. Ólöglegar greiðslur til þingmanna í Indiana eru miklar.
Töflureiknar á borð við Excel eru hugbúnaður, sem geymir gögn í dálkum og línum. Auðvelt er að raða slíkum skjölum upp á nýtt, leggja saman dálka, sameina þá og gera ýmsa útreikninga. Þú getur lagt saman þúsundir talna á einni sekúndu.
Aðgengilegar skrár í Ameríku:
1. Álagningarskrár, afsöl og kaup og sala fasteigna.
2. Leyfi, svo sem veitingaleyfi, hundaleyfi, vínveitingaleyfi, starfsleyfi.
3. Sveitarfélagakort, sýna götur, gönguleiðir, mörk fasteigna.
4. Byggingaleyfi, vangreiddir skattar, veð.
5. Úrslit kosninga.
6. Fyrirtæki og sameignarfélög. Nöfn stjórnenda og eignarhlutir.
7. Reikningar og ljósrit af ávísunum vegna innkaupa opinberra aðila.
8. Fundargerðir sveitastjórna, fjárhagsáætlanir og greiðslur.
9. Flest dómskjöl, svo sem ákærur, yfirheyrslur, málflutningur, dómar.
10. Erfðaskrár, gjaldþrot og bústjórn.
11. Flestar lögregluskýrslur.
Undantekningar í bandarískum sólskinslögum eru skattskýrslur fólks (ekki álagning á fólk), mál sem varða öryggi ríkisins eða utanríkismál, bréf milli stofnana og nokkur önnur upp talin atriði. Takmörk eru á tíma, sem menn mega taka í að svara.
Oft eru reikningsvillur í gagnabönkum. Komman getur hafa færst til. Blaðamaður þarf að geta reiknað út, hvort niðurstaðan er fráleit eða ekki. Hann þarf líka að ráða við prósentur, meðaltöl og hlutfall.
Prósentur og hlutfallareikning þurfa blaðamenn að kunna. Meðaltöl eru hættulegri. Þau geta falið í sér 1) meðaltal (mean),
2) hágildi (mode) með mesta tíðni, eða 3) miðgildi (median). Töflureiknar hafa formúlur, sem reikna öll þessi gildi.
Skoðanakannanir eru mikið notaðar, enda geta þær verið nákvæmar. Það þýðir ekki, að taka beri allar kannanir alvarlega. Þeim fylgja vandamál, sem könnuðir flagga stundum ekki. Blaðamenn þurfa að skilja eðli þeirra, möguleika þeirra og takmörk.
Skoðanakönnun er kerfisbundin aðferð við að finna, hvað fólk hugsar núna, með því að spyrja úrtak þess. Blaðamenn, sem ekki skilja aðferðina, sem telja tölur hafa dularfullan mátt, eru dæmdir til að verða fórnardýr skoðanakannana.
Kannanir fela í sér skekkjur og skekkjumörk, sem blaðamenn taka oft ekki eftir, þegar mjótt er á mununum. Þeir taka ekki eftir, hversu margir voru spurðir og hversu margir svöruðu, taka ekki eftir orðalagi spurninganna. Eða hver spurði.
Hafa verður í huga, að kannanir eru ekki kosningaspár. Þær meta aðeins stöðuna eins og hún er í dag, ekki eins og hún verður á kosningadegi. Einnig verður að hafa í huga, að atkvæðagreiðslur, t.d. á netinu (menn velja sig sjálfir) eru ekki gildar kannanir.
Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006