0642
Rannsóknir
Viðhorf fólks
Rannsóknir hafa leitt í ljós, að stuðningur almennings við rannsóknablaðamennsku rís og hnígur eftir skoðun fólks á því, hvað vaki fyrir fjölmiðlunum. Almennt er stuðningur, fólk vill töff blaðamennsku, ef hún styður hagsmuni samfélagsins.
Á sama tíma hefur stuðningur almennings við aðferðir fjölmiðlanna í rannsóknum farið á ýmsa vegu. Skoðanakannanir, umræða og dómsúrskurðir sýna, að fólk ætlast til, að fjölmiðlar fari eftir siðlegum og löglegum leiðum í rannsóknum þeirra.
Þótt blaðamenn haldi fram, að umdeildar aðferðir séu stundum nauðsynlegar til að ná árangri í rannsóknablaðamennsku, lítur fólk á, að þeir séu þar dómarar í eigin sök. Fólk mun þó áfram styðja rannsóknir og þær munu áfram verða í fjölmiðlum.
Faldar myndavélar hafa verið ofnotaðar og of mikið notaðar til að skemmta skrattanum í fólki. Traust á ónafngreindum heimildamönnum fer minnkandi og sumir fjölmiðlar forðast slíkt. Þeir, sem eiga harma að hefna, segja fjölmiðla “evil”.
Segja má, að viðhorf almennings til rannsóknablaðamennsku einkennist af spakmælinu “tilgangurinn helgar ekki meðalið”. Þótt ásetningur blaðamanna sé góður, réttlæti hann ekki aðferðir sem eru vafasamar siðferðilega eða lagalega.
Sérstaklega efast fólk um faldar myndavélar og hljóðnema, um að blaðamenn noti nafnlausa heimildamenn, og um að þeir greiði heimildamönnum fyrir upplýsingar. Um aðrar aðferðir er meiri sátt í þjóðfélaginu.
Viðhorf fólks er tvíeggjað. Það telur 1) að fjölmiðlar ráðist á einkalíf fólks, 2) að fjölmiðlar gefi skakka mynd af raunveruleikanum og 3) að fjölmiðlar séu sekir um æsing, blási hluti upp úr réttum hlutföllum.
En fólk 1) vill líka vera upplýst um gang mála og fá alla söguna, 2) vill að komið sé upp um glæpi, fólk sé heiðarlegt og sannleikurinn komi í ljós, og 3) telur fjölmiðlana þjóna hlutverki eftirlitsaðila með gangverkinu í kerfinu.
Sjónvarp í vanda:
Á yfirborðinu var mikið um rannsóknir í sjónvarpsfréttum síðasta áratug 20. aldar. En margir telja, að ekki sé allt sem sýnist. Markmið þessara þátta sé fremur að skemmta fólki en að veita því fréttalega næringu.
60 Minutes var fyrsti rannsóknaþátturinn í sjónvarpi og er enn sá besti. Einnig hafa komið Dateline og Prime Time Live, sem eru þó meiri skemmtiþættir. Þessir þættir eru ódýrir í framleiðslu, kosta bara brot af því, sem skemmtiþættir kosta.
Fréttaskýringaþættir í sjónvarpi hafa iðulega farið út böndum, til dæmis í Simpson-málinu, þar sem þáttastjórar voru eins og úlfahópur að tæta í sig hræ. Að sumu leyti hefur minnkað munurinn á þessum þáttum og raunveruleikaþáttunum. Ath. Lewinsky.
Munurinn á Watergate-fréttum Washington Post og Lewinsky-fréttum sjónvarps er mjög mikill. Annars vegar var fjallað um hornstein þjóðskipulagsins og hins vegar um ástarsamband í Hvíta húsinu.
Æsingslegur upplestur á glannalegum texta, notkun mynda og hljóðs í þeim stíl, allur pakkinn af dramatík er notaður í sjónvarpsþáttum, sem segjast vera rannsóknir. Sjónvarpið árið 2000 er orðið eins og blöðin voru árið 1700.
Slíkir þættir í sjónvarpi eru arftakar smábrotsblaðanna (tabloid). Þeir snúast öðrum þræði um vinsælt skemmtiefni. Auk þess hefur alltaf verið leyniþráður milli æsifréttamennsku annars vegar og alvörugefinnar rannsóknablaðamennsku hins vegar.
Báðir aðilar segja sögur af sekum glæpamönnum og saklausum fórnardýrum, báðir aðilar fara með háð og spott, báðir aðilar lifa og falla með uppljóstrunum sínum. Enda hafa smábrotsblöð fengið verðlaun fyrir fréttaflutning.
Í eðli sínu er siðferðishyggja að baki fréttaþáttanna og gömlu æsingsblaðanna. Báðir aðilar eru íhaldssamir, verja hefðbundið siðferði og gagnrýna þá, sem víkja af vegi þess. Gagnrýnin er alvörugefin, þótt hún sé yfirborðskennd á köflum.
Stuðningsmenn æsingsfrétta í sjónvarpi og dagblöðum segja, að hefðbundin blaðamennska sé yfirstéttarleikur, sem feli í sér hræsni og yfirdrepsskap og sé úr sambandi við veruleika fólks.
Æsingsfréttir í sjónvarpi hafa bjargað mannslífum, leitt til handtöku glæpamanna, bætt lagasetningu. Þær eru oft betri en fréttaskýringarnar. Auk þess eru þær vinsælar og auka tekjur sjónvarpsins.
Rannsóknablaðamennska þarf að vera áhugaverð og skemmtileg til að fólk vilji nota sér hana án þess að detta niður í skrum. 60 Minutes er enn í dag dæmi um farsælan meðalveg í rannsóknum, mjög vinsæll þáttur, sem oft sýnir vandaða blaðamennsku.
Ekki má búa til girðingu milli mikilvægrar og lítilvægrar blaðamennsku eins og milli mikilvægrar og lítilvægrar tónlistar, þannig að yfirstéttin noti leiðinlega blaðamennsku og almenningur halli sér að skemmtun í blaðamennsku.
Við megun ekki gleyma, að frá upphafi hefur það verið besta blaðamennskan, sem felur í sér, að miklir sögumenn segja skemmtilegar sögur, sem eru vinsælar um leið og þær eru sannar.
Marilyn Greenwald & Joseph Bernt The Big Chill 2000