0417
Fréttamennska
Inngangurinn I
Ef upphaf fréttar er ekki gott, heldur lesandinn ekki áfram. Inngangurinn þarf að ná athygli hratt og örugglega. Margar fréttir eru skrifaðar í öfugan píramída. Aðalatriðin eru þá efst og veigaminnstu atriðin eru neðst.
Með mýkri fréttum en áður hefur mikilvægi öfuga píramídans minnkað. Einnig vegna þess að nýjar fréttir byrja yfirleitt í sjónvarpi. Gagnsemi öfuga píramídans felst einkum í, að hann segir söguna eðlilega og gerir auðvelt að klippa hana.
Inngangurinn er venjulega einn málsliður, en getur í lengri greinum orðið tveir eða þrír málsliðir. Í inngangi þarf að vera litrík sögn. Ekki gera lesendur leiða með inngangi, sem þeir hafa lesið þúsund sinnum áður.
Slepptu klisjum í inngangi. Ekki segja “gildi menntunar”, “sýndu áhuga sinn”, “æska Íslands”, “þegar til kastanna kemur”, “aðalatriði málsins”, “fyrst og fremst”, “í fyrsta lagi”, “í annan stað”, “mikill misskilningur”.
Inngangur þarf að vera frumlegur og áhugaverður, málefnalegur og efnisríkur. Algengastur er AP-inngangurinn, sem kemur aðalatriðunum á framfæri á einfaldan og auðskilinn hátt. Inngangur er þéttur, læsilegur og liðugur.
Allar fréttir eiga að fela í sér: Hver gerði hvað, hvenær, hvar, hvernig, hvers vegna og hvað svo. Sumt af þessu, en ekki allt, þarf að koma fram í innganginum. Aðalatriðið er að fá lesandann til að vilja halda áfram að lesa.
Áður en þú skrifar innganginn skaltu fara yfir efnið, sem þú ert með og hugsa um, hvernig best sé að setja það fram. Hver eru mikilvægustu atriðin, sem eiga að vera efst, í hvaða röð eiga hin atriðin að vera, hvar á setja inn tilvitnanir?
Slæmur inngangur er lengi að koma sér að efninu, er of langur eða er með of miklu af hliðaratriðum, lýsir skoðun höfundarins eða truflar lesandann með ruglingi í tímaröðinni. Líka á að forðast beinar tilvitnanir og spurningar í inngangi.
Tvær tegundir af inngangi:
1) Mikilvægasta atriði fréttarinnar.
2. Frestaður inngangur. Forvitnileg atriði eru sett framan við til að framkalla lestur. Oft notaður í lengri greinum.
Venjulega hefur inngangurinn eina hugmynd og fylgir formúlunni: Frumlag-umsögn-andlag. Þannig verður hann skýr. Hann er ekki yfir 35 orð. Inngangurinn á að ná í kjarna málsins og fá lesandann til að gefast ekki upp, heldur halda áfram.
Dæmi: “Við sváfum í nótt í herbúðum óvinarins.” “Harold F. McCormick milljónamæringur keypti í dag æsku fátæklings” (líffæraígræðsla). “”Mér finnst, að skítugar hendur hafi þuklað á mér”, sagði Martha Graham” (um þingmann).
Fleiri dæmi: “Hvað kostar dýrðin: Tvö augu, tvo fætur og hendi – 12 dollara á mánuði” (örkumla hermaður).
“Snjór fór að falla og strákar með sleða fylgdu á eftir.”
Þessir inngangar fylgja ekki að öllu leyti kenningum gamalla kennslubóka í blaðamennsku. En þeir ná á lýsandi hátt til kjarna málsins og þeir freista lesandans til að halda áfram.
Leo Tolstoy sagði, að góður texti stykki “beint í atburðinn”. Gamla testamentið byrjar svona: “Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.” Jane Austen byrjaði Pride and Prejudice: “Almennt er viðurkennt, að ríkur maður þurfi á konu að halda.”
Thomas Boswell hjá Washington Post: “Þegar þú finnur hugmyndina eða þráðinn, hangir allt annað eins og perlur á þræðinum, smásögur, myndir og tilvitnanir. John McPhee hjá New Yorker: “Þegar þú hefur skrifað innganginn, ertu 90% búin.”
Í flestum tilvikum er inngangurinn ljós. Best er að hafa hann strax í huga og breyta honum eftir því sem fréttaöflun vindur fram. Það gera reyndir blaðamenn. Þeir spyrja sjálfan sig: “Um hvað snýst þessi frétt eiginlega?”
Þegar þú veist innganginn, geturðu beint fréttaöflun þinni að því atriði. Þú ferð að spyrja réttra spurninga, leita að sérstökum atriðum og grafískum smáatriðum, sem gæða söguna lífi. Inngangurinn er haldreipi fréttarinnar.
Margir gefa það vonda ráð, að leita inngangs með því að horfa út um gluggann, ganga um gólf. Sumir segja þér bara að byrja að skrifa, þá komi inngangurinn af sjálfu sér. Þetta er alrangt. Þú þarft í fréttamennsku að nái fókusi strax.
Spurningarnar sjö eru: Hver gerði hvað, hvenær, hvar, hvernig, hvers vegna og hvað svo. Einhver þeirra, ein eða fleiri, gefa venjulega efni í innganginn. Ef við byrjum þannig, erum við með beinan inngang, annars með frestaðan inngang.
Þegar þú hleypur að tölvunni til að skrifa eða þegar þú ert að fara í mynd og þarft að tala, þarftu í rauninni ekki annað í kollinn en innganginn. Hann þarf ekki að vera skrúfaður, en ef þú rammar hann sæmilega, kemur hitt af sjálfu sér.
Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006