0501
Miðlunartækni
Ódýr margmiðlun
Tækni margmiðlunar er orðin svo góð og ódýr, að einyrkjar geta komið sér upp tækjum og hugbúnaði, sem gera þeim kleift að reka flestar tegundir nýmiðlunar. Tæknin nær yfir texta, hljóð, gröf og myndir, bæði kyrrmyndir og kvikmyndir.
Til að búa stríðsfréttaritara út til margmiðlunar, með gervihnattasíma og snjallsíma, tölvu, mynda- og kvikmyndavél, staðsetningartæki, hljóðtæki og klippitækni og allan hugbúnað til margmiðlunar, þarf ekki að leggja út meira en eina milljón króna.
Á námskeiði þessu verður bent á ýmsan tækjabúnað og hugbúnað, sem gagnast vel til margmiðlunar. Sagt verður frá kostnaði og virkni hverrar tækni eins og staðan var árið 2013. Ennfremur er hér tengt yfir í upplýsingar og myndskeið, sem fjalla um notkun búnaðarins.
Canon og Sony eru í fremstu röð framleiðenda myndavéla og kvikmyndavéla. Íslenzkir blaðaljósmyndarar nota helzt Canon EOS DSLR (Digital single-lens reflex camera). Notkun fagmanna á kvikmyndavélum skiptist milli Canon og Sony.
Bylting hefur orðið í notkun ljósmyndavéla til kvikmyndagerðar. Dýrar útgáfur af Canon EOS DLSR eða Canon Rebel eru komnar í notkun sem kvikmyndavélar, enda eru fæst myndskeið lengri en fimmtán mínútur. Þessar vélar kosta innan við 600.000 kr.
Í upphafi árs 2013 voru fagmenn spenntir fyrir nýrri kvikmyndavél, Black Magic Cinema Camera, sem er ný af nálinni, afar fyrirferðarlítil og létt í meðförum. Hún kostar um hálfa milljón og fer upp í heila milljón með ýmsum aukahlutum.
Bylting hefur líka orðið í myndavélum, sem aukabúnaði í snjallsímum og spjaldtölvum. Gæði mynda úr átta megapixla iPhone 5 snjallsímum og átta megapixla iPad 3 spjaldtölvum uppfylla við góða birtu kröfur um fréttamyndir og fréttamyndskeið.
Til skamms tíma voru vinsæl hljóðupptökutæki af gerðinni SoundDevices, sem kostuðu yfir milljón króna. En nú er komið Zoom, sem kostar 100.000 krónur með aukahlutum. Slík tæki bæta úr skák myndavéla, sem hafa fremur tæp gæði í hljóðupptöku.
Macintosh hefur löngum haft útgáfubransann sem sérgrein og er notuð af flestum fagmönnum í margmiðlun. Vinsælasta borðtölvan er iMac og hin nýju tæki iPhone og iPad koma líka að miklu gagni í nýmiðlun, ekki bara til mynda- og kvikmyndatöku.
Hugbúnaður til margmiðlunar og nýmiðlunar er margvíslegur. Í ódýrari kantinum pakkarnir iWork og iLife frá Apple og í dýrari kantinum er Adobe CS6 Creative Suite, sem þó er hægt að fá leigt fyrir sem svarar 6.300 krónum á mánuði, Creative Cloud.
Fyrir fólk, sem er á ferð og flugi, eru iMovie og iPhone/iPad góð og ódýr lausn. Tekur upp viðburði/viðtöl um iPhone/iPad, og síðan grófklippt á sjálfu tækinu meðan hann er að ferðast á milli staða. Síðan er einfalt að færa verkefnið yfir á tölvu til að ljúka því.
Í Adobe CS6 Creative Suite og Adobe CS6 Creative Cloud eru Photoshop, Illustrator, InDesign, Acrobat, Flash Pro, Dreamweaver, Premiere Pro, After Effects, Prelude, Encore og mörg fleiri forrit, sem nýtast flest vel til margmiðlunar og nýmiðlunar.
