0607
Rannsóknir
Skjöl og eftirlit
“Rannsóknablaðamennska byggist á frumkvæði blaðamannsins, fjallar um mikilvæg mál, sem skýra tilveruna fyrir notendum. Og oftast vilja viðfangsefni rannsóknarinnar að málið fari áfram leynt.”
Einnig má skilgreina rannsóknablaðamennsku svo, að hún grafi undir yfirborðið og aðstoði þannig fólk við að skilja, hvað gerist í sífellt flóknari heimi. “Grafandi blaðamenn”. Ekki er þá nauðsynlegt, að blaðamaðurinn þurfi að yfirvinna fyrirstöðu.
Tæki hans eru fyrst og fremst viðtöl, skjöl, eftirlit og kannanir. Með þessum tækjum getur hann starfað innan ramma laganna og haft mikið svigrúm til að grafa upp hluti, sem ekki liggja á lausu á yfirborðinu.
2) Skjöl. Þau eru þarna og þau skipta ekki um skoðun, nema þeim sé eytt, sem er ólöglegt. Á síðasta áratug hefur aukinn fjöldi skjala komist í stafrænt form, sem gerir kleift að leita að orðum og framkvæma ýmsa reiknivinnu.
Skilja þarf skjöl og samhengi þeirra við málið til að þau verði gagnleg. Það er ekki hægt að spyrja skjöl. Fyrst og fremst er stuðst við opinber skjöl, svo sem framburði í dómsal, fundargerðir, eftirlitsskýrslur, afsöl, samninga og leyfi.
Önnur áhugaverð skjöl eru hótelskrár, sundurliðaðir símreikningar, bréf, tölvubréf, reikningar fyrir opinbera þjónustu, sjúkraskýrslur, skattskrár, eldri fréttir, starfsmannaskrár, krítarkortayfirlit, fasteignaskrár, bifreiðaskrár.
Nú á tímum eru víða í Bandaríkjunum tölvur í afgreiðslu stofnana, þar sem fólk getur sest niður og flett í opinberum skjölum, til dæmis eftir nöfnum eða kennitölum (social security no.). Víða er hægt að fá diska með eldri skjölum og jafnvel netsamband.
3) Eftirlit. Rannsóknablaðamenn vilja sjá aðstæður á staðnum og í nágrenni hans. Þeir hringja bjöllum til að afla vitna. Þetta gefur betri yfirsýn og kann að leiða til nýrra upplýsinga. Getur fljótt orðið þolinmæðisverk.
Eftirlit getur falist í að elta bíl eða fylgjast með ferðum fólks um anddyri stofnana eða fyrirtækja, skrá bílnúmer á bílastæði, skrá símanúmer á vörubílum. Einnig eru teknar myndir til að búa til skjöl, sem síðan er hægt að nota.
Stundum hafa rannsóknablaðamenn leynt stöðu sinni til að geta hlustað á eða séð það, sem ekki liggur á lausu, til dæmis ólöglega eða ósiðlega sölu. Þeir hafa fengið sér vinnu á stöðum, sem þeir hafa verið að fylgjast með.
Flestir fjölmiðlar banna slík vinnubrögð, af því að mörgum lesendum og notendum finnst þau vera vafasöm. Þó hafa verið veitt Pulitzer-verðlaun fyrir slíka vinnu og sumar af þekktustu uppljóstrunum í rannsóknablaðamennsku hafa fengist þannig.
Siðferðilegar spurningar vakna, þegar blaðamaður segir ekki, hver hann er og hvaða hlutverki hann gegnir. Einnig hefur komið fyrir, að dómstólar líti ekki mildum augum á fullyrðingar um, að dulargervi hafi verið nauðsynlegt í stöðunni.
4) Kannanir. Þetta er athugun á úrtaki í samræmi við stærðfræðilega tölfræði félagsvísinda. Slíku úrtaki fylgja vinnureglur, sem blaðamaður verður að fylgja, jafnvel þótt könnunarfyrirtæki geri það ekki.
Kannanir leiða oft til tölfræðilegra niðurstaða og sýna tölfræðilegt samhengi, þegar ekki er hægt að finna orsakasamhengi. Einnig er hægt að bera saman útgjöld ýmissa aðila til að finna óeðlileg frávik frá meðaltali. Sjá til dæmis grænubaunamálið.
Þorsteinn Sæmundssson stjarnfræðingur kannaði bensínreikninga Steingríms Hermannssonar hjá Rannsóknaráði og fann út, að þar voru tveir toppar, eftir stærð bensínageyma á bíl hans og bíl konu hans. Þorsteinn var í stjórn ráðsins og tók hlutverk alvarlega.
Algengt er að bera saman tvo lista til að finna, hvað er sameiginlegt með þeim. Þannig eru listar yfir launahækkanir í stofnun bornir saman við lista yfir þá, sem hafa greitt í kosningasjóði. Í Bandaríkjunum eru slíkir listar opnir, en hér eru þeir ekki til.
Skjaldarlög eru þau lög kölluð í sumum ríkjum Bandaríkjanna, sem heimila blaðamönnum að leyna heimildamönnum sínum til að auðvelda þeim að gefa upplýsingar, sem koma að gagni í rannsóknablaðamennsku. Svipuð ákvæði eru hér á landi.
IRE er skammstöfun fyrir Investigative Reporters and Editors, sem er félag blaðamanna á þessu sviði. Það var stofnað eftir morðið á Don Bolles til að ljúka verki hans. Síðan 1983 hefur þessi handbók komið út á vegum þessa félags.
Bókinni er ætlað að vera handbók fyrir rannsóknablaðamenn. Hún sýnir þeim, hvernig aðrir hafa fjallað um svipað efni áður. Hún vísar til hundraða skjala, sem notuð hafa verið og flytur tillögur um, við hvaða heimildir megi tala. Oft má gera svipað hér.
Þetta er í senn handbók og kennslubók, sem nú kemur út í fjórðu útgáfu. Í þessari útgáfu er stóraukin áhersla lögð á notkun tölvutækni til útreikninga, notkun töflureikna og gagnagrunna. Sérstakt félag blaðamanna er um það efni, NICAR.
Brant Houston, Len Bruzzese & Steve Weinberg,
The Investigative Reporter’s Handbook
A Guide to Documents, Databases and Technologies
4th Edition
2002