0633
Rannsóknir
Tölvuvinnsla I
Gagnabankar eru misjafnlega aðgengilegir, stundum verðlagðir. Stundum er þeim haldið fyrir þér af öryggisástæðum eða einka- og fjármálaástæðum. Þannig getur listi yfir erlendar gjafir til embættismanna verið flokkaður sem utanríkismál eða einkamál.
Blaðamaður þarf að kunna að beita þrýstingi til að ná gagnabönkum, sem ættu að vera opnir öllum fyrirvaralaust í gegnsæju lýðræðisríki. Fyrst þarf að vita um tilvist banka, síðan að semja um hann og loks að flytja hann yfir í þína tölvu.
Því miður hefur skapast sú venja hér á landi, að embættismenn neita kerfisbundið að afhenda gögn og vísa á Úrskurðarnefnd, þar sem ferlið getur tekið fjóra mánuði samkvæmt reynslu. Þetta er náttúrlega freklegt brot á grundvallarforsendum lýðræðis.
Stundum þarf að þjarka við embættismenn um upplýsingaskyldu stjórnvalda og vitna í bandarísku sólskinslögin eða íslensku upplýsingalögin. Afhending má ekki bara ná til bankans, heldur líka til skýringa á heitum, sem þarf að hafa til að skilja bankann.
Samkvæmt upplýsingalögum þarf embættismaður að hafa góða afsökun til að neita þér um gagnasöfn. Samkvæmt þeim er ekki gerður greinarmunur á gagnasöfnum og völdum upplýsingum úr þeim. Því miður ber úrskurðarpraxís vott um vonda trú nefndar.
Þú átt hins vegar ekki að þurfa að gefa neina skýringu á óskinni. Þú þarft ekki að tala um meintar þarfir lesenda. Skattgreiðendur hafa borgað fyrir bankann og þú þarft efnislega bara að segja: “Þú hefur hann. Ég vil hann. Komdu með hann.”
Mundu eftir því, að lýðræðisþjóðfélag byggist á gegnsæi, svo að kjósendur hafi gögn til að styðjast við í mati sínu á þjóðfélaginu. Í slíku þjóðfélagi er það skylda blaðamanna að heimta gögn, þótt embættismenn og úrskurðarnefndir andæfi.
Athugaðu, að fari svo, að úrskurðarnefnd um upplýsingamál neiti afhendingu, er oft hægt að fá þingmann til að leggja fram sömu ósk. Um slíkar óskir gildir önnur málsmeðferð, sem er gegnsæisvænni en sú, sem blaðamenn þurfa að sæta.
Dæmi um íslenskan gagnabanka er Íslendingabók deCode Genetics á vefnum. Samkvæmt reglum Persónuverndar er hann þannig settur upp, að þú getur rakið þína eigin ætt, en ekki annarra, til dæmis ekki afkomendur systkina forfeðra þinna.
Aðgengi íslenzkra blaðamanna að gögnum á vefnum er svo lélegt, að erfitt er að ímynda sér, að það geti haldist lengi í böndum Úrskurðarnefndar upplýsingalaga og Persónuverndar. Fjölmiðlar og samtök blaðamanna þurfa að hvetja til breytinga.
Góðir gagnabankar eru til úti um allar trissur. Skoðaðu gagnabanka Seðlabankans og Neytendasamtakanna. Margir gagnabankar erlendis eru afleiddir, búnir til úr tveimur eða fleiri gagnabönkum frá opinberum aðilum. Indexering slíkra banka varð góð eftir 2000.
Í Bandaríkjunum er til sölu “Federal Data Base Finder” á geisladiski á tæpa 60 dollara. Í honum er listi yfir þúsundir opinberra gagnabanka í Bandaríkjunum. Slíkum gagnabönkum um gagnabanka hefur fjölgað á síðustu árum.
Þar fyrir utan getur þú verið viss um, að hver einasta opinber stofnun er full af gagnabönkum. Þegar þú heimsækir slíkar stofnanir, sérð þú hvarvetna fólk vera að skrá upplýsingar inn í slíka banka. Þú átt að geta óskað eftir diski eða beintengingu.
Ef þú sérð töflu á blaði, getur þú verið viss um, að hún kemur úr gagnabanka eða töflureikni. Ef þessar upplýsingar lofa góðu um, að gagn sé að safninu, áttu að óska eftir aðgangi. Mundu, að fylgja þurfa skýringar á nöfnum dálkanna.
Þegar þú sérð gagnabanka á netinu, er hugsanlegt, að hann sé úrdráttur úr stærri banka. Sá banki kann að hafa upplýsingarnar, sem þú finnur ekki í þeim hluta, er birtur hefur verið á netinu. Er einhver í stofnuninni, sem vill leka?
Dæmi eru um, að stofnanir fullyrði, að viðkomandi banki sé ekki til, til dæmis af því að embættismenn nenna ekki að verða við ósk þinni eða af því að þeir óttast, að þar sé eitthvað, sem óheppilegt sé, að þú finnir. Þeir verði síðar skammaðir fyrir.
Tölvufræðingar semja skýrslur um innihald gagnabanka. Mikið var gert að slíku í tengslum við árið 2000, þegar margir gagnabankar voru lagfærðir. Þú átt að biðja um að fá að sjá þessar skýrslur. Þar kemur oft fram, hvað fellt hefur verið út.
Þrjú stig eru í erfiðri leit:
1) Talaðu við skráningarfólk, sem er ekki að leika pólitíkusa. Það veit, hvaða upplýsingar það er að skrá.
2) Talaðu við tölvufólk. Það veit, hvaða upplýsingar það vistar og vinnur í tölvum.
3) Talaðu við stjórnendur. Þeir vita, hvaðan koma gögnin, sem þeir nota í skýrslum.
Í mörgum tilvikum vilja stjórnendur ekki tala við blaðamenn um slíka banka eða vilja jafnvel villa um fyrir blaðamönnum. Þess vegna er gott að hafa samband við fleiri aðila hjá stofnunum þeirra, svo að það minnki svigrúmið til ósanninda.
Fyrsta leiðin til að ná í gögn er að biðja um þau. Ekki skrifa strax formlegt bréf, sem setur málið beint í ferli til Úrskurðarnefndar, er í rauninni vill halda öllu leyndu, jafnvel árslaunum manna, sem vinna hjá skattgreiðendum.
Sumir blaðamenn heimsækja stofnanir og hafa með sér disk til að nota, ef aðstæður skapast til að fá afhentan gagnabanka. Það getur verið hægt að fá banka á einum stað, þótt annar neiti. En þú þarft að vita, hvað þú ert að biðja um.
Þú verður að vita um rétt þinn og takmarkanir á honum, ekki til að hóta að fara þá leið, heldur til að geta beitt eðlilegum þrýstingi. Vertu klár á þörfunum, kannski þarftu bara hluta bankans og kannski er auðveldara að fá þann hluta.
Brant Houston
Computer-Assisted Reporting
A Practical Guide
3rd Edition
2004