0628
Rannsóknir
Tæknileg blaðamennska II
Munurinn á framkvæmd bandarísku sólskinslaganna og íslensku upplýsingalaganna er einkum tvenns konar.
Í fyrsta lagi afhenda bandarísk stjórnvöld fjölmiðlum beinan og ókeypis aðgang að gagnabönkum, ýmist á CD-diskum eða með beinlínutengingu.
Hér geta menn hins vegar aðeins spurt fáa gagnabanka ákveðinna spurninga, en ekki annnarra. Til dæmis er hægt að leita eftir götunúmeri í fasteignaskrá og eftir bílnúmeri í ökutækjaskrá, en í hvorugu tilvikinu eftir eigandanum, kennitölu hans.
Hér á landi er aðgangur að gögnum mikið hugsaður út frá sérstökum stéttum á borð við fasteignasala og bílasala, en ekki blaðamönnum. Oft er blaðamaður í samstarfi við aðila, sem eiga léttari aðgang að gagnabönkum.
Kostur við bandaríska kerfið er, að blaðamenn geta þá borið einn banka saman við annan og fundið tengsl, sem hvorugur bankinn sýndi einn og sér. Það er einmitt þetta, sem íslensk stjórnvöld eru hrædd við, þau vilja ekki, að þetta sé hægt. Það heitir Persónuvernd.
Bandaríkjamenn eru ekki eins viðkvæmir fyrir mannanöfnum. Þau eru alls staðar í skrám, svo sem í málflutnings- og dómaskrám. Hér taka dómstólar út nöfn manna, áður en þeir setja slík gögn á netið. Meira að segja Úrskurðarnefnd upplýsingalaga.
Almennt má segja, að eignarhald og peningamál séu ekki talin einkamál vestra og raunar ekkert, sem gerist utan heimilis. Hér er hins vegar tilhneiging til að telja eignarhald og fé og dóma til einkamála og ýmislegt ferli fólks utan heimilis líka.
Í öðru lagi verða menn hér yfirleitt að borga fyrir aðgang að skrám. Vestra er það hins vegar talin vera skylda stofnana, sem kostaðar eru af almannafé, að láta almenningi í té endurgjaldslausan aðgang að skrám, sem þar verða og eru til. Skattskrá (álagningarskrá) er hér opin (en ekki í stafrænu formi).
Í þriðja lagi ríkir í Bandaríkjunum efahyggja í garð embættismanna, en hér er þeim frekar treyst. Það er prinsípmál vestra, að opinn sé aðgangur að gögnum opinberra starfsmanna, en hér sætta menn sig heldur við, að þau séu sérmál þeirra og megi vera það.
Í fjórða lagi er fremur litið upp til hnýsni vestra, en hér litið niður á hana. Þar sem blaðamennska er fyrst og fremst fag um forvitni, hafa blaðamenn hagsmuni af því að reyna að þreyta varðmenn leyndarhyggju og fá opinber gögn opinberuð öllum, sem sjá vilja.
Tilvísun til vinnubragða vestra og kennslubækur þaðan hafa gildi hér á landi, því að við þurfum að vita, hvað starfsbræður okkar geta gert. Við þurfum að vita, hvernig við eigum að knýja á kerfið með óskum um úrbætur. Íslensk kerfi leka eins mikið og erlend kerfi.
Tölvuþekking er lykill að starfi í blaðamennsku. Sá, sem getur safnað upplýsingum og unnið úr þeim hraðar en áður, mun ná betra samhengi og þróa betri skilning á umræðuefninu, ná betri viðtölum og geta skrifað af meira öryggi en hinir.
Án skilnings á kostum og göllum tölvunnar er torsótt fyrir blaðamann að skilja, hvernig heimurinn virkar, og að segja frá því. Sá, sem treystir á aðra við að vinna úr gagnabönkum, missir tök á viðfangsefninu í hendur þeirra, sem það kunna.
Blaðamenn, sem sjálfir nota gagnabanka, losna við spuna og fordóma embættismanna og annarra, sem snyrta gagnabanka fyrir fjölmiðla. Blaðamaður, sem vinnur vinnuna sína sjálfur, losnar við blekkingar og kemst nær sannleika málsins.
Fimm meginaðferðir:
1) Upplýsingar á netinu og veraldarvefnum (tölvupóstur, umræðuhópar, gagnabankar)
2) Töflureiknar.
3) Gagnagrunnar.
4) Tölfræðiforrit.
5) Kortaforrit.
Töflureiknar á borð við Microsoft Excel eru góðir í reikningi. Þeir leggja saman dálka og línur, bera töflur saman, raða töflum og setja niðurstöðurnar fram í gröfum. Þú getur gert ótalmargt fleira, en þetta eru hornsteinarnir.
Gagnagrunnar á borð við FileMaker og Microsoft Access eru góðir við leit, við að taka saman heildir og finna afstöðu milli hluta. Gagnagrunnar ráða við margfalt fleiri skráningar en töflureiknar, sem sumir fara ekki upp fyrir 64.000 skráningar.
Tölfræði kemur síðar, þegar menn hafa náð tökum á tölvuvinnslu í töflureikni og vilja finna meðaltöl, hágildi og miðgildi, ýmis staðalfrávik og aðrar reikningsaðferðir, sem tíðkast í félagsvísindum og t.d. læknisfræði.
Kortaforrit, einkum ArcView eru notuð til að sameina kort og gröf.
Félagsnetsforrit eru notuð til að sýna á grafískan hátt bein og óbein tengsli milli manna, rekja víxlsetu í stjórnum fyrirtækja, mikið notuð í viðskiptafræði.
Besta leiðin til að læra tölvuvinnslu er að æfa sig. Þú verður að prófa að nota ýmiss konar leitaraðferðir í gagnagrunnum, sjá útkomurnar og finna, hvaða leið gefur skýrasta mynd af því, sem þú ert að fjalla um og gefur greiðust svör.
Blaðamenn þurfa að kunna að leita að gögnum í tölvu og að skoða þau í tölvu, af því að stjórnvöld og fyrirtæki nota tölvur til að vista gögn og dreifa þeim. Þetta er kunnátta, sem auðveldar nýjum blaðamanni að fá starf í greininni.
Blaðamenn þurfa að vera fljótir að átta sig á, hvert sé lágmark sögunnar. Það er sú minnsta frétt, sem þeir muni ná, ef leitin gengur illa. Hugtak lágmarksfréttar hjálpar þeim að skipuleggja og selja fréttina. Birting lágmarksfréttar kemur líka að gagni.
Helstu tæki blaðamannsins eru töflureiknir, gagnagrunnur og netgögn. Þegar hann hefur lært á þau, er hann fljótur að safna gögnum og kanna þau. Besta leiðin til að læra á þau er með reynslu, endurtekningum og sköpunargáfu.
Brant Houston
Computer-Assisted Reporting
A Practical Guide
3rd Edition
2004