0644 Dómsmál

0644

Rannsóknir
Dómsmál
Marilyn Greenwald & Joseph Bernt
The Big Chill
2000

Hafa ber í huga, að þessi höfundur eins og fleiri höfundar þessarar bókar tekur ekki tillit til veraldarvefsins, þar sem nýjar tegundir fjölmiðla hafa komið til sögunnar, t.d. Wiki. Þótt staðan hafi versnað á sjónvarpi, hafa kostir komið með veraldarvef.

Dómstólar hafa ákveðið, að það afsaki ekki ólöglega framgöngu að vera blaðamaður. Árið 1964 úrskurðaði Hæstiréttur, að þeir, sem saka blaðamenn um meiðyrði, verði að sýna fram á illvilja (actual malice) blaðamannsins, að hann hafi vitað betur.

Blaðamennska Seymour Hersh, Bob Woodward og Carl Bernstein hefði ekki getað gengið, ef Hæstiréttur hefði ekki kveðið upp þennan úrskurð. Fyrir þann úrskurð hefðu þeir verið teknir í gegn fyrir meiðyrði.

Hugmyndaríkir lögmenn fjársterkra aðila eru tilbúnir að ryðja fram margvíslegum kærum, sem eru byggðar á ýmsum lagalegum forsendum, sem snúast ekki um rétt eða rangt í fréttaflutningi, heldur um það, hvernig upplýsinganna var aflað.

Lög, sem takmarka hegðun fólks almennt, svo sem bann við skráningu símtala á segulbönd, eru ekki andstæð stjórnarskránni, þótt beiting þeirra gegn pressunni geti í sumum tilvikum takmarkað getu þeirra til að safna fréttum og skrifa þær.

Ljóst er þó, að meiðyrði hafa takmarkað gildi, ef þau snúast um opinbera persónu. Ennfremur hafa dómstólar ekki heimilað sækjendum að túlka meiðyrði sem eins konar “tort”, sem hægt sé að stöðva fyrirfram með lögbanni.

Með þessum undantekningum hefur áratugurinn 1990-2000 einkennst af áður óþekktri stærðargráðu af árásum á rétt blaðamanna til að safna fréttum. Málaferli byggjast nú á meintum svikum, einelti, för inn á einkasvæði og takmörkunum á einkalífi.

Dómurinn gegn ABC vegna réttra skrifa um sóðalega framleiðslu matvæla er dæmi um, að keðjufyrirtæki í matvælaframleiðslu gat náð háum skaðabótum með því að snúa málfærslunni um röng vinnubrögð sjónvarpsmanna við öflun efnisins.

Í framhaldi af þessu máli fór að rigna inn kærum á blaðamenn. Sumir kvörtuðu um, að ró þeirra hefði verið raskað af völdum blaðamanna. Aðrir veifuðu “rétti þess að vera látinn í friði”, samkvæmt orðavali dómaranna Warren og Brandeis.

Dómstólar í Bandaríkjunum hafa þennan áratug verið í úlfakreppu milli frelsis til tjáningar og frelsis til að vera í friði, baráttu málfrelsis og einkalífs. Fólk hefur tekið eftir þessu og fleiri leggja stein í götu blaðamanna.

Sem dæmi má nefna, að lögregla er tregari en áður við að taka blaðamenn með sér í útköll, af því að lögmönnum hefur tekist að hnekkja málum á þeirri forsendu, að óviðkomandi aðilar hafi farið á einkalóð og verið viðstaddir handtöku, húsleit.

Dómstólar hafa farið tvær leiðir til að takmarka fjölmiðlun. Þeir hafa dæmt fyrir ónæði blaðamanna á almannafæri og þeir hafa gefið málsaðila tækifæri til að fá stöðvaða birtingu efnis meðan beðið sé eftir niðurstöðu dóms, það er að segja lögbann.

Lög gegn hegðun ljósmyndara, paparazzi, eru þess eðlis, að þeim er einnig hægt að beita gegn öðrum þeim, sem safna upplýsingum. Þau geta gert eðlilega fréttaöflun að lögbroti, einkum á þeim grundvelli, að hún sýni skort á smekkvísi, mannasiðum.

Slæmt er, að í sumum tilvikum láta fjölmiðlar ekki reyna á dómsmál, heldur semja um skaðabætur til að spara fé og fyrirhöfn. Þannig hætti CBS við að birta frétt um tóbaksfyrirtæki, ekki vegna innihalds, heldur vegna aðferða við fréttaöflun.

Það eru ekki lengur stjórnvöld, sem ógna fjölmiðlun, heldur fjársterkir aðilar í þjóðfélaginu, fyrirtæki og einstaklingar, sem stefna að því að hrekja fjölmiðla til þagnar, áður en þeir birta fréttir. Þeir fara í önnur mál en meiðyrðamál.

Sumir dómar hafa falið í sér, að ekkert er litið á, hvort frétt sé rétt eða að einhverju leyti röng, heldur snúast eingöngu um aðferðir við öflun fréttar. Og nokkrum sinnum hafa verið kveðnir upp dómar, sem banna birtingu fyrirfram, eru lögbann.

William Brennan sagði, að nauðsynlegt væri að verja pressuna, ekki bara þegar hún segir frá, heldur líka, þegar hún er að gera allt það marga og smáa, sem þarf til að afla fréttarinnar og byggja hana upp. Á þessu er orðinn misbrestur. Málfrelsið er skert.

Til að koma skikk á misræmi í dómum, verða dómstólar að viðurkenna, að viðauki nr. 1 við stjórnarskrána feli ekki bara í sér málfrelsi, heldur veiti líka vörn gegn tilraunum til að hefta fréttaöflun eins og gegn yfirlýsingum um meiðyrði.

Wall Street Journal var dæmt árið 1998 til að greiða yfir 220 milljónir dollara fyrir frétt, sem fól í sér, að fyrirtæki í öryggisgæslu hefði mjólkað viðskiptavin. Slíkar upphæðir fela í sér refsiþyngjandi sjónarmið. Farið er að bera á slíku hér, t.d. Bubbi.

Til þess að standa undir 220 milljón dollara sektargreiðslu þarf blað á borð við Wall Street Journal að greiða 287 þúsund dollara mánaðarlega af tryggingu. Hætt er við, að tryggingafélög vilji með sama framhaldi hafa afskipti af efni blaða.

Lítil útgáfufyrirtæki geta ekki lifað án tryggingar fyrir slíkum uppákomum. Fyrst var það erfitt, því að þá var bannað að tryggja sig fyrir refisþyngjandi þáttum skaðabóta. Tryggingafélög urðu að starfa erlendis til að bjóða slíka tryggingu.

Kennarar við blaðamanannaskóla eru farnir að ráðleggja nemendum sínum að kanna, hvort væntanlegir vinnuveitendur hafi lögmenn tagltæka á sínum snærum og hafi tekið sér góða tryggingu gegn kostnaði við meiðyrði.

Þetta kemur líka niður á blaðamönnum. Þeim, sem unnu fyrir North County Times við San Diego, var neitað um heimilistryggingu af því að þeir væru í svo áhættusömu starfi gagnvart skaðabótakröfum. Blaðamenn taka auðvitað eftir slíku.

Marilyn Greenwald &
Joseph Bernt
The Big Chill
2000