0419
Fréttamennska
Á vettvangi I
Til að safna áreiðanlegum og mikilvægum upplýsingum í sögu er nauðsynlegt að:
1) Blaðamaðurinn viti, hvað lesendur og hlustendur hafa áhuga á, hvað hafi áhrif á þá og hvað þeir þurfi að vita.
2) Finni þema sögunnar snemma í verkefninu.
3) Leiti að því, sem er öðru vísi, því óvænta, því einstæða, sem lýsir atburðinum og gerir hann ólíkan öðrum svipuðum atburðum.
Hjarðmennska: Varið ykkur á skjótum ályktunum. Erfiðleikar blaðamanna á vettvangi leiða oft til þess, að blaðamenn fletta hver upp í öðrum. Það leiðir til hjarðmennsku, þar sem blaðamenn trúa hver öðrum um, hvað hafi raunverulega gerst.
W.I.B. Beveridge sagði: “Nákvæm lýsing flókinna atburða er mjög erfið. Ómeðvitað gera menn þá oft ýmis mistök.” Það er ekki nóg að puða við að rannsaka mál, menn þurfa að velja og hafna og velja einkum þá þræði, sem víkja frá hinu venjulega.
Blaðamaður lítur á hvert verkefni eins og óleysta morðgátu. Hann leitar að fókus eins og spæjarinn að sönnun. Hvert er lykilvitnið? Hvaða sönnunargagn sker í augu? Hver er bitastæðasta tilvitnunin í dómarann?
Blaðamaður sendur andspænis hafsjó upplýsinga. Fundur getur staðið í tvo tíma, náð yfir ýmis mál og leitt til fjögurra ályktana. Ræðumaður getur talað 4.500 orð. Til að höndla allt þetta hefur blaðamaðurinn 750 orð eða 90 sekúndur.
Blaðamaðurinn velur rétt úr upplýsingasúpunni, af því að hann:
1) Þekkir samfélagið. Hann veit, hvað lesendur þurfa og vilja vita.
2) Finnur þemað. Hann finnur það snemma og getur safnað upplýsingum, sem lúta að því. Öðru fleygir hann.
3) Finnur sérstöðuna. Hann leitar að því einstæða, dramatíska, óvenjulega, því sem fer á skjön við hversdagsleikann.
Blaðamaður kynnist samfélaginu með því að tala við fólk og horfa á það við leik og störf, kynna sér fortíð þess og hlusta á væntingar þess fyrir sig og ættingja sína. Blaðamenn, sem flytjast milli staða, þurfa að laga sig að nýjum háttum.
Irving Kristol segir: “Maður veit ekki, hvað hann hefur séð, fyrr en hann veit, að hverju hann leitar”. W.I.B. Beveridge segir hugmyndir hjálpa manni við að “sjá mikilvægi ástands eða atburðar, sem maður sér annars alls ekki.”
Ef blaðamaður rekst á upplýsingar, sem stinga í stúf við áður ákveðið þema, skiptir hann því út fyrir annað. Þannig er blaðamaðurinn eins og vísindamaður. Niðurstöðurnar geta aldrei orðið betri en sönnunargögnin.
Blaðamenn eru ekki eins og annað fólk. Þeir horfa barnsaugum á heiminn og sjá, hvort keisarinn er fatalaus. Þeir ausa líka af reynslubrunni sínum til að greina milli mikilvægra og lítilvægra atriða, dramatískra og hversdagslegra atriða.
Red Smith sagði: “Sérhver boltaleikur er ólíkur öllum öðrum boltaleikjum. Ef blaðamaðurinn hefur þekkingu og vit til að skilja og skynja muninn. Blaðamaður fjallar um þúsundir boltaleikja og skrifar aldrei sömu fréttina.
Góð blaðamennska virkar ekki, nema blaðamaðurinn finni sér góðan sjónarhól. Hann þarf að hafa yfirsýn yfir aðstæður og atburði. Venjulega þýðir þetta, að hann þarf að vera í návígi við atburðinn.
Aðalatriðið er að sannreyna. Það felur í sér lýsingu af vettvangi. Ef hún er ekki fær, felst vinnan í skoðun á tölfræði, skjölum, skýrslum og öðrum gögnum. Að svo miklu leyti sem þessir hlutir bregðast, þá er vitnað í mannlegar heimildir.
Deborah E. Lipstadt segir, að mörg dagblöð hafi ekki sagt frá fjöldamorðum nasista, af því að sögurnar voru handan við það, sem hægt var að trúa. Ef þau hefðu verið sveigjanlegri, hefðu þau betur áttað sig á, að það ótrúlega var satt.
Þrengjandi áhrif á sögu:
1) Lokunartími fjölmiðilsins.
2) Heimildin, sem blaðamaður finnur ekki.
3) Skjalið, skýrslan, úrklippan, sem ekki finnst.
4) Atburðurinn, sem blaðamaðurinn sá eða heyrði ekki.
5) Staðreyndirnar, sem heimildin sagði ekki frá.
6) Efnið, sem handritalesarinn hendir úr sögunni.
7) Takmörk á getu blaðamannsins sjálfs.
8) Bókin eða tímaritsgreinin, sem blaðamaðurinn las ekki.
9) Símtalið, sem ekki náðist.
10) Spurningin, sem ekki var spurð.
11) Viðtalið, sem féll niður.
Ef blaðamaður er of nálægt lokunartíma við vinnu sína, freistast hann til að afgreiða yfirborð málsins og nær aldrei að grafa neitt upp, af því að næsta dag er málið komið í biðstöðu.
Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006