0604 Forgöngumenn I

0604

Rannsóknir
Forgöngumenn I

Mig langar til að segja ykkur frá nokkrum greinum úr Tell Me No Lies, þar sem fjallað er um ýmsar frægustu rannsóknafréttir í sögu blaðamennskunnar. Ég stikla á stóru í nokkrum greinum. Aðferðir höfundanna eru af ýmsu tagi.

Þetta er ekki kennslubók í rannsóknablaðamennsku og fjallar lítið um aðferðafræði hennar. Hún er fyrst og fremst skrifuð til að vekja athygli á áhrifum hennar. Hún er að þvi leyti gagnleg, að hún minnir á atvik í sögu rannsókna.

Flestir höfundanna í þessari bók hafa ekki látið sér nægja að skrifa greinar eða gera þætti, heldur hafa þeir líka skrifað bækur. Þeir hafa sjálfsagt flestir þeirra mestar tekjur af sölu bóka, sem vakið hafa mikla athygli.

Til dæmis hefur Bob Woodward skrifað ótal bækur, nú síðast eina um stjórnarfar George W. Bush, “State of Denial”. Slíkar bækur seljast yfirleitt í töluverðu upplagi.

Martha Gellhorn
Dachau, 1945
Blaðamaður á vettvangi.

Gellhorn hefur komið víða við á ferli sínum, skrifar um örlög almennings í verkfallsbæjum í Wales, í sprengdum bæjum í Írak og í þorpum í Panama. Á síðasta staðnum gekk hún hús úr húsi og fann út, hve mörg voru fórnardýr Noriega.

Í bókinni er grein um komu hennar til útrýmingarbúðanna í Dachau strax eftir uppgjöf Þjóðverja. Hún tók viðtöl við lækna, prest og önnur vitni að stríðsglæpum nasista og lýsir ömurlegum aðstæðum í búðunum.

Wilfred Burchett
The Atomic Plague, 1945
Blaðamaður á vettvangi.

Burchett er ástralskur blaðamaður, sem í lok seinna stríðsins vék sér undan opinberri uppgjöf Japans og fór í staðinn til Hiroshima. Þar sá hann eyðileggingu af völdum kjarnorkusprengjunnar og komst að raun um, að fólk var að deyja úr geislun.

Hernámsyfirvöld neituðu nákvæmum upplýsingum hans um fjöldadauða fólks af völdum geislunar og Hiroshima var lokað fyrir blaðamönnum. Grein hans slapp þó gegnum ritskoðunina og birtist í Daily Express. Fréttin um geislun reyndist rétt.

Edward R. Murrow
The Menace of McCarthyism, 1947-1954
Blaðamaður hengir mann í eigin orðum hans.

Murrow var umsjónarmaður fréttaskýringaþáttarins See It Now. Einn þátturinn fjallaði um nornaveiðar McCarthy gegn meintum kommúnistum. Hann var byggður upp á tilvitnunum í nornaveiðarann, sem opinberuðu þversagnir í hans eigin orðum.

James Cameron
Through the Looking-Glass, 1966
Blaðamaður á hinum staðnum í stríði.

Cameron var fyrsti vestræni blaðamaðurinn, sem komst til Hanoi og gat flutt fréttir af Víetnamstríðinu frá þeim sjónarhóli. Hann lýsti allt öðru vísi stríði en því, sem starfs
bræður hans í Saigon lýstu og var kallaður landráðamaður.

Hann lýsti gangi lífsins í Norður-Víetnam og skýrði, hvers vegna Bandaríkin mundu ekki geta unnið stríðið. Það væri ekki styrjöld kommúnista, heldur frelsisstríð fyrrverandi nýlendu. Bandarískar loftárásir á fólk stöppuðu í það stálinu. (Ath. J.Simpson)

Seymour M. Hersh
The Massacre at My Lai, 1970
Blaðamaður tekur viðtöl við alla.

Hersh er þekktasti rannsóknablaðamaður heims, kom upp um fjöldamorðin í My Lai, varð síðan blaðamaður við New York Times, þar sem hann ljóstraði upp um fjölmörg hneyksli af ýmsu tagi, var til dæmis fyrstur til að segja frá segulböndum Nixons.

Hersh kom líka upp um leynilegar loftárásir Bandaríkjanna á Kampútseu, njósnir leyniþjónustunnar CIA í Bandaríkjunum, lykilatriði í Watergate-málinu og forustu CIA og Henry Kissinger í blóðugri valdatöku Pinochet í Chile.

Hersh ferðaðist 50.000 mílur um Bandaríkin þver og endilöng til að ná viðtölum við bandaríska hermenn, sem höfðu tekið þátt í fjöldamorðunum í My Lai. Á þeim viðtölum byggði hann lýsingu á glæpnum frá einni klukkustund til annarrar.

Í textanum byggir hann upp heildstæða mynd af orgíu bandarískra hermanna, sem gengu hús úr húsi til að myrða gamalmenni, konur og kornabörn. Lýsing hans sýnir um leið, að þetta var ekki einstakt tilvik, heldur partur af hversdagsleikanum.

Günther Wallraff
Lowest of the Low (Ganz unten), 1985
Blaðamaður dulbýst.

Wallraff er þekktasti rannsóknablaðamaður Þýskalands. Hans aðferð er að dulbúa sig og fá vinnu hjá fyrirtækjum, sem hann er að rannsaka. Hann skrifaði bók um Bild Zeitung og aðra bók um vinnuskilyrði erlendra farandverkamanna hjá Thyssen.

Greinin í bókinni fjallar um vinnu hans á vegum starfsmannaleigu hjá Thyssen. Hann segir frá kynþáttahatri og alls konar öðrum hremmingum, sem hann varð fyrir, svo og heilsuspillandi vinnu í asbestryki. Bók hans um það vakti heimsathygli.

Brian Toohey & Marian Wilkinson
The Timor Papers, 1987
Blaðamenn komast yfir leyniskjöl.

Toohey og Wilkinson fengu bandarísk leynigögn, þar á meðal daglega fréttabréfið, sem forseti Bandaríkjanna fékk frá leyniþjónustunni CIA. Ekki kemur fram, hvernig þau náðu gögnunum, þar sem fjallað er um innrás Indónesíu á Austur-Timor 1975.

Í greininni er fjallað um feril málsins frá því að Indónesía byrjar að undirbúa innrásina, viðbrögð stjórnvalda í Bandaríkjunum og Ástralíu og um samstarf þeirra um að láta þessa vitneskju fram hjá sér fara og gera ekkert í málinu.