0437 Slys

0437

Fréttamennska
Slys

Hver sérgrein blaðamennsku kallar á ákveðið verklag. Minningargrein kallar á nafn, aldur, störf, dánarorsök, dánarstað, eftirlifandi ættingja, áætlanir um jarðarför, ýmiss konar bakgrunn.

Tékklistinn er upphafið hjá blaðamanni eins og flugmanni, áður en þeir taka flugið. Ekki er hægt að læra blaðamennsku með því að læra tékklista. Þeir eru bara ábendingar, ekki lögmál og allra síst lög um niðurröðun efnis í grein.

Frank Herron hjá Post Standards segir: “Ég hafði ekki hugmynd um hvað ég ætti að spyrja um. Lögreglumaðurinn sagði: Hvað viltu vita? Þá rann upp fyrir mér ljós: “Bara, þú veist, þetta venjulega.” Sem betur fer kunni hann “þetta venjulega”.

Til eru tvenns konar sérgreinar, sumar um málefni, aðrar um stað. Meðal efna eru menntun, stjórnmál, viðskipti. Meðal staða eru héraðsdómur, ráðhúsið, varðstofa lögreglunnar, þar sem blaðamaðurinn er fyrst og fremst á einum og sama stað.

Malcolm A. Borg segir: “Mesta vandamálið á fréttastofunni er að fá blaðamenn upp af rassinum og koma sér inn í samfélagið, sem þeir eiga að vera að skrifa um.”

Blaðamaður með sérgrein reynir að hitta alla, skrifstofumenn, ritara, vélritara, aðstoðarmenn, skrifstofustjóra. Gott er að skilja eftir nafnspjald eða nótu með nafni, heimilisfangi, síma og netfangi.

Taktu þér tíma. Þannig þróar þú aðgang að heimildum og þannig færðu síðar góðar sögur. Fólki líkar almennt vel að spjalla við blaðamann. Þú verður að koma upp trausti. En lofaðu engu, sem þú getur ekki staðið við eða truflar starf þitt.

Átta tillögur Rich Oppel hjá Charlotte Observer:
1) Fáðu þér fljúgandi start og farðu úr skrifstofunni, þar eru engar fréttir.
2) Settu þér dagleg markmið.

3) Byggðu upp heimildamenn. Vertu í reglubundnu sambandi, helst daglega.
4) Gerðu greiða. Útvegaðu gamalt eintak. Af hverju ekki.
5) Spurðu afgerandi spurninga. Hvað tekur upp tímann? Hver er stærsti vandinn?

6) Hlustaðu vandlega, virtu vandlega fyrir þér.
7) Farðu í skjölin. Ekkert kemur í staðinn fyrir eigin augu.
8) Hringdu. Símtöl eru viðbót, en koma ekki í stað mannlegra samskipta.

Níunda reglan: Þekktu sérsvið þitt. Almennt hafa ritstjórar lítið álit á þekkingu blaðamanna á þeirra sviði. Þeim finnst nýir blaðamenn vera illa þjálfaðir til að fjalla um skóla, lögreglu, dómstóla, fjárhagsáætlanir, viðskipti, stjórnsýslu.

Hver slysafrétt virðist vera annarri lík. Hlutverk blaðamannsins er að finna, hvað er sérstakt við þetta slys, hvers vegna lesandinn ætti endilega að lesa um það. Var gatan illa lýst? Var bíllinn með skoðun?

Blaðamaður var svo yfirkominn af stórslysi, að hann skrifaði: “Guð situr nú á hóli við slysstaðinn, þar sem …” Fréttastjórinn hrópaði: “Segið honum að sleppa slysinu og taka viðtal við guð.”

Mótmælaaðgerðir: Draga yfirleitt að sér fréttamenn, sem þurfa að gæta þess að vera ekki “notaðir”. Oft æsist leikurinn, þegar myndavélar birtast á vettvangi, og hnígur síðan aftur, þegar þær fara. Fréttamaðurinn þarf að fá báðar hliðar máls.

Uppþot: Mótmælaaðgerðir breytast stundum í uppþot. Ljósvakagengin mega ekki koma sér í hættu af þeim völdum. Erfitt er að spá, hvað stjórnlaus hópur gerir, hann getur allt eins beint reiði sinni að fjölmiðlunum.

Nóttin er sérstaklega hættuleg. Myndavélaljós eru ávísun á vandamál og menn forðast því að nota þau. Reynt er að nota kíkislinsur til að geta verið í fjarlægð. Þyrlur eru oft notaðar til öryggis. Margar stöðvar eiga þyrlur.

Stórslys: Geta orðið fréttamönnum tilfinningalega erfið. Heimildir eru oft ekki áreiðanlegar. Ef tvær kenningar eru til um manntjón, er rétt að nota báðar eða lægri töluna. Hafa verður fyrirvara á birtingu upplýsinga, sem vafi er um.

Deilur hafa verið í rúma tvo áratugi um of mikið ofbeldi í sjónvarpi. Mest snúast þær um ofbeldi sem skemmtun, en líka hefur verið rætt um ofbeldi í fréttum. Íbúar í Jonesboro kvörtuðu um ágang fjölmiðla, er hefðu notað börn sem heimildir.

Rannsókn á Jonesboro málinu leiddi í ljós, að flestir fréttamenn fengu góða útkomu fyrir nákvæmni, sanngirni, smekkvísi og næmi. En 10% fréttamanna hefðu þrýst of mikið eða hagað sér á kaldlyndan hátt. Fá dæmi voru um brenglanir.

Í rauninni vildu flestir ræða harmleikinn. Ginger Delgado sagðist aldrei hafa séð eins mörg fórnarlömb og fjölskyldur vilja tala að fyrra bragði. Kannski gildir þar nútímareglan: Það græðir sár að tala um þau.

Jon Katz í Brill’s Content gagnrýndi fréttir fjölmiðla af Colorado-skotárásinni. Hann sagði, að fréttamenn hefðu almennt tekið góðar og gildar kenningar um, að morðin stöfuðu af mikilli umgengni við ofbeldi í tölvum.

Katz: “Í stað þess að flytja sannleikann í málinu, gerðust sumir fjölmiðlar flytjendur geðshræringar og sefasýki.” Deilt er um, hvort fjölmiðlar eigi að halda sig meira við staðreyndir og spá minna í “hvers vegna” og “hvað svo”.

Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition
2006