0603 Reynir Traustason

0603

Rannsóknir
Reynir Traustason

Reynir Traustason, ritstjóri DV, er þekktasti rannsóknablaðamaður landsins. Hann sagði frá vinnu-brögðum sínum á námskeiði, sem ég var með í rannsóknablaðamennsku í Háskólanum í Reykjavík 2006. Við það tækifæri urðu þessar glósur til:

Árna Johnsen málið var ekki roka, heldur mál, sem fór á leiðarenda, og Árni sagði af sér. Meðferð málsins minnir á mál Ólafs Skúlasonar biskups, sem líka fór á leiðarenda. Enginn þagnarmúr fjölmiðla og fjölmiðlaandstaða var máttlaus.

Mál biskups fór í siðanefnd þjóðkirkjunnar á bakinu á kvörtun á presti fyrir að hafa ekkert gert í kvörtun sóknarbarns. Ekki var farið offari í fyrirsögn. Helgina eftir var viðtal við konurnar þrjár. Það var sprenging, sem lokaði málinu.

Stóra málið er þetta: Er framsetningin þannig, að málið kunni að virka öfugt? Fer málið að snúast um fjölmiðilinn, en ekki um málsefnið. Biskupsmálið og Árnamálið fóru þannig, að engin umræða varð um fjölmiðilinn, aðeins um málsefnið.

Það gerðist líka með Árnamálið. Samfélagið tók umfjöllunina gilda. Var líka í Landssímamálinu. Þar sótti ég gögn í bókhald Landssímans. Má heita lögbrot, en málið snerist þó ekki gegn blaðinu. Einn útreikningur í dollaraverði varð til vandræða.

Þá notaði samgönguráðherra dollarareikninginn og hjakkaði á því, að blaðið færi rangt með. Þetta var ekki villa hjá blaðinu, en túlkunarmunur gaf ráðamanni um tíma tækifæri til að reyna að drepa málinu á dreif og gera fjölmiðilinn ótrúverðugan.

Aldrei tími á fjölmiðlum. Þrír menn höfðu verið með fréttaskot í höndunum án þess að nokkuð kæmi út úr því. Ég átti léttara aðra hverja viku og notaði það manískt til rannsóknaverkefna á sviðum, sem ég hafði áhuga á.

Rannsóknablaðamennska tekur allan sólarhringinn. Hún er þannig séð lífsstíll. Þú ert ekki um leið að skrifa eindálka. Ég hringdi látlaust í þrjá sólarhringa. Einn hafði séð Árna, en það var ekki nóg. Það var þó komið mál, sem hefði haldið.

Þar sem Árni var pólitískt verndaður varð að fara varlega í málið og kanna það betur. Í tvo daga var ég við það að gefast upp. Þá kom í ljós bílstjóri, sem hafði varðveitt einn afhendingarseðil, undirritaðan af Árna og með gemsanúmeri hans.

Bílstjórinn kom seðlinum til blaðsins. Þann dag vissi Reynir að málið var tilbúið. Ákveðið, hvernig átti að setja blaðið fram. Dreymdi fyrirsögnina: Starfsmaður BYKO klagar þingmann. Heil síða af rökstuðningi og mynd af afhendingarseðlinum. Pottþétt.

Bls. 6 í DV var með þessu. Ég var feginn að Óli Björn var í sumarfríi, því að á hans tíma vorum við í daðri við valdið. Í stað heiðarlegra sjónarmiða var kominn þungi á að passa að stíga ekki á sjálfstæðismenn. Fréttin fór út, gegnheil frétt.

Útvarpið tók málið strax upp, meðal annars með aðstoð minni. Næstu daga komu enn fleiri atriði í ljós. Raðast inn málin eitt af öðru. Á endanum sagði Árni af sér eftir viku.

Morgunblaðið sagði frá málinu daginn eftir DV og sagði það vera misskilning, sem yrði leiðréttur. Þá byrjaði djammið. Mogginn hélt sínu striki og þetta var mesta áfall hans, það mál, þegar hann braut flestar reglur.