Til klippingar nota flestir fagmenn hér á landi Final Cut Pro 7 frá Apple, þótt það sé ekki lengur í framleiðslu eða sölu. Þeir eru ekki sáttir við vasaútgáfuna Final Cut X og munu sennilega flytja sig yfir í Adobe Premiere, sem er hluti áðurnefnds margmiðlunarpakka.
Til klippingar er einnig notað forritið Avid Media Composer, kostar 300.000 krónur. Að öðru leyti má segja, að Adobe sé alls ráðandi í hugbúnaði fyrir margmiðlun og aðra nýmiðlun fyrir fagfólk hér á landi. Apple forritin eru meira fyrir amatöra.
Í hljóðvinnslu er einkum notað Pro Tools DigiDesign, sem kostar innan við 100.000 krónur.
Við frágang myndskeiða og brellur er notað Adobe After Effects (í Adobe pakka).
Vistun myndskeiða er í ókeypis QuickTime, með viðhenginu .mov.
Önnur forrit til margmiðlunar og nýmiðlunar eru þekktir vinnuhestur í öðrum greinum. Þar má nefna töflureikninn Excel og gagnagrunnana Access og Filemaker Pro. Sumt af slíkum forritum er í Office pökkum frá Microsoft, Linux og Apple.
Aðrir vinnuhestar, sem nýtast margmiðlun og nýmiðlun eru Skype, sem gerir kleift að senda myndsímtöl langa vegu og DropBox, sem gerir kleift að senda þung skjöl, til dæmis kvikmyndir. Um allan þennan búnað er nánar fjallað aftar á þessu námskeiði.
Fjölmiðlungi á faraldsfæti gagnast fleiri tæki, svo sem staðsetningartæki, sem flest eru Garmin, og gervihnattasímar af gerðinni Iridium. Gervihnattasímar gera menn óháða símakerfum staðarins, þar sem samband getur rofnað, til dæmis á ófriðar- og átakatíma.
Vefhönnun er síðustu misseri nær eingöngu framkvæmd í ókeypis WordPress, sem er þægilegt í meðhöndlun og býr yfir tugþúsundum Plug-Ins, sem flest eru ókeypis. Spanna yfir flest hugsanleg sérsvið og séráhugamál, þar sem vefhönnun kemur við sögu.
Um allt sem skiptir máli í tækni margmiðlunar eru til fræði á veraldarvefnum, fyrirlestrar og myndskeið, sem sýna samanburð tækja og samanburð hugbúnaðar, kenna á einstök tæki og hugbúnað. Bezta leiðin til að átta sig á þessu er að skoða þessi myndskeið.
Fyrirlestrar námskeiðanna í fjölmiðlun eru fluttir í iMovie. Skyggnur eru gerðar í Keynote og vistaðar í iPhoto, þaðan sem iMovie dregur þær. Myndskeiðin eru vistuð í QuickTime. Í heild fara námskeiðin loks í LearnDash, sem er Plug-In í WordPress.
Í nýmiðlun eru atvinnutækifæri fyrir þá, sem vilja starfa við fjölmiðlun, þótt samdráttur sé í hefðbundinni fjölmiðlun. Annars vegar eru tækifæri í samþættingu hjá stórfyrirtækjum og hins vegar í starfi einyrkja. Í báðum tilvikum gildir að kunna alla tæknina.
Dæmigerður fjölmiðlungur í nýmiðlun er fréttaritari á afskekktum stað, sem þjónar mörgum tegundum fjölmiðla, hverjum með sínum hætti. Annar dæmigerður fjölmiðlungur er stríðsfréttaritarinn, sem er með alla tækni sína í bakpokanum.
Í fyrirlestrunum, sem hér fylgja, verður fjallað um hvern tækjabúnað og hugbúnað fyrir sig. Sagt er frá virkni hverrar tækni eins og staðan var árið 2013. Ennfremur verður tengt yfir í upplýsingar og myndskeið, sem fjalla um notkun búnaðarins. Góða skemmtun.