0431 Fréttagröftur

0431

Fréttamennska
Fréttagröftur

Hlutverk blaðamannsins er að safna upplýsingum, sem hjálpa fólki að skilja atburði, sem hafa áhrif á það. Fréttaöflun er í þremur lögum:
1) Yfirborðsfréttir: Frá heimild, svo sem tilkynningar, handát, ræður.

2) Frumkvæðisfréttir: Sannreynsla, rannsóknablaðamennska, atburði lýst, bakgrunnur.
3) Túlkun og skýring: Mikilvægi, orsakir, afleiðingar.

Blaðamaðurinn er eins og gullleitarmaðurinn. Hann sættir sig ekki við það, sem finnst á yfirborðinu. Hann þarf að grafa eftir fréttum. Hann þarf að átta sig á landslaginu. Það er kallað í blaðamennsku að hafa fréttanef.

Blaðamennska felst í að safna upplýsingum, sem máli skipta, eftir ýmsum leiðum, svo sem skoðun og viðtölum, skoða skýrslur og skjöl, nota gagnabanka og netið, og láta efnið fara um síu sannreyndar og úttektar.

Stundum eru öll lög fréttaöflunar notuð. Grunnur fréttarinnar er tilkynning, en blaðamaðurinn hefur grafið dýpra og að lokum hefur hann útskýrt fréttina og bent á afleiðingar hennar.

Ekki ber að líta niður á yfirborðsfréttir. Þær segja fólki, hvað sé að gerast í umhverfinu. Mikið af slíkum fréttum, sem sumar eiga uppruna sinn í tilkynningum frá almannatenglum, fylla síður dagblaða og mínútur fréttaþátta.

Í yfirborðsfréttum tekur blaðamaðurinn að sér að raða upp á nýtt staðreyndum í tilkynningu að utan, sannreyna heimilisföng og tímasetningar og staðfesta rithátt nafna. Tilkynningin kemur þá lítið breytt, oft nokkuð stytt í miðlinum.

Þegar Sovétríkin hrundu skyndilega inn í sig, kom það lesendum og áhorfendum á óvart. Fólk hafði ekki skilið rústir hagkerfisins og hatur fólks á kerfinu. Blaðamönnum hafði ekki tekist að upplýsa. Almannatenglar kerfisins höfðu stýrt fréttum.

Eftir komu sjónvarps reyna heimildir að framleiða veruleika með því að nota sér þörf sjónvarps fyrir myndefni. Atburðir eru framleiddir og látnir líta út eins og þeir hafi sprottið af sjálfum sér. Daniel J. Boorstin kallar það “gerviatburði”.

Vinur: “Mikið er þetta fallegt barn.” Móðir: Þú ættir að sjá myndina af því.” Gerviatburður er atburður, sem er framleiddur, honum er plantað niður eða æst er til hans. Ólæti á útifundi eru gott dæmi um gerviatburð fyrir sjónvarpsfréttir.

Gerviatburðir eru framleiddir til að koma þeim í sjónvarp. Oft eru stjórnvöld og stjórnmálaöfl að verki. Stjórnmálamenn þurfa athygli og viðurkenningu og nota sér þörf sjónvarps fyrir myndefni til að framleiða gerviatburði sér til framdráttar.

Stuart Ewen segir: “Við lifum í heimi, þar sem menn berjast um almannavild og samþykki almennings. Ég held, að fólk telji, að ekki sé til neinn sannleikur, heldur bara spuni. Sumpart af því að svo margir hafa atvinnu af spuna.”

Þegar George C. Wallace ríkisstjóri neitaði að fara úr anddyri skóla í Alabama, var það ekki atburður, heldur leikin aðgerð í samráði við John F. Kennedy forseta. Hún hafði það að markmiði, að báðir aðilar kæmu vel út úr málinu.

Wallace var að afla sér fylgis svertingjahatara í Suðurríkjunum og Kennedy var að láta sig líta út sem þann, sem vildi flýta fyrir kynþáttablöndun í menntakerfi Bandaríkjanna. Þeir léku lítinn bardaga, hvor fyrir sitt lið.

Almannatengill segir blaðamanni staðreynd 1,2 og 3. Blaðamaður spyr og fær staðreyndir 4,5 og 6. Ný þemu koma í ljós, 7,8 og 9. Blaðamaður grefur upp 10 og 11. Niðurstaðan varð frétt, sem felur í sér staðreyndir 3,5,7,10,11.

Nokkrar verklagsreglur:
1) Vertu viðbúinn nýjum fréttum með því að fylgjast með þróun mála í samfélaginu.
2) Saga er að baki allra atburða. Mundu, að afsögn Nixons hófst á litlu innbroti.

3) Berðu öll nöfn saman við símaskrána, þjóðskrána og bókasafn þitt.
4) Eltu peningana. Finndu hvaðan þeir komu, hvert þeir fara og hver stýrir þessu.
5) Efastu um valdamenn. Titlar og gráður gera fólk ekki fullkomið.

6) Gerðu ekki sjálfkrafa ráð fyrir neinu. Gleymdir eru þeir, sem töldu keisarann vera í fötum. Við munum eftir barninu, sem benti á, að hann var ekki í neinu.

Umboðsmaður neytenda í Chicago sýndi fram á, að neytendur væru blekktir í fréttatilkynningum, sem fjölmiðlar tóku við og birtu. Með léttum útreikningi hefðu fjölmiðlarnir getað hafnað tilkynningunum, en þeir reiknuðu ekki.

Internetið jafngildir ekki uppsláttarritum sem heimild. Í vönduðum bókum eru allar upplýsingar sannreyndar, en á netinu getur ónákvæmni vaðið uppi. Því ber að taka með varúð öllum upplýsingum á netinu.

Þegar blaðamenn leita, eru þeir komnir á 2. stig blaðamennsku. Þegar þeir taka við tilkynningu á fundi, eru þeir á 1. stigi. Þegar þeir spyrja á fundinum, eru þeir á 2. stigi. Þegar fundarboðandi svarar þeim ekki, er aftur komið á 1. stig.

Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition
2006