0509 iWork

0509

Miðlunartækni

iWork
Keynote, Pages, Numbers

Mesti kosturinn við forritin Keynote, Pages og Numbers er að þau er hægt að samkeyra við margmiðlunarforritin iMovie, iPhoto og GarageBand. Og að þau virka þvert á tölvugerðirnar frá Apple, það er Mac, iPad og iPhone. En þau hafa líka sjálfstætt gildi.

Keynote er forrit til skyggnugerðar fyrirlestra; Pages er ritvinnsla og umbrot og Numbers er töflureiknir eins og Excel. Áður voru þau sameiginlega í pakka, en nú eru þau seld hvert í sínu lagi á smáaura, $15-20 hvert forrit. Þau keppa líka við Microsoft Office.

Keynote er mjög svipað Power Point, sem margir þekkja. Opna má skjöl úr PowerPoint og einnig vista þau í PowerPoint. Boðið er upp á ótal þemu, sem gefa kost á glæsilegum margra lita framsetningum, þrívídd og yfirfærslum frá skyggnu til skyggnu.

Skyggnurnar má geyma á iCloud, þangað sem sækja má þær til notkunar á Mac, iPad eða iPhone. Allur flutningur gagna inn í Keynote og út úr Keynote er einstaklega einfaldur og sjálfgefinn. Vistað er í ótal formum, þar á meðal PDF, QuickTime og HTML.

Hægt er að nota tvo skjái við flutning fyrirlestra með Keynote. Á öðrum eru skyggnurnar sýndir og á hinum skjáborð eða minnispunktar fyrirlesarans eða næsta skyggna í röðinni. Þeir, sem kunna að nota PowerPoint, eiga auðvelt með að setja sig inn í Keynote.

Keynote er notendavænna en PowerPoint, hefur glæsilegri þemu og einfaldari vinnuferli, hentar betur í margmiðlun. Steve Jobs hefur ítrekað sýnt snilli Keynote í víðfrægum fyrirlestrum sínum á sýningum. PowerPoint hefur hins vegar betri tengingu við Excel.

Að grunni til eru skyggnurnar textafletir, en setja má inn gröf, til dæmis úr Numbers, og sérhannaða texta, til dæmis úr Pages. Ennfremur ljósmyndir og myndskeið, til dæmis úr iPhoto eða Aperture og loks hljómlist, til dæmis úr GarageBand.

Þegar Keynote-skyggnur eru fluttar yfir í iMovie er meðal annars hægt að setja þær innan í myndskeið eða ofan á jaðra þeirra eða skipta myndfletinum milli skyggnu og myndskeiðs. Í þessum fyrirlestrum var valið að setja þær innan í myndskeiðið.

Á Amazon fást stafrænar kennslubækur, m.a.
Help Me! Guide to Keynote $7
Presentation Zen $15
Keynote Like A Pro $25

Í Google er hægt að finna sýnikennslu:



Pages er í senn ritvinnsla og umbrot með ótal forsniðnum þemum, til dæmis nafnspjöldum, umslögum, starfsumsóknum. Eins og Keynote er hægt að geyma skjölin á iCloud og kalla þau fram hvar sem er í heiminum.

Sjálfur nota ég ekki Pages til ritvinnslu, þótt ég noti Mac og iPad. Fremur nota ég einfaldara forrit, TextEdit, sem framleiðir bara einfaldan texta. Einstaka sinnum flyt ég þann texta yfir í Pages, er ég þarf að senda virðulegt bréf eða forhönnuð skjöl.

Miklu frekar fer textinn frá mér beint til sértækra þarfa, svo sem í Keynote til að birtast á skyggnum eða til InDesign til að birtast á bókarsíðum. Mér finnst TextEdit skjótara í vinnslu, þegar ég er bara að framleiða texta. Síðan nota ég þann texta til síðari úrvinnslu.

Hægt er að draga gögn úr öðrum forritum Apple inn í Pages, til dæmis ljósmyndir og gröf. Auk þess hefur Pages allt sem þarf til samvinnu margra aðila, til dæmis með breytilegum lit hinna ýmsu útgáfa textans. Þá er hægt að sjá, hvað kemur frá hvaða höfundi.

Pages hefur tvær notendaskeljar, aðra fyrir innskrift og hina fyrir umbrot. Í innskriftinni eru neðanmálsgreinar, síðuhausar, listar með yfir- og undirflokkum. Í umbrotinu hefurðu full yfirráð yfr staðsetningu og útliti texta og mynda og grafa.

Pages styður ekki lengur OpenDocument formið og er þar á ofan takmarkað við Mac OS X, styður ekki iOS á iPad og iPhone. Ekki er vitað, hvernig stendur á þessu, en það rýrir óneitanlega notagildi forritsins í heimi, þar sem samgangur skiptir meginmáli.

Á Amazon fást stafrænar kennslubækur, m.a.
iWork ’09: The Missing Manual $24
My Pages $12
iWork for Mac OSX Cookbook $21

Í Google finnst sýnikennsla:



Numbers er töflureiknir, sem líkist Excel. Töflur eru þó ekki meginatriði Numbers, heldur ein af fleiri birtingarmyndum forritsins. Hægt er að nota Numbers eins og Excel, en einnig er hægt að prófa sig áfram með aðrar birtingarmyndir, kort, gröf og texta.

Í Numbers er meiri áherzla lögð á framsetningu og útlit í samræmi við kröfur um framsetningu talna í skyggnum fyrirlestra. Taflan er ekki lengur meginatriði, heldur ein af mörgum birtingarmyndum. Hver birtingarmynd getur falið í sér margar töflur.

Formúlur má skrifa sem íkona, táknmyndir, sem má draga til um töflurnar. Myndræn framsetning á reikniformúlu auðveldar mörgum meðferð skjalanna og getur dregið úr villum. Að þessu leyti minnir Numbers á suma gagnagrunna, þar sem unnið er með íkonum.

Uppbygging Numbers er þess eðlis, að ekki er nauðsynlegt, að nein tafla sé í framsetningunni. Hún getur falizt til dæmis eingöngu í ljósmyndum og teikningum. Því segja sumir, að Numbers sé umbrotsforrit og skyggnuforrit í dulargervi töflureiknis.

Á Amazon fást stafrænar kennslubækur, m.a.
Á Amazon fást stafrænar kennslubækur, m.a.
Help Me! Guide to Numbers $6
iWork for Mac OSX Cookbook $2

Í Google finnurðu sýnikennslu:



Næst víkur sögunni að hlaðborði margmiðlunar, Adobe CS6 Creative Suite/Cloud. Það er hópur forrita, sem meðal annars felur í sér Photoshop, Illustrator, InDesign, Acrobat, Flash Pro, Dreamweaver, Premiere Pro, After Effects, Prelude og Encore.