Við sögðum frá dúknum og Mogginn sagði, að dúkurinn væri í Gufunesi og hefði aldrei verið í Eyjum. Þann morgunn hringdi ég og náði samandi við sendibílstjóra, sem hafði sótt dúkinn frá Eyjum og flutt hann í Gufunes.

Þetta var aðalfrétt okkar: Dúkurinn til Eyja og frá Eyjum. Þar með var málinu lokið. Þetta er dæmi um umhverfið, þar sem fjölmiðlar telja sér skylt að taka afstöðu, kannski andsnúna rannsóknablaðinu. Menn þurfa að hafa slíkt í huga.

Okkur Jónas hefur greint á um, að ekki megi sigla undir fölsku flaggi. Ég tel það heimilt undir vissum kringumstæðum. Þú verður að hafa ástæðu og þroska til að gera það. Stundum nærð þú ekki samfélagslega mikilvægum atriðum án falska flaggsins.

Við þurfum að vera sveigjanleg í afstöðu okkar til falska flaggsins, falinna myndavéla og nafnlausra heimilda. Stundum eiga þessi atriði rétt á sér, stundum ekki. Mörg mál opnast, ef þú ert ekki algerlega löglegur. T.d. Landssímamálið.

Í dóp-innflutningsmálinu var farin leið, sem mörgum fannst umdeild. Var það galið, ef ég er að búa til leikrit. Gaf mig fram í hliðinu. Allt var tekið á mynd, á földum myndavélum, þegar ég var að versla við dópsalann. Var með fyrrverandi smyglara með mér.

Ég sá ekki fyrir mér fjölmiðlafár og að ég yrði sakaður um að hafa farið með eiturlyf gegnum toll. Í Noregi fóru blaðamenn með vopn gegnum flugvöll. Hérna er umhverfið svo skrítið að þú veist ekki nema þú sjálfur verði umfjöllunarefnið.

Ef málin þróast ekki rétt, geturðu orðið biskupsníðingur. Þá hverfur mál hans og þitt mál er komið í sviðsljósið. Mér er sama um ímynd mína. Ég gat alltaf réttlætt þessa kókaínferð. Ég vildi upplifa allan ferilinn. Í Keflavík snerist þetta um sært stolt tollvarða.

Rannsóknablaðamenn þurfa að glíma annars vegar við þöggun og hins vegar við mótleiki annarra fjölmiðla, t.d. Morgunblaðsins. Þöggunarlögmálið er mjög sterkt. Í Árnamálinu lugu margir kruss og þvers, til dæmis yfirmenn í Byko.

Þú verður að hringja aftur og aftur, krosshringja í menn. Aldrei að gefast upp, fyrr en þú sérð, að málið heldur ekki. Í þessu fagi verður þú að vinna 24 tíma á sólarhring. Þú verður að hafa manískan áhuga. Þú verður að vera kvæntur sjómannskonu.

Fjöldi mála er óupplýstur. Í þessu samfélagi eru margir verri en Árni Johnsen. Hann var bara óvenjulegur klaufi. Hann kunni ekki að fela sporin. Stærri fiskar voru þá að synda í sollinum heldur en Árni. Við upplýsingum ekki nema brot af vandanum.

Barnaníðingurinn á Ísafirði. Málið varð fáránlegt eins og það snerist upp á DV. Framsetningin var vafasöm. En kjarni málsins var þó sá, að allt sem stóð í blaðinu var kórrétt. Í öllum smáatriðum. Allt í einu var blaðið orðið að stórglæpamanni.

Allt þetta þarf maður að hugsa. Hvar verður maður laminn niður. Er líklegt, að maður verði laminn niður. Eitt mál blómstrar, í öðru verður múgæsingur. Ísafjarðarvendingin var mér alveg óskiljanleg. Við búum við óútreiknanlegt samfélag.

Húsleit var búin, lögreglurannsókn, mikill fyrirgangur á Ísafirði. Blaðið var ekki að brjóta neinar reglur, en framsetning blaðsins var ögrandi. Þetta er það hættulega, sem rannsóknablaðamennskan glímir við. Þínu góða máli er klínt framan í þig.