0428 Viðtalatækni

0428

Fréttir
Viðtalatækni

Ef þú ert of frjálslega klæddur, segir það viðmælandanum, að þér sé sama, þú takir hann ekki alvarlega. Hár og klæðnaður, rödd, fas, limaburður og grettur senda skilaboð til viðmælandans. Blaðamaðurinn má ekki koma úr öðrum heimi.

Blaðamaðurinn verður að haga sér í samræmi við aðstæður og viðmælanda. Reyndir viðmælendur búast við blátt áfram framkomu blaðamannsins. Þeir, sem eru óvanir, vilja helst sjá blaðamann, sem líkist fyrirmyndum úr bíómyndum.

Besta hlutverk blaðamannsins er að vera ekki persónulegur, ekki tilfinningalegur, ekki of flæktur í málið. Stundum þarf þó að flækja sér í málið til að mýkja fólk: “Ég veit hvernig þú hugsar. Ég lenti líka í svona aðstæðum í skólanum.”

Þegar viðmælandi gefur í skyn, að hann vilji aðeins taka þátt í viðtalinu, ef það sýni hann í hagstæðu ljósi, þarf blaðamaðurinn að róa viðmælandann og segja honum, að sagan verði sanngjörn og í jafnvægi, slík saga verði alltaf hagstæð.

Ef valdamaður situr á upplýsingum, sem varða almenning, getur verið nauðsynlegt fyrir blaðamanninn að skipta milli hlutverka vinar og bullu til að fá hann til að tjá sig.

Terry Gross: “Viðtal er oft leiðin, sem þú ferð mitt á milli þess, sem þú vissir fyrir viðtalið og þess, sem þú lærir í viðtalinu.”

Ef viðmælandi hugsar óeðlilega lengi um svar sitt, má gera ráð fyrir, að hann sé að reyna að fela eitthvað eða ljúga. Einnig verður augnablikið því lengra sem líklegra er, að viðmælandinn sé að skálda upp sögu.

Haya El Nasser hjá USA Today tók viðtöl við ættingja fólks, sem fórst 11. sept. Margir vildu ekki tala. Ein sagði að banna ætti slík viðtöl. En reyndust samt vilja tala. Hvernig fór hún að:

“Ég byrjaði öll samtöl svona: Ég vil ekki vera frek eða ósvífin, en við erum að safna frásögum um fórnarlömbin. Og ef þú vildir svara nokkrum spurningum, mundum við vera mjög fegin. Ef ekki, þá getum við alveg skilið það.”

Blaðamenn í rannsóknablaðamennsku tala oft eins og þeir viti meira og nota þá rödd við hæfi. Þetta kallar Bruce Selcraig “meintur-sannleiki-í-spurningu:

“Þú kemst ekkert áfram, ef þú spyrð: “Getur þú staðfest, að …”. Í staðinn skaltu reyna þetta: “Hvert er hlutur FBI í þessu máli? Hvaða fulltrúi mun sjá um rannsóknina á háskólanum?” Þú gerir ráð fyrir, að rannsókn verði.

Áfram Selcraig: “Taktu eftir merkjum um streitu. Krosslegur hann fæturnar oft sitt á hvað, fitlar hann stöðugt við bréfklemmur á skrifborðinu, þreifar hann á fötunum, svitnar hann eða stamar?

Hann er um það bil að byrja að ljúga. Á þessu stigi segir ertu kominn nálægt sannleikanum. Reyndu núna að spyrja: Hef ég gert þig óstyrkan? eða Þú virðist hafa áhyggjur af einhverju í dag.”

Bob Greene hjá Newsday býr til hringi. Hann talar við mann, sem vill lítið tjá sig. Hann talar við aðra og lætur það fréttast til viðmælandans. Hann talar aftur við viðmælandann, aftur við aðra, þrengir hringinn uns viðmælandinn “springur”.

Margir blaðamenn eru of uppteknir af orðum viðmælandans. Þeir gefa sér ekki tóm til að kanna aðstæður á staðnum. Þeir leyfa viðtalinu ekki að skeiða inn á hliðargötur, sem varða áhugamál eða önnur einkenni viðmælandans.

Smáatriðin skipta máli. Blaðamaður kom inn með sögu af morði og fréttastjórinn spurði hann: “Í hvorri hendinni var byssan.” Þetta er hefðbundin spurning á ritstjórnarskrifstofum, þar sem blaðamenn ná ekki sannfærandi smáatriðum.

Þeir, sem ekki skrifa niður viðtöl, gleyma sumu mikilvægu í viðtalinu. Þeir, sem skrifa of mikið, pirra stundum viðmælendur sína eða hafa áhrif á það, sem þeir segja, fá þá til að segja það sem þeir halda þig vilja heyra.

Jan Wong nýtir segulbandstækið: “Ef spennan verður of mikil, loka ég nótubókinni, en læt bandið ganga. Það gerðist með leikarann John Hurt. .. Hann varð svo æstur, að hann fór að titra. Ég þorði ekki að skrifa meira niður. En bandið gekk.”

Þegar Wong fer í viðtöl, spyr hún einskis, setur bara segulbandið af stað og horfir á viðmælandann. Um segulbandstæki eru annars deildar meiningar, sumir nota það alltaf og aðrir nota það aldrei.

Lillian Ross segir: “Notaðu ekki segulbandstæki. Merkilegt nokk þá skekkir það sannleikann. Tækið er hröð og einföld og löt aðferð við að ná niður miklu tali. En mikið tal er ekki sama og viðtal. Blaðamaðurinn verður að nota eigin eyru.”

Allt í einu áttar viðmælandinn sig á, að hann hefur sagt eitthvað, sem hann vill ekki láta hafa eftir sér. Hann segir: Ekki nota þetta, það er off-the-record. Blaðamenn eru vanir að svara því, að ekki sé hægt að gera slíkt afturvirkt.

Almennt á off-the-record ekki að virka aftur á bak og það á ekki að vera hægt að fara til skiptis milli on og off í viðtali. Ef hins vegar málið er ekki mikilvægt í heildarmynd viðtalsins, freistast blaðamenn oft til að samþykkja.