0616 Lögregla

0616

Rannsóknir
Lögregla

Rannsóknir á löggæslu eru einna erfiðastar. Ein ástæðan fyrir því er andúð lögreglumanna á öðrum blaðamönnum en þeim, sem eru áberandi lögreglusinnaðir. Aðrir eru skipulega útilokaðir, blekktir og jafnvel áreittir.

Lögreglustöðvar eru reknar með eins konar hernaðaranda, þar sem menn þétta raðirnar gegn óvelkomnu fólki. Þetta er meira áberandi hjá lögreglunni en öðrum stofnunum hins opinbera. Lögreglan er ríki í ríkinu. Þar af leiðandi spillt.

Blaðamenn á lögregluvakt eiga erfitt með að fá hina hliðina. Fangelsuðum mönnum er haldið frá blaðamönnum og margir þora ekki að tala af hræðslu við lögregluna. Hugarástandi lögreglumanna er lýst hjá Kenney og McNamara í Police and Policing.

Notendur fjölmiðla eru líka afar eindregnir í skoðunum. Stór hluti fólks stendur alltaf með löggunni, af því að hann telur róttækar lögregluaðgerðir vera það, sem dugar gegn glæponum. Hinum megin eru þeir, sem treysta ekki löggunni til neins.

Öryggisvarsla á vegum einkafyrirtækja gegnir svipuðu hlutverki og gefur mikið tilefni til rannsókna. Reynslan sýnir, að rótlausir og ofbeldishneigðir sækja í störf við öryggisvörslu, sumpart fólk á sakaskrá.

Hvernig eru lögreglumenn ráðnir? Eru ferilskrár þeirra sannreyndar? Fara þeir í lygamæli? Er tekið fíkniefnapróf á þeim? Sálfræðikönnun? 10% lögreglumanna í Miami voru reknir, áminntir eða stungið í fangelsi. Sérsveitir eru sérvandamál.

Eru menn hækkaðir í tign af málefnalegum ástæðum eða fyrir klíkuskap? Er símenntun í gangi? Hvað með yfirmanninn, í hvaða tengslum er hann? Er mórallinn góður á lögreglustöðinni? Er mikið um yfirhilmingar með brotlegum löggum.

Víða í Bandaríkjunum eru yfirheyrslur teknar upp á myndband til að hægt sé að skoða þær, ef upp koma kenningar um rangar aðferðir við yfirheyrslu. Erfitt er að henda reiður á lögregluofbeldi, af því að fórnardýrin þora ekki að segja frá.

Hvað kemst upp um mikinn hluta afbrota á hinum ýmsu sviðum? Hvernig fara málin fyrir dómstólum? Eiga lögreglumenn erfitt með að fara eftir gildum leiðum í ýmsum tegundum afbrotamála, til dæmis nauðgunum? Eru gögn löggunnar ekki tekin gild?

Heimilisofbeldi:
Algengt er, að fólk hringi og saki annað fólk á heimilinu um ofbeldi, en vilji svo ekki kæra, þegar til kastanna kemur. Einnig er spurt um, hvort lögreglan veiti næga vernd gegn eftirför.

Fíkniefni:
Reiðufé er notað í fíkniheiminum. Því þarf þar að elta peningana og skilja, hvernig peningaþvottur fer fram. Hvernig stendur á, að lögreglan nær sjaldan þeim, sem eru ofan við smásöluna, til dæmis stórum heildsölum? Sama hér.

Möguleikar á spillingu eru sérstaklega miklir í fíkniefnaeftirliti. Í Bandaríkjunum eru margir fíkniefnalögreglumenn sjálfir í fíkniefnum og taka þátt í dreifingu og sölu þeirra. Eru tekin þvagsýni af þessum lögreglumönnum? Fangavörðum?

Notkun uppljóstrara er mikil. Eru þeir áreiðanlegir? Leiða þeir til rangra dóma? Hafa sönnunargögn verið fölsuð? Eru menn taldir sekir uns sakleysi þeirra er staðfest?

Klám:
Vændiskonur eru oft misnotaðar af lögreglumönnum. Hvar fer vændi fram? Eru vændiskonur í þrælkun? Hver verndar súlustaðina? Hverjir eru í barnaklámi?

Skipulagðir glæpir:
Hvaða mafíur eru starfræktar? Er það aðallega sú ítalska, eða eru komnar mafíur frá öðrum löndum, Rússlandi, Kína, Víetnam? Að hversu miklu leyti eru þær komnar í hefðbundinn atvinnurekstur? Litháen hér á landi?

Hvítflibbaglæpir:
Lögreglan skortir oft þekkingu til að eiga við hvítflibbaglæpi. Er beðið eftir flautublásurum? Er samsæri milli hvítflibba og blýantsnagara? Hvað með glæpi á veraldarvefnum?

Stuldur:
Hvar eru mörk þess, sem talið er taka því að rannsaka? Hvert fer þýfið í sölu? Hvað er gert við stolna bíla? Á eigandinn í fjárhagslegum erfiðleikum?
Af hverju finnast ekki stolnar tölvur? Hvert fara þær?

Íkveikja:
Á gráu svæði milli slökkviliðs og lögreglu. Hvernig standa tryggingar? Er fyrrverandi starfsmaður á ferð? Var verið að leyna öðrum glæp, t.d. í bókhaldi?

Týnt fólk:
Finnst það? Hvenær hefst leit? Stolnar kennitölur.
Sprengjur:
Eru ofbeldishneigðir öfgahópar á ferð? Er það kynþáttahatur, trúarhatur, pólitískt hatur?

Umferðin:
Hversu margir ökumenn eru tengdir mörgum umferðarlagabrotum? Hvað er gert í síbrotum á þessu sviði? Hvernig er staðan á tryggingum bíla? Drukknir ökumenn, hvað er gert við síbrotum. Hvernig er samband löggu og kranabíla?

Annað:
Hver er menntun stefnuvotta og hvernig starfa þeir? Hlaðast stefnur upp?
Hvernig er háttað vistun málsgagna, til dæmis fíkniefna?
Spilla lögreglumenn vettvangsrannsókn?

Er hægt að treysta rannsóknadeildinni?
Hvernig er svörun við 112 símtölum?
Hversu góð er skýrslugjöf lögreglumanna?
Hvernig eru skýrslurnar skipulagðar?

Brant Houston, Len Bruzzese & Steve Weinberg,
The Investigative Reporter’s Handbook
A Guide to Documents, Databases and Technologies
4th Edition
2002