0445 Smekkvísi II

0445

Fréttamennska
Smekkvísi II

Morð og aðrir glæpir, þjófnaður og margs konar spilling er daglegt brauð í samfélagi nútímans. Fjölmiðlarnir eru í þungamiðju frásagna af þessum og öðrum neikvæðum þáttum í trosnuðum vef samfélagsins og verða að gjalda fyrir það.

Vandi felst líka í stærð fjölmiðlanna sjálfra og þeirra samsteypa, sem reka marga fjölmiðla eða jafnvel fjölmiðla til viðbótar alls kyns öðrum rekstri. Fólk hefur grun um, að hagsmunir samsteypanna endurspeglist í efni fjölmiðlanna.

Samfélagið leggur hlutverk á herðar blaðamanna. Frásagnir úr pólitík þjóna þeim pólitíska tilgangi, sem felst í verndun frjálsrar pressu í stjórnarskrám. Þeir eiga að skyggnast undir hulu, sem valdhafar breiða yfir verk sín.

Upplýsingar í fjölmiðlum eru umræðuefni í samtölum fólks og efla þannig félagslíf þess. Fjölmiðlarnir hjálpa við að setja fram umræðuefni samfélagsins og geta haft áhrif á niðurstöður þeirra. “Lastu úttektina um vatnalögin í Mogganum í morgun.”

Fjölmiðlar eru markaðstorg hugmynda og skoðana í þjóðfélaginu. Ef menn vilja hafa áhrif á gang mála, leita þeir í fjölmiðla til að láta að sér kveða, fá þar birtar kjallaragreinar eða viðtöl við sig með hvatningu um að mæta á fundi.

Margar aðferðir eru við að meta fjölmiðla og bera þá saman. Fólk getur gert það sjálft. Það getur borið saman dagblöðin, fréttatíma og fréttatengda tíma í sjónvarpi. Efni fjölmiðlanna er daglega til rannsóknar í almenningsálitinu.

Meðal almennings ríkir skortur á skilningi á hlutverki fjölmiðla. Svo virðist sem fólk hafi síðan um 1990 ekki séð hagsmuni sína í stjórnarskrárbundnu prentfrelsi. Það lítur á pressuna sem hluta af vandamálinu, ekki sem hluta af lausninni.

Margir urðu reiðir, þegar fjölmiðlar birtu mynd af brenndum líkum manna, sem höfðu verið myrtir af skæruliðum í Írak. Margir urðu líka reiðir, þegar fjölmiðlar birtu myndir af hörmungunum í World Trade Center.

Efasemdir um smekkvísi hafa lengi loðað við fjölmiðla. Oliver Wendell Holmes varði fjölmiðla í þrælastríðinu: “Látum þá, sem vita vilja, hvernig stríð er, sjá þessar raðir af ljósmyndum.”

Smekkur er safn af gildum fólks, hegðun þess og siðum, sem sameinar hóp þess eða hópa. Þessi gildi eru ekki algild. Það, sem einu sinni þótti dónalegt, þykir nú eðlilegt og sjálfsagt. Áður dónalegur texti er orðinn hluti af orðabók fólks.

Kvikmyndir, leikrit, bækur og tímarit hafa tæpast skilið neitt eftir, sem nú á tímum mætti skilgreina sem dónaskap eða ruddaskap. Fyrir þá, sem það vilja, er til sjö milljarða dollara atvinnuvegur á sviði kláms af hvers kyns tagi.

Orðbragðið á segulböndum Nixons gerbreytti því, sem leyfilegt er að segja í fjölmiðlum. Sú breyting hefur orðið jafnt og þétt á síðustu þremur áratugum. Orð, sem alls ekki sáust á prenti fyrir þremur áratugum, þykja hversdagsleg í dag.

Í Lúkasarguðspjalli segir: “Því mun allt það, sem þér hafið talað í herbergjunum, heyrast í birtunni og það sem þér hafið hvíslað í herbergjunum, það mun kunngjört verða á þökum uppi.”

Nú stendur í Columbia Journalism Review um fund Karen Rothmeyer með Richard Scaife: “Rothmeyer: Herra Scaife, af hverju læturðu svo mikið fé renna til hægri málefna? Scaife: Farðu út, helvítis kommúnistakuntan þín.”

Sérstaða sjónvarps í þessum málum er sú, að það er talið ná til fólks, hvort sem það vilji eða ekki. Kapalstöðvar voru til skamms tíma einkum áskriftarstöðvar, sem fólk valdi eða hafnaði. Búið var til svigrúm fyrir klám kl. 00-06.

Bandarísk blöð birtu mynd af konu, sem hengdi sig í skógi í Bosníu. Art Neuman, umboðsmaður Sacramento Bee sagði: “Á 15 ára starfstíma mínum sem umboðsmaður hef ég aldrei áður séð aðra eins skriðu af mótmælum.

Það er staðreynd, að fólk lætur sér fátt um finnast, ef vafasamar myndir eru birtar í afþreyingarefni, svo sem bíómyndum og framhaldsþáttum, en rís upp til mótmæla, ef slíkar myndir eru birtar í fréttaefni.

Staðlar um siðsemi voru áður samdir af yfirstéttum og öldungum samfélagsins, sem nú hafa misst völd. Heimsstyrjaldirnar tvær voru vettvangur ólýsanlegrar grimmdar. Átti að leyna því fyrir lesendum og hlustendum?

Tillögur að birtingu efnis:
1) Er efnið hluti af mikilvægri sögu, þá er knýjandi að birta það.
2) Hafa ber hefðir fjölmiðilsins í huga.

3) Notkunin fer eftir eðli fjölmiðilsins og notendum hans og þá öllum notendum, ekki bara hávaðasams minnihluta.
4) Einkamál frægðarfólks geta varðað almannahagsmuni.

Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006