0624
Rannsóknir
Sjónvarp
Hálftíma fréttaþáttur í sjónvarpi er með svipuðum texta og tvær síður í dagblaði á Íslandi. Það er því mun meira pláss fyrir rannsóknablaðamennsku í dagblöðum heldur en í sjónvarpi. Dagblöð geta líka birt eindálka í eyður stórfrétta, sjónvarpið síður.
Erfiðara er að koma fyrir framhaldssögum í sjónvarpsfréttum. Dagblöð geta birt milliefni án mikils tilgangs nema til að brúa bil, en sjónvarp verður að hafa spennandi nýbreytni í hverri frétt. Sjónvarpið þarf líka að hafa nýtt myndefni við hverja birtingu.
Stundum hafa blaðamenn á dagblaði og sjónvarpi samstarf um birtingu rannsóknar, þannig að dagblaðsmaðurinn skilur eftir hluta málsins til að gefa sjónvarpsmanni sérstakan fókus, sem er annar en sá upprunalegi.
Rannsóknablaðamennska hefur ekki verið mikið í útvarpi. Jafnvel fréttastöðvar hafa átt í erfiðleikum við að finna tíma frá dagbundnum fréttum til að taka langtímamál fyrir í rannsóknum. Samt á ekkert að vera þeim til fyrirstöðu í útvarpi.
Sjónvarpið sýnir myndir af málsaðilum og aðstæðum. Það getur sýnt eitt myndefni meðan sagt er frá öðru og þannig flutt söguna hratt, þegar lítill tími er til umráða. Frá sumu þarf raunar ekki að segja, það er nóg að sýna það.
Sama hlutverki geta myndir og grafík í dagblaði þjónað. Þær gefa tilefni til skoðunar. Oft er mikil vinna lögð í grafík, sem getur sagt sögu á auðveldari hátt en hægt er í hreinum texta. Fréttastofur á borð við Reuters senda frá sér mikið af flóknum gröfum.
Rannsóknir sjónvarps og dagblaða eru svipaðar, en framsetningin misjöfn. Myndir og grafík bæta söguna og setja fram sönnunargögn. Ekki má líta framhjá tímaritum, bókum og útvarpi sem fjölmiðlum fyrir rannsóknablaðamennsku.
Rannsóknablaðamaður falsar ekki myndefni frekar en hann falsar önnur skjöl, sem hann notar. Heiður hans sem blaðamanns og sjónvarpsstöðvarinnar er í veði. Þeir, sem harma fréttina, munu nota það til að varpa rýrð á þessa aðila. “Docudrama” er hafnað.
Dæmi um rannsóknablaðamennsku: Sjónvarpsfrétt um ofbeldishneigðan geðsjúkling, sem fékk vinnu sem öryggisvörður hjá hverju fyrirtækinu á fætur öðru, framdi ofbeldi og myrti mann.
Málið tók ekki nema 5,5 mínútur í flutningi, þar á meðal 0,5 mínútur í kynningu akkerismanns. Engar myndir voru notaðar úr safni, heldur allar teknar í tilefni fréttarinnar. Yfirskrift málsins var: Vopnaður og hættulegur.
Vinnan við þessa frétta var dálítið öðruvísi en hún hefði verið fyrir dagblað. Minna var sóst eftir smáatriðum, af því að sagan varð að vera stutt. Blaðamenn náðu skjölum, töluðu við sérfræðinga og fórnarlömb og röðuðu málinu skipulega upp. Sértæk saga.
Meginvinnan fólst í að rekja feril mannsins í starfi hjá nokkrum öryggisfyrirtækjum, segja frá vandamálum, sem hann olli á hverjum stað, og hvernig honum tókst alltaf að fá nýja vinnu í öryggisvörslu, þrátt fyrir fortíðina. Almennum atriðum sleppt.
Dagblað mundi frekar gefa sér pláss til að fara úr því sértæka yfir í það almenna, til dæmis með tölfræði um útbreiðslu vandans, svo að lesendur geti áttað sig á, hversu þjóðfélagslega alvarlegur hann er.
Þótt stjórnir sjónvarpsstöðva hafi sumar lítinn áhuga á rannsóknablaðamennsku og vilji jafnvel bregða fæti fyrir hana, geta blaðamenn stundað hana á afmörkuðum sviðum, svo sem í neytendamálum, heilsumálum og í samskiptum sveitarfélags og ríkis.
Ástæðan fyrir tregðu sjónvarpsstöðva er, að ráðamenn þeirra telja, að auglýsendur vilji heldur vera innan um rólegt efni heldur en órólegt efni. Rannsóknir teljast vera frekar órólegt efni. Þetta getur skaðað rannsóknablaðamennsku.
Meiri áhugi er á rannsóknum í könnunarvikum, þegar áhorf er mælt. Þá vilja menn gjarna hafa rannsóknablaðamennsku, af því að reynslan sýnir, að hún hefur meira áhorf en annað efni stöðvanna. Er þá fréttaefnið mikið auglýst fyrirfram, ekki Öskubuska.
Netstöðvarnar hafa flestar fasta rannsóknaþætti. Elstur og þekktastur er 60 Minutes hjá CBS. Hver saga fær góðan tíma, oft 20 mínútur. Þótt hraði sögunnar sé mikill, er tími fyrir viðtöl, sem eru lengri en hljóðbiti, og fyrir útskýringar.
Sumt sjónvarpsefni er “slam bang”, sameinar aðferðafræði fréttatímarita við aðferðafræði gulu pressunnar. Í þeim hópi eru Current Affairs, American Journal, Inside Edition og Hard Copy. Þetta efni er stundum kallað “tabloid” nútímans.
Oft er beitt huldum myndavélum við að búa til þetta efni. Auglýsingarnar segja: “Hversu öruggur er uppáhalds skyndibitastaðurinn þinn. Þú færð að vita það á American Journal í kvöld og svarið kann að valda þér magatruflunum.”
Dæmi um sjónvarpsmann í rannsóknablaðamennsku, sem fæst við hraðan akstur trukka, sem fara of nálægt öðrum bílum á þjóðvegum. Átti hann að sýna leikna mynd (docudrama) af slíku tilviki til að ná dramatíkinni eða birta sanna mynd, sem sýndi það verr?
Auglýsingalausu sjónvarpsstöðvarnar hafa líka rannsóknablaðamennsku. Útkoman er yfirleitt lengra og dýpra efni en á hinum stöðvunum og fjallar um mál, sem ekki er eins líklegt til skyndivinsælda eins og rannsóknarefni hinna stöðvanna.
Brant Houston, Len Bruzzese & Steve Weinberg,
The Investigative Reporter’s Handbook
A Guide to Documents, Databases and Technologies
4th Edition
2002