0435 Íþróttir

0435

Fréttamennska
Íþróttir

Sumir segja, að íþróttafréttir séu best skrifuðu fréttirnar, aðrir segja þær hinar verst skrifuðu. Sumir ofnota klisjur úr íþróttaheiminum, svo sem “enginn annar en Ingimar Stenmark” eða “lúta í gras” eða “voru að spila vel”.

Mikilvægt er að muna eftir, að úrslit eru flestum kunn úr útvarpi og sjónvarpi gærkvöldsins. Dagblöð, sem koma út morguninn eftir, verða að segja frá úrslitum, en leggja mesta áherslu á túlkun, skoðanir, spennu, lit, æsing, líf og fjör.

Í dagblöðum er mikið fjallað um aðdraganda leikja og um eftirspil leikja í búningsklefum og víðar. Minna er en áður um að rakinn sé gangur leikja, sem lesendur eru búnir að sjá í sjónvarpinu.

Sá, sem skrifar um íþróttir, verður að vita allt um þær. Hann verður að þekkja leikreglur og herfræði, hann les, heyrir og sér íþróttafréttir. Ef hann hefur ekki unnið heimavinnuna sína, tekur íþróttaáhugamaðurinn eftir því.

Næst á eftir staðarfréttum og skemmtifréttum eru íþróttafréttir þriðja vinsælasta efni fjölmiðla.
1) Sögur af leikjum.
2) Mannlýsingar.
3) Brot, ólögmæti.

Susan V. Hands segir: “Ég komst að raun um, að fólk keypti blaðið til að sjá úrslit gærkvöldsins. Og að það mundi verða óánægt, ef það fengi rannsókn á þjálfun stúlkna í frjálsum íþróttum í stað staðreynda um leikinn í gærkvöldi.”

Frank Barrows telur, að það gildi ekki lengur, að dagblöð geti sleppt lýsingu á leikjum vegna sjónvarpsins. Stöðvarnar eru orðnar svo margar, að ekki sé lengur hægt að gera ráð fyrir, að fólk hafi séð fréttirnar í sjónvarpi.

Venjan er að vera bara með úrslit og helstu atriði leikja, sem sáust í sjónvarpi kvöldið áður, en birta einnig margs konar ítarefni. Um aðra leiki þarf að birta lýsingu, hvernig leikmenn stóðu sig, hvað þjálfararnir sögðu um leikina.

Íþróttadeildir flestra dagblaða eru fjölmennari en samanlagðar deildir viðskipta, menntunar og sveitarstjórna. Frasar úr íþróttum gegnsýra almennt tal: “Þeir voru að spila vel.” “Enginn annar en Ingimar Stenmark.” “Við vorum grimmir.” “Þeir lutu í gras.”

Minnislisti um leiki:
1) Úrslit, nöfn liða, íþrótt, deild.
2) Hvar og hvenær?
3) Úrslitastund, vinningsleið, herfræði.
4) Frábærir leikmenn.
5) Áhrif á stöðu liðs, persónuleg met.

6) Stigagjöf, tölfræði.
7) Leikkaflar, tölfræði.
8) Skoðanir eftir leik.
9) Ytri aðstæður, veður, áhorfendur.
10) Fjöldi áhorfenda.
11) Meiðsli og líðan.
12) Tölfræði.

Stíll íþróttafrétta spannar allt sviðið, stundum best skrifaði texti fjölmiðils og stundum sá verst skrifaði. Ef til vill er það æsingur líðandi stundar, sem kallar á þessar andstæður í textanum.

Leikmenn eru góðar heimildir. Sumir leikmenn hafa betri innsýn en aðrir. Gott er að hlusta á þá og best er að gera það í búningsklefanum strax að leik loknum. Þá segja þeir fleira en þeir mundu segja við hversdagslegar aðstæður.

Bob Costas íþróttaþulur segir, að íþróttablaðamennsku sé að hnigna vegna slæmrar blaðamennsku. Flestar lýsingar á leikjum eru “froðusnakk og endurtekning á klisjum – ekki bara á klisjum í málfari, heldur á klisjum í skilningi á leiknum.”

Atvinna í íþróttafréttum: “Gaurarnir í útvarpinu vilja komast í sjónvarpið. Gaurarnir í sjónvarpinu vilja komast í keðjurnar. Keðjugaurarnir vilja ekki hætta. Best er að byrja í ólaunaðri námsvist á sjónvarpsstöð.”

Beinn, grannur og marktækur texti flæðir eðlilega frá atburðinum. Leikir eru leikhús með spennu, persónum og dramatískri niðurstöðu. Af nógu er að taka, dæmum og örsögum, sem lýsa leiknum, og tilvitnunum, sem lýsa persónum og atburðum.

Lærdómur er nauðsynlegur. Íþróttablaðamaður þekkir söguna, þekkir íþróttina, þekkir reynslu, kosti og galla leikmanna. Hann fjallar um staðreyndir og skrifar svo skýrar málsgreinar, að þær varpa af sér skugga.

Tvenns konar ferli í sporti hefur áhrif á íþróttablaðamennsku. Annars vegar vilja áhangendur, að fjölmiðillinn sé í stuðningsliði heimaliðsins. Hins vegar hafa peningar haldið innreið sína og sumpart haft slæm áhrif á íþróttina.

Jimmy Cannon sagði: “Íþróttablaðamennska lifir vegna gauranna, sem ekki fagna.” Blaðamenn eru fagmenn, ekki klappstýrur. Sumir blaðamenn eru í of nánu sambandi við einstaka leikmenn. Stanley Woodward: “Hættið að Guða þessa boltamenn.”

Ted Rose segir í Brill’s Content, að allir sjónvarpsþulir íþrótta séu annað hvort á greiðslum frá heimaliðinu eða ráðnir með samþykki þess. Þeir séu ekki óháðir blaðamenn, heldur talsmenn félagsins, sem beint eða óbeint hafi þá í vinnu.

Jim Bouton segir: “Almennt er leikmönnum illa við fjölmiðla í réttu hlutfalli við þá ábyrgð og fagmennsku, sem íþróttablaðamenn sýna.” Sumir blaðamenn ganga svo langt í fylgispekt, að þeir leyna brotum, sektum, óíþróttamannslegri hegðun.

Ralph Kiner: “Okkar stíll í lýsingum er annar en þeirra nýju. Þeir halda, að best sé að tala sem hæst og öskra sem mest. Mér finnst gamli stíllinn betri, að tala rólega eins og við næsta mann. En það vilja þeir ekki. Þeir vilja hávaða.

Sam Roe hjá Blade lýsti brotum nokkurra skólaliða í Toledo á keppnisreglum. Hann var kærður, haldinn útifundur til að fordæma hann. Krafist var leiðréttingar á forsíðu og brottrekstrar Roe. 6 mánuðum síðar voru liðin sektuð fyrir afbrotin.